Mánudagur 9. september, 2024
3.6 C
Reykjavik

Ekkert glæpsamlegt við að svíkja út lyf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kona fór í apótek, framvísaði skilríkjum og leysti út lyf annarrar konu, sem var lyfjalaus í kjölfarið. Konan sem tók lyfin út á fölskum forsendum og hafði þau með sér, á enga refsingu yfir höfði sér. Hún braut hvorki reglur Lyfjastofnunar né framdi glæp samkvæmt skilningi lögreglu.

„Vinur minn pantaði eitthvað og lét senda á pósthús og pabbi hans fór að sækja fyrir hann en fékk ekki. Ég get hins vegar valsað inn í hvaða apótek sem er og tekið út hvaða lyf sem er. Og það er ekki ólöglegt.“ Þetta segir Íris Hólm Jónsdóttir, söngkona og leikkona, en hún varð fyrir því um jólin að fá ekki lyfin sín afhent af því að önnur kona hafði leyst þau út. Íris var lyfjalaus yfir hátíðirnar og þurfti svo að leita til læknis til að fá ávísun á næsta skammt en fyrir konuna sem leysti út lyfin hafa svikin engar afleiðingar; í augum kerfisins hefur hún ekki gert neitt rangt.

„Ég fór á aðfangadag út í apótek en fékk þá þær upplýsingar að lyfin mín hefðu verið tekin út sex dögum áður í öðru apóteki,“ segir Íris um málavexti. „Það var komið hádegi og búið að loka þannig að ég var lyfjalaus í nokkra daga. Svo fór ég í þetta tiltekna apótek og tilkynnti þetta og þá varð þetta eiginlega bara eins og atriði í bíómynd; það kom kona inn á sama tíma og ég heyrði hana segja frá því að vinkona hennar hafi lent í því að ADHD-lyfjunum hennar hafi verið stolið. Ég spurði um nafnið á manneskjunni sem tók út lyfin og þá var það sama manneskjan og tók mín lyf.“

„Á meðan eru þessi lyf á svörtum markaði og verið að ofnota þau einhvers staðar. Og ég spyr mig, fyrir hvern vinnur kerfið?“

Í tilfelli vinkonunnar voru lyfin tekin út í öðru apóteki og Íris segir ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að viðkomandi sé með lista yfir einstaklinga með ADHD og fari á milli apóteka og prófi sig áfram.

Ábyrgðinni vísað á hendur sjúklingum

Konan sem sveik út lyfin var að sögn Írisar skráð í Facebook-hóp fyrir fullorðna einstaklinga með ADHD og má leiða líkur að því að þar hafi hún komist yfir nöfn fórnarlamba sinna. „Í hópnum er fólk sem deilir alls konar úrræðum og lausnum. Og það kemur fyrir að fólk spyr um aukaverkanir lyfja,“ útskýrir Íris. Aðgengi að upplýsingum sé mikið en þær séu misvísandi og því gott að leita til fólks með persónulega reynslu af ólíkum lyfjum. Þess vegna hafi henni brugðið þegar forstjóri Lyfjastofnunar steig fram í fjölmiðlum og vísaði ábyrgðinni á hendur sjúklingum og hvatti þá til að vera ekki að deila reynslu sinni af lyfjunum á samfélagsmiðlum „og í einhverjum hópum“.

- Auglýsing -
Íris Hólm.

„Þarna finnst mér Lyfjastofnun vera að skella skömminni á sjúklinga, sem eru í hópum til að hjálpast að,“ segir Íris en hún fékk sömu upplifun af samtali sínu við lækninn sem hún hitti til að fá nýja ávísun. „Hann sagði að það væri nú svo sem alltaf gott að gera pásu á svona lyfjum og þegar ég svaraði honum sagði hann að læknar þyrftu jú að passa sig gagnvart landlækni þegar kæmi að svona uppáskriftum. Öll skömmin endaði hjá mér; sjúklingnum sem vantaði lyfin sín.“

Hjá Lyfjastofnun fékk Íris þær upplýsingar að það væri ekki eiginlegt brot á reglum að leysa út lyf annarra. Þegar hún leitaði til lögreglu var henni tjáð að athæfi konunnar væri ekki heldur glæpsamlegt. „Ég bókstaflega spurði lögregluna hvort ég gæti sagt að ég gæti ekki kært manneskjuna af því þetta væri ekki ólöglegt.“ Svarið var já. Konan gerði ekkert rangt, að minnsta kosti ekki þannig að yfirvöld gætu nokkuð gert, þrátt fyrir að hún hefði gefið upp nafn og kennitölu og framvísað skilríkjum þegar hún tók út lyfin. Það hefði verið þjófnaður að taka veski Írisar af búðarborðinu en ekki að taka lyfin hennar.

„Á meðan eru þessi lyf á svörtum markaði og verið að ofnota þau einhvers staðar. Og ég spyr mig, fyrir hvern vinnur kerfið? Það er búið að gera okkur sjúklingunum verulega erfitt að fá þessi lyf en svo er það ekki flóknara en þetta fyrir aðra að komast yfir þau. Og þá er ég ekki bara að tala um ADHD-lyf heldur líka sterk verkjalyf og annað,“ segir Íris.

- Auglýsing -

Hvetur lyfjanotendur til aðgerða

„Ég er ekki hissa á ofnotkun lyfseðilsskyldra lyfja ef þetta er svona auðvelt. Það er búið að gera þetta flókið fyrir læknana og sjúklingunum eru skömmtuð lyfin mánuð fyrir mánuð en svo geta þeir sem misnota lyfin gengið inn í apótek og gefið upp hvaða nafn sem er og fengið þau afhent,“ segir Íris um þann lærdóm sem hún hefur dregið af málinu.

„Og ég hvet bara alla sem taka lyf til að hringja í Lyfjastofnun og biðja um þetta; að þau sendi út tilkynningu á öll apótek landsins um að bara þú megir taka út lyfin eða einhver í fjölskyldunni þinni.“

Hún segist velta því fyrir sér, miðað við hversu erfitt það er að fá lyfin sín í sumum tilvikum, hvort einhverjir hafi lent í lífshættu eða sjúkrahússinnlögn vegna lyfjaleysis.

„Hvað þarf að gerast til að þetta sé tekið alvarlega? Ég lifi án lyfjanna minna, þó ekki vandræðalaust. Það er fólk sem þarf á lyfjum að halda til að halda lífi. Hversu mörg tilfelli þarf til að þetta sé endurskoðað?“

Þegar Íris bað um leiðbeiningar til að koma í veg fyrir að uppákoman endurtæki sig var henni sagt að hún þyrfti að láta skrá það í hverju einasta apóteki ef hún vildi að bara hún gæti tekið lyfin út. Eða láta Lyfjastofnun vita, sem myndi þá senda erindi á apótekin.

„Og ég hvet bara alla sem taka lyf til að hringja í Lyfjastofnun og biðja um þetta; að þau sendi út tilkynningu á öll apótek landsins um að bara þú megir taka út lyfin eða einhver í fjölskyldunni þinni. Það væri langbest ef Lyfjastofnun fengi hrinu af svoleiðis símtölum. Því þau hafa engan mannskap til að vinna úr því og verða þá að finna aðra lausn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -