2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Skoðun: Ég vil herma eftir Köben

„Og hérna á þessu kollegí, Öresundskollegínu, bjó Pawel Bartoszek, pistlahöfundur og síðar borgarfulltrúi.“

„Jájá?“

„Hann var í námi hérna, og hjólaði gjarnan héðan og upp í Jagtvej, þangað sem Kaupmannahafnarháskóli hafði flutt raunvísindadeildirnar. Svo hjólaði hann gjarnan í gegnum bæinn, til baka, stoppaði á einhverjum börum og hitti aðra Íslendinga.“

„Hvar voru þeir, gjarnan?“

AUGLÝSING


„Það er einn staður hérna í hliðargötu af Köbmagergade sem heitir Moose, „Elgurinn“, hann er hérna nú enn. Algjör búlla. Þeir fóru nú gjarnan hingað stúdentarnir, og voru oft rændir. Svo var neðanjarðarlestin byrjuð að ganga þarna, skömmu eftir aldamótin. Menn tóku hana oft heim en stundum var bara labbað, ef peningarnir voru búnir, eða menn vildu láta renna af sér.“

***

Þó að Egill Helgason hafi ákveðið að láta þætti sína um Kaupmannahöfn enda þegar upp úr ríkjasambandinu við Dani slitnaði er ekki þar með sagt að ekki hefði verið hægt að halda áfram að gera þætti með sögum af íslenskum námsmönnum í Danmörku. Kannski væri hvorki gagn né gaman að slíku sjónvarpsefni. Og þó. Kaupmannahöfn skiptir Íslendinga enn máli.

***

Í upphafi sumars tók ég þátt í að búa til nýjan meirihluta í Reykjavík.

Samningahópurinn samanstóð af tveimur efstu frambjóðendum á lista fjögurra flokka, átta manns. Þessi átta áttu eitt sameiginlegt. Við höfðum öll einhvern tímann búið á Norðurlöndum.

Hvort þetta sé eitthvað til að hreykja sér af verða aðrir að meta. En mér finnst augljóst að regluleg dvöl margra Íslendinga erlendis, til dæmis í Kaupmannahöfn, hefur haft áhrif á borgarsögu Reykjavíkur. Ég veit að dvöl mín í Danmörku á árunum 2004-2006 hafði áhrif á mínar hugmyndir um hvað borgir gætu boðið upp á.

***

Það er augljóst að Laugavegur sem göngugata sækir frummynd sína til Striksins. Breytingarnar á Hverfisgötu eiga sér að sama skapi ekki fjarlæga fyrirmynd. Í Kaupmannahöfn heita þessar götu Amagerbrogade, Nörrebrogade, Vesterbrogade og Österbrogade. Borgargötur með randbygg, tvístefnuumferð, hjólabrautum til beggja átta og þéttri strætódekkun. Það vantar bara fleiri tyrkneska skyndibitastaði á Hverfisgötuna og við erum góð.

***

Við höfum verið fullvalda þjóð í 100 ár og tími minnimáttarkenndarinnar má vera liðinn. Ef einhver sakar mig um að vilja gera Reykjavík meira eins og Kaupmannahöfn þegar kemur að skipulags- og samgöngumálum þá skal ég skrifa ég undir þá játningu. Það má alveg herma eftir því sem vel er gert.

Eftir að ég flutti heim frá Kaupmannahöfn stofnaði ég Samtök um bíllausan lífsstíl, ásamt hópi fólks, sem margt hafði átt það sameiginlegt að hafa búið erlendis. Sú hugmynd að lyfta upp bíllausum lífsstíl með þessum hætti, var öfugt við það sem sumir gætu haldið, ekki endilega drifin áfram af umhverfisvernd, naumhyggju, göfuglyndi eða hatri á þægindum.

Bíllaus lífssýn snýst fyrir mér ekki um þá hugmynd að maður sé betri manneskja ef maður keyrir minna. Sýnin snýst einfaldlega um þægindi. Að lífið sé betra ef menn þurfa ekki að keyra út um allt. Borg þar sem maður gat gengið, hjólað, tekið strætó eða lest í næstu búð eða næsta partí er ekki endilega göfugri borg, en hún er líklega betri borg til að búa í.

Höfundur / Pawel Bartoszek

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is