„Ég tek þetta á þrjóskunni“

Deila

- Auglýsing -

Hákon Atli Bjarkason ætlar heilt maraþon, 42 kílómetra, í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól.

Óhætt er að segja að Hákon Atli Bjarkason, rekstrastjóri Pizzunnar, sé sannkallaður orkubolti, en fyrir utan að ætla að fara heilt maraþon, 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, þá æfir hann borðtennis og er Íslandsmeistari fatlaðra í borðtennis.

Hákon Atli Bjarkason lenti í alvarlegu bílveltu árið 2009 þegar hann sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan mænuskaða. Hákon segist þó aldrei hafa látið mænuskaðann stöðva sig, þvert á móti og á morgun ætlar hann að gera sér lítið fyrir og fara heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, 42 kílómetra hvorki meira né minna, sem er það mesta sem hann hefur farið.

„Ég hef tekið þátt síðustu 4 ár, tvisvar tíu kílómetra og tvisvar 21 kílómetra. Fyrst tók ég 10 kílómetrana til að sjá hvort ég gæti það, svo tókst mér að fara hálft maraþon og eftir það hef ég alltaf verið með það á plani að fara 42 kílómetra, en ég hef ekki lagt í það fyrr en nú. Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“ segir hann ákveðinn.

Hann viðurkennir þó að hafa ekki æft sig mikið, í raun hafi hann bara tekið tvær æfingar. „Í þeirri fyrstu tók ég 28 kílómetra. Hún var ógeðslega erfið en miðað við tempóið sem ég náði þá ætti ég að ná markmiðinu sem er undir fjórum tímum. Seinni æfingin gekk ekki síður vel þannig að ég er bjartýnn á að mér gangi vel á morgun.“

Lætur lítið stoppa sig

Talið berst að slysinu örlagaríka og Hákon segir að það sé nokkuð sem líði sér seint úr minni. „Ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Rétt hjá Skálafellsafleggjara í Mosfellsdalnum, á leiðinni til Reykjavikur. Stoppaði hjá afleggjaranum þar sem ég fann fyrir þreytu, lagði mig i kortér og þegar ég fer af stað er ég greinilega hálfsofnadi því kílómeter seinna vakna ég upp það við að bíllinn er að velta,“ lýsir hann alvarlegur.

Í kjölfar slyssins var Hákon fluttur með hraði á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og var í viku á gjörgæslu. Við tók ströng endurhæfing á Grensás þar sem hann var á legudeild frá júlí til desember. Hann viðurkennir að þetta hafi verið erfiður tími. Slysið hafi haft þau áhrif að aðstæður hans gjörbreyttust og það hafi tekið tíma að byggja upp þrek og styrk og komast á þann stað sem hann er í dag.

„Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“

„En maður aðlagast bara breyttum aðstæðum og ég er mjög sáttur við líf mitt í dag. Ég er í góðri vinnu og á kafi í íþróttum, hef líkleg aldrei verið duglegri að hreyfa mig,“ segir hann og nefnir í því samhengi að árið 2012 hafi hann endurvakið hjólastólakörfuboltann sem hafði þá legið í dvala síðan 1997. Þess utan æfi hann svo borðtennis og sé, sem stendur, Íslandsmeistari fatlaðra í íþróttinni.

„Ég læt voðalega lítið stoppa mig,“ segir hann og hlær þegar blaðamaður spyr hvar hann fái alla þessa orku. „Og mér finnst mikilvægt að ýta undir þann hugsunarhátt hjá öðrum,“ flýtir hann sér að bæta við. „Þess vegna hef ég til dæmis haldið námskeið um notkun hjólastóla í daglegu lífi bæði hér heima og úti, núna síðast á endurhæfingarnámskeiði í Svíþjóði. Þannig að kannski má segja að ég sé frekar orkumikill. Ég hef alla vega nóg að gera. Og ef eitthvað er finnst mér bara vanta fleiri tíma í sólarhringinn.“

Ætlar að ná takmarkinu

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ná takmarkinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, að fara það á undir fjórum klukkustundum, segist Hákon vera það. Svo framarlega sem veðurspáin bregðist ekki og það fari að rigna. „Ef það gerist, ef það verður grenjandi rigning þá verður gripið ekki mikið á dekkjunum,“ útskýrir hann, „sem þýðir að það verður þrefalt erfiðara að ýta sér áfram og ná góðu tempói. Við þannig aðstæður fær maður fljótt sár á hendurnar ætli maður að ná almennilegri keyrsl-u.“

Hann segist vita að þetta séu háleit markmið en það vinni með honum að vera drífandi að eðlisfari og í góðu formi. Auk þess sé hann búinn að fá góða hvatningu frá vinum og vandamönnum og öllum þeim sem hafa þegar heitið á hann í maraþoninu en eins og áður sagði, ætlar hann að taka þátt til styrktar SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra á Íslandi. „Það er frábært að fá þessa góðu hvatningu,“ segir hann glaður bragði. „Ég er mjög ánægður með hana, þetta á eftir að gefa manni aukinn styrk á morgun.“

- Advertisement -

Athugasemdir