Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

„Ég heiti Gunnar Jónsson og ég stel skeiðum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Gunnar Jónsson viðurkennir fyrir alþjóð að hann er skeiðaþjófur. Þetta byrjaði með einni skeið sem hann stal á tælenska veitingastaðnum Ban Thai sem nú hefur þróast upp í það sem hann kallar skeiðasýki.

Játningu Gunnars má finna í færslu hans á Facebook þar sem hann lýsir því ítarlega þegar hann stal sinni fyrstu skeið. Það gerði hann fyrir nokkrum mánuðum síðan í hefndarskyni vegna lélegrar þjónustu. „Þeir sem þekkja til vita að Ban Thai á Laugaveginum býður í senn upp á einn besta tælenska mat landsins og verstu þjónustu sem völ er á. Algjört yin og yang. Umrætt kvöld var þjónustan einmitt hræðileg og í þokkabót var hávær hópur af plebbum á borðinu við hliðina á okkur sem voru eins og klipptir út úr American Psycho: Þeir hlógu groddalega og óeinlægt að lélegum bröndurum hvors annars sem allir voru á kostnað einhvers. Kragarnir á skyrtunum þeirra voru ekki í sama lit og afgangurinn af skyrtunum þeirra. Það voru axlabönd,“ segir Gunnar og heldur áfram:

„Gæjarnir voru meira að segja svo óþolandi að ég spurði vélmennastelpuna sem er búin að þjóna til borðs þarna í 15 ár án þess að eldast um dag hvort hún væri með annað borð fyrir okkur sem væri ekki alveg ofan í þessum háværu, verðandi morðingjum, en hún starði bara dauðeygð á mig og sagði að það væri allt fullt. Ég ákvað að hlífa henni við þeirri staðreynd að ég væri fullkomlega meðvitaður um að það væri heil efri hæð á staðnum sem væri auð (og er nánast aldrei notuð, væntanlega því það væri hreinlega of mikil þjónusta!) svo ég settist aftur.“

Það var hér sem Gunnar rændi sinni fyrstu skeið. Mynd / Skjáskot Facebook.

Þrátt fyrir óbærileg læti í öðrum gestum veitingastaðarins segir Gunnar að maturinn hafi verið gómsætur. Þá tók við annað vandamál sem fór óstjórnlega í taugarnar á tónlistarmanninum. „En ég tók eftir því að skammtarnir voru orðnir töluvert minni en áður og til viðbótar fylgdu hrísgrjónin ekki með eins og í gamla daga, heldur þurfti að borga aukalega fyrir þau. Ég nefndi þetta við manneskjuna sem sat við hliðina á mér en hún heyrði ekkert í mér því American Psycho-plebbarnir voru að fá enn eitt falska hláturskastið yfir brandara um einstæðar mæður. Allt þetta varð til þess að ég fór að finna fyrir nokkurri biturð. Þvílík svívirða. Ég er almennt frekar meðvitaður um að vera sáttur við það sem ég hef og þessar aðstæður voru skilgreiningin á fyrsta heims vandamáli. En á sama tíma gat ég ekki afneitað biturðinni sem var farin að krauma,“ segir Gunnar.

Gunnar fór á þessum tímapuntki að velta fyrir sér hvernig hann gæti brugðist við til að geta gengið sáttur frá borði. Hann útilokaði að kvörtun eða endurgreiðslubeiðni myndi nokkru skila. „Skyndilega varð ég fyrir vitrun: Ég ákvað að það eina rétta í stöðunni væri að stela skeið af borðinu! Án þess að hika seildist ég í myndarlega skeið sem lá ónotuð fyrir framan mig og setti hana umsvifalaust í brjóstvasann á jakkanum mínum. Ég passaði að skeiðin væri mjög sýnileg þar sem hún stakkst upp úr vasanum. Að fela skeiðina var í mínum huga smánarlegt, en að fjarlægja skeið af Ban Thai fyrir opnum tjöldum var á því augnabliki það heiðarlegasta sem mér datt í hug: Ban Thai býður upp á verri og verri þjónustu með hverjum deginum sem líður. Ég tek af þeim skeið! Og ef silkiklæddi róbótinn vill skanna mig og yfirbuga á leiðinni út þá er það hennar réttur. Jafntefli. Kosmísku jafnvægi er náð,“ segir Gunnar.

„Ég er í senn flón og þrjótur og það er ekki rétt að leyna því.“

Gunnar slapp útaf staðnum með skeiðina sem hann segir í dag vera fallegustu og sterkbyggðustu skeið heimilisins. Hann langar í fleiri. „Nú er hinsvegar komin upp sú undarlega staða að gjörningur sem hófst sem tilraun til að halda tilfinningalegu og kosmísku jafnvægi hefur snúist upp í siðspilltan masókisma: Ég þrái nú ekkert heitar en að komast fljótt aftur á Ban Thai með hópi fólks svo ég geti fengið slæma þjónustu og stolið fleiri skeiðum. Ég þarf fleiri skeiðar, gott fólk. Þetta er án gríns besta skeið sem ég hef notað. Hún er djúp, þung og fallega sveigð og ég vil meira! Og ég hugsa dreyminn til plebbahópsins sem gerði mér kleift að stela henni og sakna hlátursins og glæsilegra axlabandanna og kalds augnaráðs vélmennastelpunnar,“ segir Gunnar sem þykir mikilvægt að viðurkenna hver hann raunverulega er:

- Auglýsing -

„Mér finnst ótækt að þið eigið mig sem Facebook vin án þess að vita hver ég er. Hver ég raunverulega er. Ég heiti Gunnar Jónsson og ég stel skeiðum ef mér finnst það eiga við. Ég hika ekki við það! En það sem hófst sem tilraun til að vera frjáls þróaðist út í enn annað form af helsi og löngun. Ég er í senn flón og þrjótur og það er ekki rétt að leyna því. Leynd fylgir samviskubit og samviskubit er alveg jafn slæmt og biturð. Því kem ég nú hreint til dyra með þetta allt saman. Ykkur er í sjálfsvald sett hvort þið tilkynnið stuld minn til Ban Thai eða lögreglunnar eða njótið einfaldlega frásagnarinnar án þess að grípa til aðgerða.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -