Einmanaleiki útbreitt vandamál

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Nýtt grátbroslegt leikverk í Tjarnarbíói varpar ljósi á einmanaleika og þrána eftir nánd í nútímasamfélagi.

„Það sem við gerum í einrúmi“ er nýtt íslenskt leikverk sem segir frá fjórum ólíkum manneskjum í blokk sem hafa allar einangrast. Fólkið hefur sterka þörf fyrir félagsskap og í framrás verksins rekur sú þörf það fram á gang og inn í líf hvert annars með ófyrirséðum og oft kómískum afleiðingum. Heiðar Sumarliðason er annar höfundur þess og hann segir að í því sé leitast við að varpa ljósi á einmanaleika og þrána eftir nánd í nútímasamfélagi.

Heiðar Sumarliðason er annar höfundur verksins „Það sem við gerum í einrúmi“og hann segir að í því sé leitast við að varpa ljósi á einmanaleika og þrána eftir nánd í nútímasamfélagi.

„Það er bara þannig að einmanaleiki er orðið útbreitt vandamál. Fólk er sífellt að einangrast meira og þar spila alls konar hlutir inn í. Samfélagsmiðlar valda því til dæmis að fólk hittist ekki lengur augliti til auglitis heldur á í samskiptum í gegnum Netið sem er langt frá því að vera sami hluturinn og milli þess sem það er á kafi í vinnu þá sækir það í afþreyingu, annaðhvort í sjónvarpinu eða á Netinu. Með öðrum orðum erum við farin að fjarlægjast hvert annað og einangrast, sem veldur einmanaleika, depurð og þunglyndi.

„Samfélagsmiðlar valda því til dæmis að fólk hittist ekki lengur augliti til auglitis heldur á í samskiptum í gegnum Netið sem er langt frá því að vera sami hluturinn og milli þess sem það er á kafi í vinnu þá sækir það í afþreyingu, annaðhvort í sjónvarpinu eða á Netinu.“

Leikritið varpar einmitt ljósi á þetta. Þar er til dæmis kona sem hefur helgað allt líf sitt manni og börnum, en er orðin félagslega einangruð þar sem karlinn er skilinn við hana, annar sonurinn fluttur erlendis og hinn vill ekkert með hana hafa, svo hún hangir bara heima hjá sér og glápir á Omega. Á meðan liggur sonurinn yfir Youtube-kennslumyndböndum sem ganga út á það hvernig eigi að ná í konur. Þannig að þetta verk er ekkert síður um þörf okkar fyrir hvert annað og óttann við höfnun,“ segir Heiðar og bætir við að eflaust geti einhverjir speglað sig í aðstæðum persónanna, að minnsta kosti að einhverju leyti.

Hefur sjálfur upplifað einangrun

Spurður hvernig hugmyndin að verkinu hafi eiginlega kviknað segir hann hana komna frá leikstjóranum Söru Martí Guðmundsdóttur. Hún hafi komið með grunnhugmyndina til sín, þau útfært hana í sameiningu og hann svo skrifað. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég skrifa verk með einhverjum og samstarfið okkar Söru hefur gengið vel. Við erum með svipaðar skoðanir á því hvernig eigi að vinna í leikhúsi, en hins vegar með ólíka styrkleika og bætum hvort annað upp. Þess utan, þá er þetta líka örugglega í fyrsta skipti sem ég kem nálægt leikverki sem er við hæfi barna og viðkvæmra, sem helgast fyrst og fremst af því að hugmyndin kemur ekki frá mér sjálfum,“ útskýrir hann og hlær.

Þótt leikritið snerti á ýmsum kunnuglegum þáttum segir Heiðar að farnar séu ýmsar frumlegar leiðir til að koma umfjöllunarefninu á framfæri.

Verkið unnu Heiðar og Sara saman, eins og fyrr segir, og því liggur beinast við að spyrja hvort það byggi að einhverju leyti á reynslu höfunda sjálfra. „Já,“ svarar Heiðar hiklaust. „Ég hef upplifað félagslega einangrun. Til dæmis þegar ég bjó í Berlín í eitt ár. Fyrstu mánuðina þekkti ég nánast engan þar og talaði litla sem enga þýsku. Þannig að framan af átti ég mestmegnis í samskiptum við fólk í þjónustustörfum sem gat verið ferlega dónalegt og þetta allt saman gerði að verkum að ég þoldi eiginlega ekki að búa í Berlín til að byrja með. En svo þegar leið á dvölina og ég fór að kynnast fleira fólki varð ástandið bærilegra og fyrir rest langaði mig bara ekkert heim til Íslands. Sem sýnir auðvitað vel hvað mannleg nánd skiptir miklu máli.“

„Ég hef upplifað félagslega einangrun. Til dæmis þegar bjó ég í Berlín í eitt ár. Fyrstu mánuðina þekkti ég nánast engan þar og talaði litla sem enga þýsku.

Þótt leikritið snerti á ýmsum kunnuglegum þáttum segir Heiðar að farnar séu ýmsar frumlegar leiðir til að koma umfjöllunarefninu á framfæri. „Já, til að mynda fléttum við saman lifandi leikhúsi og kvikmynd á skemmtilegan hátt sem sést af því í hvert sinn sem persónur yfirgefa íbúðirnar stíga þær inn í kvikmynd. Sjálfur man ég ekki til þess að hafa séð sýningu með svona miklu kvikmynduðu efni áður og efast um að íslenskir áhorfendur hafi gert það heldur,“ segir hann og bætir við að sýningin sé því eflaust ólík öllu sem fólk hafi séð áður. Það verði því ekki svikið af því að gera sér ferð í leikhúsið. „Ég get eiginlega lofað því.“

Nánari upplýsingar um verkið má nálgast á vef Tjarnarbíós.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Litlir fuglar á vappi um safnið

Myndlistarmaðurinn Sigurbjörn Helgason hefur komið sér fyrir í vinnustofunni í safnbúð Hönnunarsafns Íslands. Þar mun hann nýta tímann...