Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

„Eitthvað er ekki eins og það á að vera“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögmenn eru sumir hverjir enn æfir vegna aðkomu Sveins Andra Sveinssonar að þrotabúi flugfélagsins WOW air. Heimildamaður Mannlífs, lögmaður til margra ára, furðar sig á því að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur en ekki héraðsdómari skuli hafa skipað Svein Andra skiptastjóra.

Ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dóm­stjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra Sveinssonar hefur valdið titringi innan lögmannastéttarinnar. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur. Heimildamaður Mannlífs segir óvenjulegt að dómstjóri skuli hafa úthlutað þrotabúinu. Reglan sé sú að héraðsdómari beri ábyrgð á málaflokknum, en sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra.

Heimildamaður Mannlífs er lögmaður sem hefur langa reynslu af gjaldþrotamálum og hann bendir á að enginn virðist hafa spurt að því hvers vegna dómstjóri, Símon Sigvaldason, hafi undirritað úrskurðinn og úthlutað þrotabúinu. „Það er mjög sérstakt að dómsstjóri hafi skrifað undir gjaldþrotaúrskurð, það hefur held ég bara aldrei gerst áður. Venjulega reglan er sú að héraðsdómari sem ber ábyrgð á málaflokknum sem sér um þessi gjaldþrotamál eða aðstoðarmenn í umboði hans,“ segir lögmaðurinn sem kýs að láta ekki nafn síns getið.

„Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Héraðsdómarinn sem ber ábyrgð á málaflokki gjaldþrotamála er Lárentsínus Kristjánsson, fyrrum hæstaréttarlögmaður en hann var skipaður í embættið árið 2015. Heimildamaður Mannlífs segir að sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra. „Tengslin eru nokkuð vel kunn, í það minnsta mörgum lögmönnum og nokkrum dómurum. Þeir eru vinir til margra ára og voru samstarfsmenn í gegnum Lögfræðistofu Reykjavíkur og þekktust áður í gegnum SUS og háskólapólitík. Lárentsínus ræður þessum málaflokki og ber ábyrgð á honum, þannig að það skal engan undra að Sveinn Andri Sveinsson er farinn að fá mjög reglulega mál í gegnum þrotabú. Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Farið eftir reglum

Mannlíf bar þetta undir þá Lárentínus Kristjánsson héraðsdómara og Símon Sigvaldasson dómstjóra og sendi sá síðarnefndi blaðamanni eftirfarandi skriflegt svar: „Löglærðir aðstoðarmenn dómara sjá um uppkvaðningar gjaldþrotaúrskurða í öllum málum hér hjá okkur. Það var einnig svo í þessu tilviki. Fyrirsvarsmenn Wow air snéru sér beint til mín á mánudagsmorgninum síðasta til að unnt yrði að koma málinu strax í réttan farveg til að úrskurður yrði kveðinn upp svo fljótt sem verða mætti. Gríðarlegir hagsmunir voru í húfi og mikilvægt að málið gengi greiðlega fyrir sig. Ég ákvað í framhaldinu hverjir yrðu skipaðir skiptastjórar og fór aðstoðarmaðurinn eftir því,“ segir m.a. í skriflegu svari Símonar, sem getur þess að þrotabúum sé úthlutað eftir lista sem liggi fyrir. Á honum séu lögmenn sem áhuga hafa á því að taka að sér skiptastjórn, bæði reynslumiklir lögmenn sem starfað hafa að skiptastjórn í mörg ár, sem og yngri og nýútskrifaða lögmenn, sem takmarkaða reynslu hafa af þessum störfum. Þrotabúum sé úthlutað í réttri röð eftir listanum. Þegar um allra stærstu búin er að ræða sé þeim úthlutað sérstaklega. Þar sé farið eftir viðmiðum, sem stuðst hefur verið við í mörg ár, um að lögmenn hafi víðtæka og farsæla reynslu af skiptum stórra og flókinna búa og hafi yfir að ráða starfsemi sem ræður við slíkt starf.

„Ég kem ekki að þessum málum nema þegar um allra stærstu búin er að ræða, og þau eru tiltölulega sjaldgæf. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem það gerist. Ekkert slíkt bú kom inn á árinu 2018, en ég kom til starfa sem dómstjóri í lok árs 2017,“ segir jafnframt í svari Símonar.

- Auglýsing -

Vilja Svein Andra burt

Greint var frá því í nýjasta tölublaði Mannlífs að Arion banki hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, yrði settur af vegna vanhæfis, en bankinn er stór kröfuhafi í búið. Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í samtali við Mannlíf. Hann staðfesti einnig að þetta tengdist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

Fyrrnefndur Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir hins vegar að Sveinn Andri muni verða áfram skiptastjóri yfir búinu. Þetta kemur fram í dag í skriflegu svari Símonar við fyrirspurn fréttastofu RÚV um málið. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir svo Símon að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi komi til hingað til, verði erindið að sérstöku máli. Málið fari síðan í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.

- Auglýsing -

Skrítin skipan í ljósi fyrri embættisgjörða

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra reitt marga lögmenn til reiði. Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri skrítin í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi. „Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki …,“ segir Þórður m.a. í færslunni. Símon Sigvaldason hefur hins vegar vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -