Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

„Ég lít ekki Tenerife sömu augum eftir þetta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íslensk kona segir fleiri Íslendinga hafa orðið fyrir árásum á hinum vinsæla ferðamannastað Tenerife.

 

Mannlíf hefur heimildir fyrir því að árásin á íslensku feðgana á Tenerife, sem var greint frá í síðasta tölublaði, sé ekkert einsdæmi. Íslensk kona sem vill ekki láta nafns síns getið segir í samtali við Mannlíf að ráðist hafi verið með hrottafengnum hætti á tvo Íslenska karla þar í janúar á þessu ári og að árásarmennirnir hafi beitt svipuðum aðferðum og í máli feðganna sem var byrlað ólyfjan, þeir rændir og beittir ofbeldi.

„Þetta voru mjög alvarlegar árásir. Annar mannanna var barinn og rændur. Hinn var ekki rændur en hann var laminn – mjög illa. Hann var með það mikla áverka á höfði að hann fékk blæðingu inn á heila, þurfti að vera í hjólastól og var í tímabundnu flugbanni. Þessir menn þurftu báðir að dvelja á spítala eftir þetta,“ lýsir konan sem var þá sjálf nýkomin til Tenerife og gisti á sama hóteli og mennirnir tveir þegar atvikið átti sér stað.

„Þetta voru mjög alvarlegar árásir.“

Hún segir fólk og einkum Íslendinga á svæðinu hafa verið slegna óhug vegna árásarinnar. „Fólk var hreinlega í áfalli. Sjálfri stóð mér ekki á sama, mér leið ekki vel og ég var mjög óörugg eftir þetta, enda var hótelið okkar bara í fimm mínútna göngufjarlægð frá verslunargötunni þar sem árásin var framin.“ Umrædd gata heitir, að hennar sögn, Veronicas og er mjög vinsæll viðkomustaður meðal Íslendinga á Tenerife. Gatan er einmitt sú sama og þar sem ráðist var á íslensku feðgana fyrrnefndu; þegar ólyfjan var sett út í gosdrykki þeirra á veitingastað einum, Joyce, með þeim afleiðingum að þeir rotuðust, voru rændir og skildir eftir á bak við ruslagám, þar sem þeir komust svo til meðvitundar um fjórum klukkustundum síðar, illa áttaðir og lemstraðir.

Segir konan að fleiri atvik af þessum toga hafi komið upp á Tenerife á meðan hún dvaldi þar. Til dæmis hafi verið ráðist á tvær erlendar konur á svæðinu, á svipuðum tíma og árásin á Íslendingana tvo átti sér stað.

„Konurnar, sem ég held að hafi verið breskar, voru teknar nauðugar og skildar eftir illa farnar,“ lýsir hún, en erlendir fjölmiðlar hafa undanfarið greint frá svipuðum tilfellum. Þannig fjallaði írska útgáfan af The Independent til dæmis í síðasta mánuði um svipaðar árásir á írska ferðamenn á Tenerife og í einu tilfelli virðist maður hafa horfið sporlaust. „Þetta er mjög óhugnanlegt allt saman. Það er eins og það sé einhver faraldur þarna,“ segir konan.

„Það er eins og það sé einhver faraldur þarna.“

- Auglýsing -

Spurð hvort hún viti til þess að mál Íslendingana tveggja sé upplýst segist hún ekki vita það. Hún viti því ekki hverjir voru að verki, hvort til dæmis rúmenska mafían sem er talin tengjast árásinni á feðgana, eins og greint var frá á man.is, eigi hluti að máli.

„Eina sem ég veit er að þegar við vorum þarna þá var eins og það væri verið að reyna að þagga þetta mál svolítið niður. Eins og menn vildu ekki að þetta spyrðist út, af ótta við að það kynni að skemma fyrir túrismanum,“ segir hún. „Sjálf hef ég margoft verið þarna en ég lít ekki Tenerife sömu augum eftir þetta.“

Sjá einnig: „Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir“

- Auglýsing -

Sjá einnig: Telur árás á íslenska feðga tengjast mafíunni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -