Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Ég stal þessum hundi ekki”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef aldrei sagt neitt ljótt um Ernu. Ég og maðurinn minn höfum hins vegar reynt að aðstoða hana eins mikið og við höfum getað því ég þekki þessa tegund nokkuð vel. En hún hefur því miður ekki tekið því með jákvæðu hugarfari og oftast snúið því við,” segir hundaræktandinn og grunnskólakennarinn Larisa Viktorsdóttir.

Larisa segist hafa orðið fyrir miklu aðkasti eftir að viðtal við annan hundaræktanda, Ernu Christiansen, birtist á vef Mannlífs, en bæði Erna og Larisa rækta hunda af tegundinni Russian Toy. Í viðtalinu sagði Erna frá einelti sem hún hefur þurft að þola innan hundasamfélagsins, en vændi einnig annan hundaræktanda um þjófnað.

„Ég var búin að greiða fyrir hund úti í Rússlandi og bað annan ræktanda um hjálp með rússneskuna, þar sem ræktandinn skildi litla ensku. Það endar á því að rússneski ræktandinn hættir að tala við mig og fékk ég loks að vita að hann væri hættur við að láta mig fá hundinn. Síðan kemur í ljós að ræktandinn sem ég bað um hjálp frá hafði í raun stolið af mér hundinum og flutti hann inn sjálfur,” lét Erna hafa eftir sér í umræddu viðtali. Larisa segir þessum orðum beint að sér, enda sé hún eini aðri ræktandi Russian Toy á Íslandi sem talar rússnesku þar sem hún er af rússnesku bergi brotin.

Hundurinn auglýstur til sölu

Hér er skjáskot af hundaauglýsingunni umræddu.

„Ég stal þessum hundi ekki. Ræktandinn auglýsti hundinn á Facebook í maí á síðasta ári. Hann var auglýstur til sölu á Facebook 16. maí 2017. Það sést hér á mynd sem ég sendi með. Sagðist hún vera hætt við að selja Ernu hann og hún skyldi selja mér hann í staðinn. Af hverju hún hætti við að selja hann til Ernu veit ég ekki. Ég reyndi að spyrja ræktandann af hverju en hún sagði að þetta væri mál á milli sín og Ernu. Meira veit ég ekki,” segir Larisa og ítrekar þá aðstoð sem hún hefur boðið Ernu.

„Ég og maðurinn minn meira að segja tókum að okkur ræktanda sem kom til landsins með hund fyrir Ernu og hún hafði ekki tíma til að sinna. Sá ræktandi hafði upp á mér og hringdi grátandi í mig og spurði hvort ég gæti sýnt henni um. Hún var peningalítil og nánast mállaus því hún talar ekki mikla ensku. Sá ræktandi vildi taka hundinn sem hún kom með til baka en ég sagði henni að hann yrði í lagi því Ernu þætti vænt um dýrin sín. Sá hundur lenti í slysi strax eftir einangrun og reyndi ég að styðja hana meðal annars með peningum fyrir aðgerð á hundinum, en hún bað um aðstoð á netinu. Þess vegna finnst mér ekki rétt hvernig hún talar um mig í greininni. Við bentum henni á lögmann sem hjálpaði henni þegar MAST vildi svæfa tík sem hún átti og kom sprautulaus til landsins í einangrun. Þannig að tíkin var send úr landi og komst til baka eftir mánuð. Við reyndum að hjálpa henni eins mikið og við gátum. Það getur verið að aðrir hafi talað illa um hana en við reyndum að standa með henni. En hún fer sínar eigin leiðir svo það er erfitt,” segir Larisa. Hún segir að eftir að kaupin gengu í gegn hafi Erna hætt að tala við sig og eiginmann sinn.

„Hún byrjaði að tala illa um okkur og kalla okkur ljótum nöfnum, sem og aðra ræktendur. Ég er kennari og stend ekki í svona samskiptum við fólk. Ég var búin að gefa henni góð ráð um ræktun og stinga uppá því að við gætum unnið saman, en hún tók öllu eins og við værum á móti henni. Ég bara skil þetta ekki. Mér líður mjög illa yfir þessu og ég var mjög sár að hún skildi segja þetta í greininni. Maðurinn minn sagði mér að taka þetta ekki nærri mér en á mjög erfitt með það. Þetta niðurlægði mig fyrst og fremst og mér finnst ekki rétt af henni að vera að deila þessari grein á hinum ýmsu samfélagsmiðlum,” segir Larisa.

- Auglýsing -

Mikið um baktal

Larisu þykir afar vænt um hundana sína.

Larisa hefur verið í hundaræktun í rúm tvö ár hér á Íslandi og segist hafa fundið vel fyrir því hvað þessi hundaheimur getur verið harður.

„Að rækta hunda er ekki bara dans á rósum,” segir Larisa og vísar í tvennt; að það sé hörkuvinna að vera hundaræktandi en líka að mikið sé um baktal í hundasamfélaginu.

„Kannski er það öfundsýki sem veldur þessum núningi á milli fólks og baktali. Ég bara veit það ekki. Ég upplifi það þannig að sumir innan hundasamfélagsins tala ekki einu sinni við mig. Ég stakk upp á því að við þrjár sem ræktum Russian Toy á Íslandi myndum hittast og tala saman, þar sem Russian Toy er ný tegund á Íslandi. En ekkert varð úr því, því miður, þannig að hvað get ég gert? Ég stend þá bara ein með sjálfri mér því ég er ekki fyrir það að standa í erjum við fólk. Erna sagðist ætla að kaupa marga hunda og vera númer eitt á Íslandi, sem er gott og blessað. En síðan spurði hún hvort ég vildi lána henni rakka undir tíkina sína og ég sagðist ekki vilja það strax því ég hefði keypt þennan rakka fyrir tíkina mína. Ég sagði það með vinsemd og virðingu en síðan kom greinina þar sem hún vændi mig um þjófnað,” segir Larisa og heldur áfram.

Á tegundarkynningu í Garðheimum.

„Það kom mér á óvart hvað Russian Toy hefur vakið mikinn áhuga hjá fólki hér á landi og mér finnst gaman hvað ég fæ mikið af spurningum um tegundina í gegnum Facebook. Í ræktuninni minni RustoyIceland legg ég áherslu á að vera með fáa en góða hunda. Því þetta er mikil vinna og tímafrek. Það þarf að hugsa mjög vel um hundana, leyfa þeim að aðlagast heimilinu og hverfinu og þar fram eftir götunum. Það getur líka verið erfitt að vera með hunda og tíkur því það getur orðið mikill hasar á heimilinu þegar tíkurnar eru á lóðaríi,” segir Larisa og hlær.

- Auglýsing -

Lítur framhjá erfiðleikunum

Larisa veit ekki hve lengi hún ætlar að halda áfram í hundaræktun og ætlar að leyfa tímanum að leiða það í ljós. Hún hefur alist upp með hundum allt sitt líf.

„Þetta er mitt áhugamál og ég sinni því af mikilli ánægju og ég lít framhjá erfiðleikunum sem geta fylgt. Ég man vel eftir því þegar ég fór á markaðinn í heimaborg minni og þar voru til sölu þessir krúttlegu, litlu hnoðrar með þessi stóru eyru og augu. Ég hef því verið heilluð af tegundinni í fjölda ára. Síðan ég kom til Íslands hefur það verið draumur minn að flytja Russian Toy inn hingað. Það var svo fyrir þremur árum að ég keypti minn fyrsta Russian Toy. Það má segja að einn stærsti galli þessarar tegundar sé að um leið og fyrsti hvolpurinn kemur á heimilið, langar mann strax í annan. Börnin mín eru farin af heimilinu, svo hundarnir fá alla þá athygli sem þeir þurfa og mikla ást og umhyggju,” segir Larisa.

Litlir hundar með stór hjörtu

Það stendur ekki á svörunum þegar blaðamaður spyr hvað það sé nákvæmlega sem heilli hana svo við Russian Toy hunda.

„Russian Toy eru skemmtilegir hundar, alltaf glaðir og mjög lifandi. Allt frá upphafi ræktunar þeirra hafa þeir verið þjálfaðir til rottuveiða og sem varðhundar og er því lærdómsgenið í þeim mjög virkt. Vegna þessa er mjög auðvelt að þjálfa Russian Toy og kenna honum. Margir sem koma og skoða þá eru mjög hissa á því hversu duglegir þeir eru. Einnig eru þeir mjög heilsuhraustir og ekki er vitað um að þeir valdi neinum ofnæmum og fara þeir lítið úr hárum. Svo las ég í grein að þeir séu góðir félagar fyrir börn með einhverfu þar sem þeir eru mjög trúir og passasamir á eigendur sína,” segir Larisa og heldur áfram.

Russian Toy eru með stór hjörtu – og eyru og augu.

„Það getur komið fyrir að það þurfi að passa Russian Toy í göngutúrum því þeir verja eiganda sinn ef þeir telja honum ógnað. Russian Toy er mjög góður fjölskylduhundur og verður mjög hændur að eiganda sínum. Hann passar öllum aldurshópum, bæði börnum og fullorðnum. Hann er tilvalinn félagi fyrir alla. Hann elskar að fara með eiganda sínum hvert sem er og vill helst ekki víkja frá honum. Þegar eigandi fer í göngutúr vill hann koma með og þegar eigandinn hvílir sig eftir á hvílir hundurinn sig einnig. Hann vill gera allt það sama og eigandinn gerir. Þetta eru litlir hundar með stór hjörtu.”

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -