2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Einstæð móðir geldur andstöðuna við Pútín dýru verði

Anastasia Shevchenko, einstæð þriggja barna móðir, er fyrsta manneskjan í Rússlandi sem sætir ákæru á grundvelli alræmdra laga um „óæskileg samtök“. Mál Anastasiu er enn ein birtingarmyndin í linnulausri herferð Vladímírs Pútín og stjórnvalda í Kreml gegn tjáningarfrelsi í landinu.

Þann 21. janúar réðust lögreglumenn í borgunum Rostov-on-Don og Kazan inn á heimili sex meðlima samtaka sem kalla sig Opið Rússland. Anastasia Shevchenko var í þeim hópi og var leitað hátt og lágt á heimili hennar og flettu lögreglumenn meðal annars í skólabókum barna hennar í leit að sönnunargögnum. Tveimur dögum síðar var Anastasia úrskurðuð í stofufangelsi, henni meinað að tjá sig við nokkurn mann utan heimilis hennar og hún látin bera ökklabönd svo stjórnvöld gætu fylgst með ferðum hennar.

Málið tók nýja stefnu fyrir tveimur vikum þegar Alina, 17 ára dóttir Anastasiu, var flutt fárveik á spítala. Yfirvöld neituðu henni í fyrstu að heimsækja hana á spítalann en gáfu sig þó á endanum. Það mátti ekki tæpara standa því aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Anastasia kom á spítalann var Alina látin. Þetta varð til þess að mál Anastasiu komst aftur í hámæli og á sunnudaginn söfnuðust hundruð stuðningsmanna Anastasiu saman í níu borgum víðs vegar um Rússland og mótmæltu. Að minnsta kosti níu voru handteknir í mótmælunum.

Verði Anastasia fundin sek á hún yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi og himinháar fjársektir. Annar meðlimur Opins Rússlands, Roman Zaitsev, var svo handtekinn í lok janúar og ákærður á grundvelli laganna um óæskileg samtök. Hans glæpur var að deila fréttum Opins Rússlands af máli Anastasiu á samskiptamiðlum.

Kerfisbundnar aðgerðir gegn tjáningarfrelsi

AUGLÝSING


Lögin um óæskileg samtök (Russian undesirable organizations law) voru undirrituð af Vladímír Pútín, Rússlandsforseta í maí 2015 og var þeim ætlað að fylgja eftir lögum frá árinu 2012 um útlenda útsendara (Russian foreign agent law). Lögin gefa saksóknurum völd til að úrskurða útlensk og alþjóðleg félagasamtök „óæskileg“ í Rússlandi og binda enda á starfsemi þeirra án dómsúrskurðar. Forsvarsmenn þeirra samtaka sem virða skipanir stjórnvalda að vettugi eiga yfir höfði sér 2 til 6 ára fangelsi og háar fjársektir. Áður hafði öllum samtökum sem höfðu tengsl við erlenda aðila eða þáðu fjárveitingar erlendis frá verið gert að skrá sig á lista yfir útlenda útsendara sem hafði ýmiss konar íþyngjandi áhrif á starfsemi þeirra.

Fjölmörg samtök hætt starfsemi

Bæði lögin hafa orðið til þess að mörg félagasamtök, í mörgum tilfellum grasrótarsamtök, hugveitur eða alþjóðleg samtök sem láta sig hvers kyns mannréttindi varða, hafa neyðst til að draga saman seglin eða jafnvel hætta starfsemi alfarið. Vel á annað hundrað félagasamtök hafa ratað á lista yfir útlenda útsendara, fæst þeirra sjálfviljug, og á fjórða tug hafa hætt starfsemi. Lögin frá 2015 gefa saksóknurum fullt svigrúm til að ráðast gegn samtökum sem þeir telja ógn við rússneska ríkið, í mjög víðu samhengi. Þeim samtökum sem teljast óæskileg er bannað að halda fjöldasamkomur, dreifa hvers kyns upplýsingum hvort sem er á prenti, á Netinu eða í gegnum fjölmiðla, og bönkum og öðrum fjármálastofnunum er óheimilt að eiga í viðskiptum við þau. Lögregluaðgerðir gegn félagasamtökum eru tíðar og oftar en ekki eru fréttamenn og upptökulið frá ríkisfjölmiðlum með í för.

Fjölmiðlar einnig í sigtinu

Á meðal samtaka undir smásjá rússneskra stjórnvalda eru Amnesty International, Transparency International og Human Rights Watch. Open Society-samtökunum sem studd eru af George Soros var gert að loka skrifstofum sínum í Rússlandi árið 2015 og jafnvel Norræna ráðherranefndin gerði slíkt hið sama eftir að hafa lent á listanum. Eina óháða fyrirtækinu í Rússlandi sem sá um gerð skoðanakanna var sömuleiðis bætt á listann rétt fyrir þingkosningarnar 2016 og skömmu eftir að hafa birt niðurstöður könnunar sem sýndu minnkandi stuðning við stjórnmálaflokk Pútíns. Lögin um útlenda útsendara voru útvíkkuð árið 2017 þannig að þau náðu einnig til fjölmiðla og hafa miðlar á borð við Voice of America og Radio Free Europe/Radio Liberty ratað á listann.

Gamall óvinur Pútíns snýr aftur

Opið Rússland sem Anastasia Shevchenko starfaði fyrir berjast fyrir lýðræði og mannréttindum í Rússlandi. Stofnandi þeirra er auðkýfingurinn Mikhail Khodorkovsky sem átti í hörðum útistöðum við Pútín í upphafi aldarinnar sem endaði með því að Khodorkovsky var handtekinn og olíufyrirtæki hans, Yukos, leyst upp og selt í pörtum. Hann kom Opnu Rússlandi aftur á fót árið 2014 eftir að rússnesk stjórnvöld höfðu fryst allar bankainnistæður samtakanna árið 2006. Árið 2017 flokkuðu rússnesk stjórnvöld samtökin sem óæskileg, vefsíðu þeirra var lokað og þeim bannað að starfa í Rússlandi.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is