Sunnudagur 25. september, 2022
10.6 C
Reykjavik

Eiriksína segir það fordóma að segja nafn hennar skrýtið – Vill að Sigurður verði rekinn fyrir það

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir segir að þeir sem heita óalgengum nöfnum þurfi að þola fordóma þess vegna. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu sakar hún bæði blaðið og viðmælenda þess um slíka nafnafordóma. Eiriksína segir það fordóma að segja sum nöfn skrýtin og kallar eftir því að Sigurður Konráðsson prófessor verði látinn fara úr mannanafnanefnd.

„Öll berum við nafn sem ætlað er að auðkenna okkur og aðgreina frá öðrum. Nafnið fylgir okkur út lífið og það hefur oftast tilfinningalegt gildi fyrir nafnberann og fjölskyldu hans. Það ætti því að teljast sjálfsögð kurteisi og háttvísi að sýna öllum nöfnum virðingu. En á því er stundum misbrestur eins og sjá má í frétt um nöfn í Morgunblaðinu þann 26. janúar með fyrirsögninni „Vill sérstaka skrá yfir sérviskunöfn“. Fyrirsögnin er sérlega grípandi um leið og hún opinberar fordóma í garð nafna. Rætur flestra fordóma liggja í tvíhyggju eða sterkum hugmyndum um hvað er rétt og rangt. Á bak við fordóma liggur ávallt einhver flokkun eins og sjá má í fyrirsögninni þar sem lagt er til að fólk sem heitir eða vill heita einhverjum nöfnum fái „sérstaka“ skrá. Í fyrirsögninni felst einnig augljóst yfirlæti þar sem mælandinn telur sig hæfan til að flokka og meta nöfn annarra og setja á þau merkimiða,“ segir Eiriksína.

Hún segist hafa skoðað fréttina vandlega í ljósi þess sem hún heitir. „Sem nafnberi óalgengs nafns las ég fréttina gaumgæfilega og taldi nauðsynlegt að benda á þá augljósu fordóma sem þar birtast. Þá kalla ég nafnafordóma. Þar er notuð orðræða skringileikans þegar nöfn eru sögð, „sérstök, skondin“ og síðan bent á að sumir vilji heita sérviskunöfnum. Þessi ummæli eru einkar gildishlaðin og fordæmandi og þá sérstaklega í ljósi þess að sá sem þau mælir, Sigurður Konráðsson prófessor, situr í mannanafnanefnd. Sigurður segir orðrétt: „Það er stór galli á reglunum að öll nöfn sem samþykkt eru fara inn á mannanafnaskrá. Eftir það getur hver sem er notað þau. Með öðrum orðum skiptir engu hvort sá sem er að breyta um nafn sé fertugur karl á fylleríi eða ungbarn. Það væri mikill fengur í því að fá sérstaka skrá fyrir þá sem vilja taka upp sérviskunöfn.“ Að Sigurður vilji fela nöfn til að koma í veg fyrir að séu notuð, og aðra skrá fyrir sérvitringa, hlýtur að teljast „skrítið“ vinnulag,“ skrifar Eiriksína.

Hún veltir því fyrir sér hvernig þetta yrði framkvæmt. „Ætlar Sigurður sjálfur að búa til skrána eða fá til þess sérvitringa? Að útiloka einhver nöfn frá mannanafnaskrá til að aðrir noti þau ekki hlýtur að teljast forræðishyggja. Í fréttinni er einnig talað um „skondin“ nöfn og þá er nær ómögulegt að skilja nefndarmanninn og prófessorinn og hans skráaráráttu. Skrárnar hjá Sigurði geta þá orðið minnst fjórar: 1. mannanafnaskrá sem er skrá um nöfn sem eru honum og mannanafnanefnd þóknanleg. 2. Skrá yfir sérstök nöfn. 3. Skrá með skondnum nöfnum. 4. Sérviskunafnaskrá sem ætluð er sérvitringum. Eftir lestur fréttarinnar er eðlilegt að velta fyrir sér vinnubrögðum mannanafnanefndar og hversu margar skrár hafa orðið til frá stofnun hennar árið 1996,“ segir Eiriksína.

Hún segir nafnberar óalgengra nafna verða fyrir svokölluðu öráreiti. „Það er, eða ætti að vera, sjálfsögð kurteisi að bera virðingu fyrir nöfnum annarra. Ekki bólar á slíkri virðingu hjá Sigurði sem vill ýmist fela nöfn frá mannanafnaskrá eða búa til fleiri skrár. Líta má á þessa þrá hans eftir sérviskunafnaskránni sem tilburði til ritskoðunar og þöggunar. Við getum ekki öll heitið Sigurður en margir sem bera önnur nöfn eru oft spottaðir og smánaðir vegna nafns síns og þurfa að bregðast við álíka fordómum og flokkunum sem prófessorinn opinberar í fréttinni. Ummælin eru fordæmandi og ala um leið á því öráreiti, sem margir nafnberar óalgengra nafna verða fyrir. Öráreiti er skilgreint sem stutt og síendurtekin samskipti, stundum meðvituð en oft ómeðvituð. Þessi samskipti fela oft í sér neikvæðar og niðrandi athugasemdir, oft sett fram sem spaug eða léttvægar spurningar. Öráreitið sem nafnberar óalgengra nafna verða fyrir er fjölbreytt, oft er gert grín að nöfnunum í þeirra áheyrn, þeir beðnir að skilgreina nafnið sitt og oft er nafnið flokkað með orðræðu skringileikans líkt og Sigurður gerir og nafnið sagt skrítið, sérstakt og sérkennilegt,“ segir Eiriksína.

Eiriksína kallar eftir því að Sigurður víki. „Ég tel, að vegna tilvistar mannanafnanefndar séu lífseigir hérlendis þeir nafnafordómar sem nefndarmaðurinn opinberar. Öllum er að sjálfsögðu frjálst að hafa alls konar skoðanir og tjáningarfrelsið er dýrmætt. Ég tel hins vegar farsælla að Sigurður, sem prófessor og nefndarmaður, dundi sér við skráargerð sína fyrir sjálfan sig. Stöðu hans vegna væri heppilegra fyrir hann að finna sér annan vettvang til að opinbera augljósa fordóma sína en dagblöð. En sem nefndarmaður í lýðræðisríki sem hefur það að leiðarljósi að útrýma hvers kyns fordómum tel ég skaðlegt að hann tjái sig um nöfn með þessum hætti og ummælin gefa ærna ástæðu til þess að endurskoða setu Sigurðar í mannanafnanefnd. Einnig renna þessi ummæli og fréttin öll enn frekari stoðum undir þá tillögu dómsmálaráðherra að leggja niður mannanafnanefnd. Hvaða þjóð vill hafa nefnd á sínum vegum sem elur á og viðheldur fordómum?,“ spyr Eiriksína Eyja.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -