Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Eina hnífakonan á Íslandi – Soffía fótbrotnaði og fór í hnífana – Kvenhnífabúð bíður hennar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er mjög skemmtilegt og skapandi, það eru engir tveir hnífar eins. Allt unnið í höndum og því hver og einn einstakt listaverk.“ segir Soffía Alice Sigurðardóttir hnífasmiður. Hún deilir vinnustofu í Álafosskvosinni með Páli Kristjánssyni sem einnig smíðar hnífa.

Hnífagalleríið hefur að geyma hreint ótrúlegt úrval fagurgerðra muna sem ljóslega hefur verið nostrað við og hvert smáatriði nær fullkomnað.

Soffía er eina konan hérlendis sem leggur þetta handverk fyrir sig og segir að einungis fáar konur í heiminum fáist við að smíða hnífa.

„Ég hef alltaf verið mjög skapandi og með frjótt hugmyndaflug, það hjálpar manni við að hafa úrvalið eins mismunandi og raun ber vitni.

Ég byrjaði mjög ung að hafa gaman af allskyns listsýningum og heimurinn birtist mér að miklu leiti sem listaverk, hugrenningar um umhverfið gera mig móttækilega fyrir möguleikum umhverfisins.

Botngróður á togara varð huglistaverk

- Auglýsing -

Í vetur var ég niðri við slipp þar sem verið var að taka upp togara, þegar ég sá slýið á botni skipsins opnaðist mér litaheimur og ég dreif mig í galleríið til að koma litunum til skila á skaft sem ég var með í smíðum. Ef maður gefur fegurðinni færi er hún um allt og mjög skapandi að grípa hana um leið og hún birtist manni. Ég fór í myndlistaskóla í Bandaríkjunum og þar var einmitt lögð áhersla á að nota allt það sem umhverfið hefur upp á að bjóða.“ segir þessi hugmyndaríka handverkskona þar sem hún nostrar við hníf í smíðum.

Hún segist að mörgu leiti vera að endurvinna náttúruna, hnífasköft eru meðal annars smíðuð úr hvaltönnum, hreindýrahornum, hófum hesta og ýmsum tegundum af tré. Meira að segja eru notaðar klaufir af geitum.

- Auglýsing -

Myndir og hnífar um allan heim

„Það þarf að vanda þetta mjög vel því allt sem fer í skaftið þarf að vera með sama rakastig, sumar tegundir af viði þarf til dæmis að þurrka árum saman. Ég hafði selt myndir um allan heim og nú er sú saga að endurtaka sig með hnífana. Fólk hefur meira að segja komið með einkaþotum til landsins til að kaupa hnífa hérna. Ég hef nefnt hnífana mína eftir goðunum sem við þekkjum svo vel úr goðfræðinni og það skapar fólki víða um heim forvitni og eftirvæntingu. Nú hefur mér verið boðið að selja hnífa í veglegri verslun í Bandaríkjunum. Þar er kona sem er að safna hnífum smíðuðum af konum á sem flestum stöðum heimsins. Það verður spennandi því þetta er svo sem ekki nein lágvöruverðsverslun,“ segir Soffía kampakát.

Auk þessara listamuna sem verða til þarna í velbúnu galleríinu halda þau námskeið fyrir fólk sem vill smíða sinn hníf sjálft og læra þetta handverk.

Námskeið og plokkfiskur

„Námskeiðin eru skemmtileg og vel sótt hjá okkur. Fólk nær alveg fínum árangri og getur í flestum tilfellum unað vel við sína smíð. Við sköffum fólki mat á meðan námskeiðið stendur. Stundum erum við með unglinga sem vilja ekki fisk þannig að við verðum að dekstra plokkfiskinn hans Palla ofan í þau. Það er skemmtilegt þegar mæðurnar hringja svo í okkur eftir námskeiðin til að fá uppskrift að plokkaranum því krakkarnir linni ekki látum með að fá svona plokkfisk.“

Þegar Soffía er spurð um hvers vegna hún hafi byrjað á hnífunum segir hún það hafa verið slys, hreint og klárt slys.

„Ég starfaði sem leiðsögumaður og ók sjálf þegar um var að ræða litla hópa. Einn daginn fyrir margt löngu átti ég að sækja hóp í Keflavík. Ég fór út að viðra hundinn áður en ég færi á völlinn en ekki vildi betur til en svo að ég lenti slysi með ökklann og var frá vinnu í heilt ár. Þannig að ég er í hnífasmíðinni fyrir slys, og er bara vel sátt við slysið þó ég hafi verið lengi að átta mig að happ geti falist í áföllum en nú veit það. Nú veit ég að ekkert er að óttast, það eru alltaf nýjar leiðir sama hvað á dynur,“ segir hnífakonan á Álafossi hamingjusöm.

Texti: Guðmundur Sigurðsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -