Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
8.8 C
Reykjavik

Elín Soffía var að elda þegar brotsjór reið yfir skipið: „Ég er búin að fá jólabaðið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég tók einu sinni sæti sem varaþingmaður á þingi og það var akkúrat þegar ég var á sjónum,“ segir Elín Soffía Harðardóttir í viðtali við Sjóarann með Kolbeini Þorsteinssyni. Hún fékk frí hjá Samskipum og sat á þingi í tvær vikur. „Ég lagði fram þingsályktunartillögu um mengun í höfnum vegna þess að það pirraði mig svo að það var öllu rusli hent í sjóinn. Það hafði farið olía í höfnina í Reykjavík og það var ekkert gert. Eitthvert skip Samskipa hafði misst olíu í höfnina í Hamborg og það þurfti að borga hundruð þúsunda í sektir og það var búið að setja lög á Íslandi fyrir einhverjum árum, en það hafði aldrei verið sett reglugerð þannig að það var ekki hægt að sekta fyrir það. Og ég man alltaf að hann sagði, Skúli Alexandersson, að það væri helvíti hart að hann þyrfti að fá varaþingmann til að koma inn og segja að þeir væru ekki að vinna vinnuna sína. En því var breytt eftir þetta.“

Þetta var ekki hefðbundið kvennamál.

Hún hefur náð þessu í gegn.

„Já, og það vakti svolitla athygli af því að ég er kona og þetta var ekki hefðbundið kvennamál, af því að konur komu yfirleitt með mál tengd fæðingarorlofi eða einhverju svoleiðis. En þetta var það sem ég var að vinna við og ég hugsaði oft um ruslið, af því að ég var löngu búin að komast að því að sjórinn tekur ekkert endalaust við. Það var alltaf sagt „lengi tekur sjórinn við“.“

Þú hefur haft þetta í gegn á þinni tveggja vikna setu á þingi.

„Já.“

Þú hefur þá ekki hugsað þér frekari frama í pólitík?

- Auglýsing -

„Nei, ekki þá. En mér þótti rosa gaman að sjá þetta og þetta er ekki auðvelt starf að vera þarna inni. Ég veit það alveg. Þeir sem vinna þar hafa helling að gera. Ég öfunda þá ekki. En hins vegar er þetta skemmtilegt. Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík.“

Hefur þú eitthvað verið að vafstra í bæjarmálunum í Hafnarfirði?“ Þess má geta að Elín fæddist á Akureyri en flutti tveggja ára til Hafnarfjarðar og segist eiginlega hafa búið þar alla tíð síðan.

„Já, ég er í stjórn Samfylkingarinnar. Sonur minn var á lista síðast. En þetta er komið gott hjá mér. En ég hef gaman af að fylgjast með og taka þátt í baráttu.“

- Auglýsing -

 

Fékk ekki að fara á dekkið

Hvenær hófst sjómennskuferillinn?

„Þegar ég kláraði matreiðslunám þá langaði mig svo að prófa sjómennsku og 1985 leysti ég af hjá Samskipum í fyrsta skipti að sumri til; var á sumrin annað slagið þar til 1988. Þá byrjaði ég föst hjá Samskipum og var alveg til 1994. Ég var bæði á millilandaskipum og í strandsiglingum.“

Elín segist hafa verið á Arnarfelli – tveimur Arnarfellum – auk þess að hafa siglt á Dísarfelli, Helgafelli og Hvassafelli. „Ég var líka hjá Eimskipum á sumrin, áður en ég varð föst hjá Samskipum,“ segir Elín, en fyrst var reyndar um að ræða Skipadeild Sambandsins.

Áður fyrr var bæði bryti og messi um borð og segir Elín að í fyrsta túrnum hafi hún verið með messa og að síðan hafi það eiginlega verið lagt af.

En það var bara áskorun að pottarnir hreyfðust.

Hún segir að fyrsti túrinn hafi verið erfiður.

„Ég var komin úr námi þar sem var fólk sem vaskaði upp og gerði allt fyrir mann og maður hugsaði aldrei um hvort maður var að nota aukaskál. Svo var ég allt í einu komin með 12-15 manns til að elda fyrir og þó að messi væri í áhöfninni þá þurfti maður samt að hugsa öðruvísi og svo var það náttúrlega hreyfingin og allt um borð. En það var bara áskorun að pottarnir hreyfðust.“

Hún þurfti að stíga ölduna.

„Já.“

Með pottinn í fanginu væntanlega.

„Oft og tíðum, já.“

Svo gat maður orðið sjóveikur.“

Glímdir þú við sjóveiki?

„Já, ég glímdi oft við sjóveiki í byrjun. Ef maður var að koma úr löngu fríi þá var maður stundum sjóveikur og svo bara var það búið. Ég man þegar ég fór einhvern tímann í túr og hugsaði „guð minn góður, hvað er ég að gera? Ég geri þetta aldrei aftur. Nú bara er ég hætt“. Svo fór ég fjóra túra í röð af því að sjóveikin var búin eftir tvo daga.

Hvernig var að vera sjóveik við matseld?

Það var einu sinni sem ég þurfti að fá einhvern annan til að smakka fyrir mig. En ég eldaði alltaf. En ég hafði opið til þess að fá hreint loft og fór oft út.“

Líkaði þér vel á sjónum? Voru engar efasemdir hjá þér um að þarna vildir þú vera?

„Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og lífsreynsla. Mig langaði alltaf að prófa þetta. Þegar ég fæddist þá bjuggu foreldrar mínir á Hjalteyri. Ég fæddist í mars og var ekki vikugömul þegar ég fór á bát yfir á Hjalteyri af því að það var ekki fært landleiðina. Þannig að mamma sagði að ég hefði snemma farið á sjó.“

Er sjómennska í ættinni?

„Nei.“

Allt landkrabbar?

„Kennarar og skólastjórar og svoleiðis.“

Þannig að þú kannski braust þarna ákveðið blað.

„Já, ég gerði það.“

Ég sagði „ef viðhorfin eru svona hérna, þá tala ég bara við jafnréttisnefnd Sambandsins“.

Varst þú vör við neikvæð viðhorf? Nú voru ekki margar konur brytar eða kokkar á skipum.

„Maður fann aðeins. Þegar ég var að byrja og var í afleysingum og ráðningarstjórinn vissi ekki hvenær ég fengi pláss aftur, þá sagði ég að það væri allt í lagi, ég gæti bara farið á dekkið. Þá sagði hann „nei, konur fara ekki á dekk. Þið verðið nú að leyfa okkur að eiga eitthvað eftir“. Þá vissi ég að það væri til jafnréttisnefnd hjá Sambandinu og ég sagði „ef viðhorfin eru svona hérna þá tala ég bara við jafnréttisnefnd Sambandsins“. Síðan fékk ég alltaf nóg að gera; ég fékk ekki að fara á dekkið.“

En fékkst fasta stöðu.

„Já, og nóg að gera í kokkaríinu.“

 

Það var aðaltilbreytingin

Þetta er karlasamfélag um borð og er Elín spurð hvernig henni hafi fundist að vera næstum því í einangrun úti á ballarhafi með áhöfn upp á kannski 12 manns.

Þá er alltaf komið og sagt „hvað er í matinn?“.

„Mér fannst það bara skemmtilegt. Ég eignaðist fjölda vina og kunningja þarna. Ég hef alltaf verið ákveðin kona og ekki kallað allt ömmu mína, þannig að það pirraði mig ekkert. Ég hugsa að þetta sé erfiðasta starfið um borð, vegna þess að það er alltaf komið og spurt hvað sé í matinn. Það bíða allir; það er kannski eina tilbreytingin. Það er kannski siglt í meira en viku og þá er alltaf komið og sagt „hvað er í matinn?“. Það var aðaltilbreytingin. Það var eins gott að kokkurinn klikkaði ekki.“

Sjómenn hafa verið með ákveðinn talsmáta og látið allt vaða. Þeir rjúka upp og eru vinir 10 mínútum síðar. Þeir segja það sem þeim dettur í hug og það er ekki endilega alltaf það sem við köllum „pólitískt rétt“. Elín er spurð hvort hún haldi að þetta myndi ganga í dag.

„Ég held að það væri mjög erfitt og gæti verið erfitt fyrir ungar konur. Samfélagið er allt annað. Við lifðum og hrærðumst í allt öðruvísi samfélagi. Auðvitað væru margar stelpur sem gætu það. En karlmennirnir eru líka að breytast. Við skulum allavega vona það.“

 

Byrjuðu saman í Hull

Elín er spurð um eftirminnilegasta túrinn.

Þá kom brot aftan á, inn um gluggann og ég stóð í eldhúsinu alveg rennandi blaut.

„Þeir eru margir eftirminnilegir, en það hlýtur að vera túrinn þegar ég byrjaði með manninum mínum. Hann var hjá Samskipum. Hann var í Stýrimannaskólanum og þurfti að ná sér í reynslu á fraktara. Við vorum búin að sigla saman um sumarið og svo kom hann í afleysingar í jólatúr. Ég var að koma úr löngu fríi; var búin að vera í Bandaríkjunum í meira en mánuð. Við fórum 22. desember held ég; þetta var rétt fyrir jólin. Við fórum til Eyja; ég man að ég gerði desertinn í Eyjum fyrir aðfangadagskvöld og svo gerði alveg kolvitlaust veður. Ég var svo sjóveik á aðfangadag þegar ég var að gefa þeim að borða. Þá kom brot aftan á, inn um gluggann og ég stóð í eldhúsinu alveg rennandi blaut og diskarnir og allt saman. Og þá hætti ég að vera sjóveik og fór að hlæja og sagði við strákana „ég er búin að fá jólabaðið“. Og túrinn sem átti að vera 12 dagar varð þrjár vikur. Við misstum út gáma. Við byrjuðum saman í Hull á milli jóla og nýárs. Og hann kom allt of seint í skólann af því að túrinn var svo langur.“

Elín segir að hann hafi einu sinni verið á Jökulfellinu og hún á Arnarfellinu og þau hafi þá ekki hist í 85 daga. „Stundum náðum við að vinka í hafnarkjaftinum en ég var alltaf nýfarin eða hann þegar hitt kom.“

Þær hafa verið stopular, samverustundirnar.

„Já, þarna í byrjun.

Við vorum alltaf til skiptis. Við vorum ekki á sömu skipum, en þó eitthvað. Svo hætti ég þegar við eignuðumst okkar barn 1994.“

 

Heimilisfræðikennari

Elín er spurð hvort hún sakni þess að vera á sjónum.

„Stundum þegar er fallegt veður og ég horfi á hafið, þá hugsa ég að það væri fínt að vera úti á sjó. En þegar veður er vont þá sakna ég þess ekki.“

Núna vinnur Elín við kennslu.

„Það hittist svoleiðis á að ég hafði verið með matstofu í Kópavogi og var nýbúin að selja hana,“ segir hún og svo var hringt í hana og hún spurð hvort hún vildi kenna heimilisfræði við Víðistaðaskóla þar sem faðir hennar hafði verið skólastjóri. Nýr kafli hófst og fór hún svo í nám í uppeldis- og kennslufræði og náði sér í kennsluréttindi. „Ég kenni heimilisfræði sem mér finnst mjög skemmtilegt og krökkunum finnst mjög gaman í heimilisfræði.

Kennslustarfið er léttara; ég var með matstofu þar sem ég var kannski að elda fyrir 4-500 manns í hádeginu og voru pottar þungir. Ég var alltaf að drepast í bakinu og ég hef varla fundið fyrir því síðan; ekkert í líkingu við það sem var. Maður yngist ekkert.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -