2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Einkaþjálfarinn Sigrún María deilir 5 æfingum sem hægt er að gera með börnunum

Nú eru margir komnir í sumarfrí og oft getur verið erfitt að láta sér detta í hug skemmtilega hreyfingu fyrir alla fjölskylduna sem heldur manni hraustum og glöðum í fríinu. Við ákváðum að leita til einkaþjálfarans Sigrúnu Maríu Hákonardóttur og báðum hana um að stinga upp á hressandi æfingum sem hægt er að gera með börnunum í fríinu.

Sigrún María lifir afar heilbrigðum lífsstíl.

Sigrún María er 28 ára gömul og heldur úti heimasíðunni FitBySigrun þar sem hún deilir meðal annars æfingum og hollum uppskriftum. Sigrún á mann og eina dóttur sem er ellefu mánaða, með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf. Þá er hún einnig með einkaþjálfarapróf frá World Class og hóptímakennarapróf frá Fusion Fitness Academy.

„Ég hef brennandi áhuga á líkamsrækt, bæði andlegu og líkamlegu hliðinni. Ég er síðan að klára fjarnám sem veitir mér réttindi til þess að þjálfa ófrískar konur og þær sem eru nýbúnar að eiga, en ég fékk mikinn áhuga á slíkri hreyfingu eftir að ég varð sjálf ófrísk,“ segir Sigrún María. Hún segir að slys sem hún lenti í hafi orðið til þess að hún fór að einblína meira á að gera hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl að atvinnu.

AUGLÝSING


„Ég hef síðustu ár unnið skrifstofustarf en stuttu eftir að ég útskrifaðist sem náms- og starfsráðgjafi lenti ég í slysi og slasaðist í baki sem veldur því að ég get ég ekki setið lengi. Líkamsræktin var alltaf áhugamál en þetta slys ýtti mér útí að gera hana að atvinnu. Eins og staðan er núna er ég í fæðingarorlofi en í orlofinu hefur tíminn verið nýttur í að stofna heimasíðuna FitBySigrun, þar sem ég deili meðal annars fríum æfingum og hollum uppskriftum.“

Þá snúum við okkur að aðalmálinu, sem eru fjölbreyttar hreyfingar sem hægt er að gera með börnunum. Þar komum við ekki að tómum kofanum hjá Sigrúnu Maríu.

„Oftast finnst börnum voða spennandi að taka þátt í einhverri keppni eða leik.

Ég mæli með að tengja hreyfingu við skemmtun með börnunum. Þú gætir farið með börnunum út að hjóla og stoppað einhversstaðar og tekið þá stutta æfingu sem þið gerið saman. Einnig gætiru látið börnin búa til leik, þau fá þá að velja æfinguna og þú færð að ráða hversu oft á að gera æfinguna eða hversu lengi.

Hér eru fimm æfingar sem þú getur gert með börnunum:

1. 30 sek hnébeygja og kasta bolta á milli

2. 30 sek framstigsganga og rétta bolta á milli

3. 30 sek planki og klappa höndum til skiptis

4. 30 sek plankaganga (annar heldur undir fætur), skiptið og gerið í aðrar 30 sek 

5. 30 sek há hné á meðan hinn heldur í hnébeygju með hendur fram, skiptið og gerið í aðrar 30 sek 

Þið getið síðan endað á til dæmis kapphlaupi að ljósastaur, hvílt og farið síðan allt að fimm sinnum í gegnum þessar æfingar.“

Fimm sekúndna reglan

Og þegar hugurinn reynir að halda manni frá hreyfingunni segir Sigrún María það gott að tileinka sér svokallaða fimm sekúndna reglu.

„Ekki hlusta á afsakanir sem hugurinn býr til, svaraðu þeim á móti og drífðu þig af stað. Mér finnst gott að nota fimm sekúndu regluna frá Mel Robbins. En hún virkar meðal annars þannig að þegar þig vantar kjark til þess að gera eitthvað þá telur þú niður frá fimm í einn og stekkur þá af stað og ræðst á verkefnið.“

Myndir / Berglind Jóhannsdóttir og úr einkasafni

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is