„Einhugur er meðal stjórnar og stjórnenda Eimskips að draga lærdóm af málinu og aðlaga núverandi samfélags- og umhverfisstefnu til að tryggja að svona atvik, sem samræmist ekki þeim gildum og áherslum sem Eimskip starfar eftir, komi ekki fyrir aftur.“
Þetta segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, í tilkynningu vegna máls sem Kveikur fjallaði um á dögunum. Í tilkynningu biðjast stjórnendur Eimskip afsökunar á því að tvö flutningaskip fyrirtækisins hafi verið rifin á Alang-strönd á Indlandi. Aðstæður þar eru taldar til skammar en Kveikur greindi fyrst frá málinu. Í tilkynningu segir að þeim þyki þetta leitt en telja sig þó hafa farið að lögum við söluna á skipunum.
„Eimskip þykir málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi,“ segir í tilkynningu og svo haldið áfram:
„Þó félagið telji að farið hafi verið eftir lögum og reglum í söluferlinu er ljóst að þar sem skipin voru komin til ára sinna hefði mátt gera ríkari kröfur gagnvart kaupandanum. Það má gera með því að setja ákvæði í samning um söluna þess efnis að ef til þess kæmi að skipin færu í endurvinnslu þá yrði það gert í endurvinnslustöð sem samræmist Evrópu stöðlum. Eimskip biðst afsökunar á að svo hafi ekki verið gert.“
Í tilkynningu segir enn fremur að aðgerðin hafi ekki verið til þess að hagnast á hærra endurvinnsluverði. „Starfsemi kaupanda skipanna er ekki eingöngu í því fólgin að kaupa skip til endurvinnslu heldur einnig að leigja og selja til áframhaldandi rekstrar, enda þótt meginstarfsemi kaupandans sé vissulega hin fyrrnefnda. Allt frá sölu skipanna í desember 2019 fram á vor 2020 bentu samskipti félagsins við kaupandann, kröfur hans um búnað og ástand skipanna til þess að skipin yrðu í rekstri lengur en raun bar vitni,“ segir í tilkynningu.
Enn og aftur er ítrekað að fyrirtækið hafi ekki hagnast mikið á þessu „Sala skipanna var ekki aðgerð af hálfu félagsins til þess að hagnast á hærra endurvinnsluverði í öðrum heimshlutum. Eins og áður hefur komið fram var söluverð skipanna tveggja samtals 3,9 milljónir dollara. Á móti kemur að Eimskip greiddi eigandanum samtals 1,3 milljónir dollara í leigu á leigutímabilinu. Telur félagið mikilvægt að skýra frá því að söluverðið var óverulega hærra en fengist hefði í desember 2019 í endurvinnslustöð í Tyrklandi sem er á evrópskum lista yfir þær stöðvar sem mega endurvinna evrópsk skip.“