Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl skrifar áhugaverðan texta á Facebook-síðu sinni um viðtal Kveiks við leikarann Þóri Sæmundsson í gærkvöld:
„Við tölum talsvert um fyrirgefningu almennt og mikilvægi fyrirgefningarinnar en þegar til kastanna kemur fyrirgefum við (sem samfélag) sjaldan. Við viljum fyrirgefa, viljum vera fólk sem fyrirgefur, en fólkið sem hefur raunverulega gerst brotlegt er eiginlega aldrei nógu leitt fyrir okkur, það iðrast ekki nóg eða hefur gerst of brotlegt til að við komumst yfir það,“ skrifar Eiríkur og bætir við:
„Við afþökkum skrímslavæðingu gerenda almennt en lítum á alla raunverulega gerendur sem undantekningu – þeir séu einfaldlega skrímsli og það sé ekki okkur að kenna.“
Heldur áfram:
„Hvað sem öllu öðru líður – kveiksþáttum, hasstaggabyltingum, einlægum opnuviðtölum blaðanna – sýnist mér ljóst að við (sem samfélag) séum að reyna að eiga í einhverju samtali sem við erum ófær um að eiga í, að óbreyttu. Það er einsog okkur sé ekki boðið upp á aðra afstöðu en miskunnarleysi eða meðvirkni. Og mér finnst einhvern veginn eins og þetta geti ekki endað mjög vel.“