Laugardagur 24. september, 2022
9.2 C
Reykjavik

Elísabet lýtalæknir opnar sig: „Meðhöndlaði mig sjálf með lyfjum sem ég hafði aðgang að sem læknir“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Það hefur gefið á bátinn í lífi Elísabetar Guðmundsdóttur lýtaskurðlæknis undanfarin ár. Hún lenti í slysi og varð óvinnufær í átta mánuði fyrir örfáum árum og segist hafa misst stjórnina á öllu í kjölfarið og fór meðal annars að meðhöndla sig sjálf með þeim lyfjum sem hún hafði aðgang að sem læknir. Hún lagðist síðan inn á geðdeild og lagði inn lækningaleyfið um tíma vegna veikindanna. Hún hóf í vor störf á brjóstamiðstöð Landspítalans en var sagt upp í vetur. Þá neitaði hún nýlega að fara í skimun eða sóttkví eftir komuna til landsins og lögreglan mætti svo á heimili hennar og boðaði hana í skýrslutöku.

Andlit Elísabetar Guðmundsdóttur lýtaskurðlæknis birtist á tölvuskjánum. Hún segist vera nýkomin inn. Það heyrist í öðru barni hennar og hundinum hennar. Hún er einstæð móðir og eru börnin 16 og 20 ára.

Hver er þessi kona sem ratað hefur í fjölmiðla að undanförnu hvað varðar uppsögn hennar á brjóstamiðstöð Landspítalans sem og að hún neitaði nýlega að fara í skimun eða sóttkví eftir komuna til landsins og skipulagði í kjölfarið mótmæli á Austurvelli gegn sóttvarnaráðstöfunum hér á landi?

„Ég fæddist á Akureyri í ágúst árið 1971. Ég er meyja. Ég er elst í nokkuð stórum systkinahópi og elst fimm barna mömmu. Pabba megin eru það mestmegnis bræður og voru foreldrar mínir 17 og 18 ára þegar ég fæddist. Við fluttum til Odense í Danmörku þegar ég var átta þar sem pabbi fór í tækniskóla og bjuggum við þar í fimm ár.“

Elísabet segir að hún hafi verið pínu óþekkur krakki og „mikið á ferðinni“. Hún talar um mikla virkni en þess má geta að hún var greind með ADHD fyrir örfáum árum. „Mér fannst vera skemmtilegast að vera með strákunum og hjóla á BMX-hjóli. Ég var mikið í félagslífinu og var formaður í nemendaráðum.“

Henni gekk vel í skóla; segir að hún hafi verið orðin læs fjögurra ára og hún segist tala nokkur tungumál og spila á sjö hljóðfæri. „Ég spilaði á þverflautu í stelpulúðrasveit, „Odense pigegarde“. Við vorum í hvítum, háum stígvélum, stuttum, gulum pilsum og bláum jökkum og með medalíur festar í jakkana og með bláa hatta á höfðinu. Við vorum 100 stelpur sem marseruðum og spiluðum til dæmis á fótboltaleikjum. Við flautuleikararnir löbbuðum fremst og það var mikið ábyrgðarhlutverk vegna þess að við stjórnuðum hvernig var gengið. Við ferðuðumst mikið og fórum á keppnir. Það var virkilega gaman að vera í þessari hljómsveit og það fygldi því náttúrlega mikill agi að vera í henni.“

- Auglýsing -

Elísabet segir að hún hafi svo fengið leið á flautunni og farið að læra á barítonhorn. „Ég fór svo að spila á trompet í Lúðrasveit Akureyrar og auk þess hef ég spilað á básúnu í djassbandi. Klassískur gítar er þó aðalhjóðfærið mitt en ég fór að læra á gítar átta ára og lærði á það hljóðfæri í mörg ár og tók slatta af stigum.“

Sérfræðingur á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu

Elísabet stundaði nám á stærðfræðibraut Menntaskólans á Egilsstöðum og hóf svo nám í læknisfræði við Háskóla Íslands. „Ég veit ekki af hverju ég fór í læknisfræði; kannski af því að það var erfiðast að komast inn í læknadeildina. Ég var líka mikið að spá í nám í stærðfræði.“

- Auglýsing -

Elísabet ákvað að verða skurðlæknir og að lýtalækningar yrðu sérsvið sitt.

Hún stundaði síðan framhaldsnám í lýtalækningum í Gautaborg en þar bjó hún svo til ársins 2011. Hún vann sem sérfræðingur í lýtalækningum á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu en hún fékk þar sérfræðiréttindi árið 2003 og lærði eftir það undirsérgrein í „craniofacial“ skurðlækningum barna en skurðaðgerðir á skarði í vör og góm eru sérsvið hennar.

Hún segir að hún hafi árið 2010 orðið yfirlæknir á barnalýtalækningadeild sjúkrahússins og verið um tíma ritari í sænska lýtalækningafélaginu.

Elísabet fór almennt um tvisvar á ári í þó nokkur ár til Indlands, fyrst árið 2005, þar sem hún gerði aðallega aðgerðir á indverskum börnum sem fæðst hafa með skarð í vör eða góm. Hún segir að hún hafi líka farið í nokkrar svipaðar ferðir til Suður-Ameríku og Suður-Afríku.

Leiðbeinandi hennar á Sahlgrenska er frumkvöðull að verkefninu ásamt lýtalækni í London. Elísabet segir að Sahlgrenska-sjúkrahúsið hafi greitt henni laun þegar hún hafi verið í þessum ferðum þar sem yfirlæknirinn hafi litið svo á að hún væri í raun að læra með því að gera svona margar aðgerðir á stuttum tíma.

„Leiðbeinandinn var dálítið heimsfrægur í þessari undirsérgrein, barnalýtalækningum, og ég var svo heppin að komast undir hans vængi. Þetta var staða sem margir vildu fá. Ég fór að fara með honum til Rajastan-héraðs þar sem er sjúkrahús uppi í fjöllunum Mount Abu nálægt landamærum Pakistan og er byggt og rekið af Brama Kumaris.“ Þar fékk hún að taka þátt í að byggja upp og kenna skurðlæknum sem voru á staðnum að gera aðgerðir á börnum og fullorðnum með skarð í vör og góm og laga önnur lýti í andliti og á höfði. „Þetta var stórkostlega gaman.“

„Ég fæ tár í augun þegar ég hugsa til konunnar sem horfði svo á sig í spegli eftir aðgerðina. Það var svo æðislegt. Þetta er svo jákvæð sérgrein í rauninni af því að við erum alltaf að laga eitthvað“

Elísabet segir að sjúklingarnir hafi verið búnir að vera á sjúkrahúsinu í um viku áður en að aðgerðunum kom af því að það þurfti að tryggja næringarástand barnanna og jafnvel meðhöndla sýkingar og önnur vandamál sem gátu komið í ljós og gefa þeim þá sýklalyf áður en hægt yrði að framkvæma aðgerðirnar. Hún segir að aðstandendur sjúklinganna hafi dvalið á sjúkrahúsinu og setið á göngum og eldað mat þar sem ekkert mötuneyti hafi verið þarna. „Það voru alltaf allir saman. Það var enginn einn. Það er vandamálið hérna. Það eru svo margir einir. Við þurfum að fara að hugsa betur um hvert annað.

Maður lagar ekki góminn í fullorðnu fólki en maður getur lagað vörina. Ég gerði einu sinni aðgerð á konu sem var með rosalega stórt skarð í vör og hún hafði aldrei sýnt neinum andlitið. Maðurinn hennar sá fyrst framan í hana á brúðkaupsdaginn. Hún fór aldrei í neinar veislur. Þetta var agalega mikið lýti. Svona aðgerð geri ég á einum klukkutíma í staðdeyfingu. Ég fæ tár í augun þegar ég hugsa til konunnar sem horfði svo á sig í spegli eftir aðgerðina. Það var svo æðislegt. Þetta er svo jákvæð sérgrein í rauninni af því að við erum alltaf að laga eitthvað. Svo fór að fréttast til Mumbai og Nýju Dalí að sænskir skurðlæknar væru að gera aðgerðir og þá fór ríka fólkið að vilja koma. Þá varð þetta þannig að þeir sem gátu borgað borguðu fyrir aðgerðirnar og þeir sem gátu það ekki gerðu það ekki. Þeir sem gátu borgað fengu að vera á sjúkrastofum þar sem voru færri sjúkrarúm.

Ég hef síðan farið oft ein til Indlands og á þar góða vini sem eru skurðlæknar. Ég elska Indland og kúltúrinn þar. Það hafði áhrif á mig að fara til Indlands. Ég held að það hafði sáðst „spírítúalt“ fræ í mig þarna. Ég upplifði einhverja ró. Það var ekkert vesen og fólk talaði fallega um hvert annað. Svo var ég á svo fallegum stöðum. Það er svo gaman að upplifa nýja hluti og kynnast nýju fólki.“

Elísabet segir að hún og leiðbeinandinn hafi líka haldið fyrirlestra víða um heim um rannsóknir sínar. „Ég var orðin nokkuð stórt nafn í þessu.“

„Ég er spítalalæknir og hefði einhver sagt mér þegar ég var í námi að ég ætti eftir að stækka brjóst og fitusjúga hefði ég móðgast.“

Missti stjórnina á öllu

Elísabet fór í doktorsnám sem hún kláraði reyndar ekki en á sama tíma var hún í fullu starfi á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu og starfaði að auki á eigin stofu og var orðin einstæð móðir. „Það var of mikið. Ég fékk mér au pair og þá gekk þetta allt ljómandi vel. Svo bauðst mér vinna á einkasjúkrahúsi í Kaupmannahöfn sem bauð mér þreföld föst laun og gat ég unnið fjóra daga í viku. Það var rosalega stór ákvörðun fyrir mig að hætta á háskólasjúkrahúsinu af því að mér þykir vera svo gaman að kenna og vera í háskólasjúkrahússumhverfi með nemendum, prófessorum og vera í kennslu og þróunar- og rannsóknarvinnu. Ég er spítalalæknir og hefði einhver sagt mér þegar ég var í námi að ég ætti eftir að stækka brjóst og fitusjúga hefði ég móðgast. Ég flutti hins vegar til Malmö til að fara ekki með börnin í annað land og annað tungumál og keyrði á milli og vann á sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn í fimm ár sem var góð reynsla. Ég saknaði þó alltaf háskólasjúkrahússins.“

Elísabet og börn hennar fluttu til Íslands árið 2017 en ári áður hafði hún leyst af sem sérfræðingur á lýtaskurðdeild Landspítalans sem hún gerði reyndar líka 2005. Hún segist hafa ráðið sig í afleysingar um sumarið og hóf jafnframt störf á stofu og segist hafa verið einn þeirra lækna sem ekki fékk samning við SÍ. Hún lenti í slysi stuttu eftir að hún flutti aftur til Íslands sem hafði mikil áhrif á líf hennar.

„Ég var að koma heim úr vinnunni; þetta er svo asnalegt en minn eigin bíll rann yfir annan fótinn á mér. Ég fékk mikla blæðingu og var marin frá nára og niður í tær. Ég var ekki með neina verki í liðum þannig að ég fór ekki strax á slysavarðstofuna. Marið minnkaði hins vegar ekkert og ég var farin að fá mikla verki og það tók langan tíma að greina þetta eftir að ég lét líta á fótinn.“ Elísabet segir að síðan hafi komið í ljós að það blæddi endalaust úr æð í fætinum og myndaðist svo sýking og síðan drep þannig að það þurfti að fjarlægja heilmikið af húð annars staðar af líkama hennar og setja á sárið. Hún segist hafa farið í fjórar akút aðgerðir á sinni eigin deild, lýtalækningadeild.

„Ég missti einhvern veginn stjórnina á öllu af því að ég var mikið veik og alltaf í aðgerðum en ég hafði hálfu ári áður farið í stóra, opna kviðarholsaðgerð vegna æxlis í legi sem reyndist sem betur fer vera góðkynja. Ég fór að vinna tveimur vikum seinna þótt ég ráðlegði sjálf sjúklingum sex vikna hvíld eftir sams konar aðgerð en mér fannst mér líða vel og var verkjalaus. Álagið var þar fyrir utan mikið við að flytja heim ein með tvo unglinga og á sama tíma sinnti ég litlum stofupraxis í Malmö og fór þangað tvisvar í mánuði.

Eftir slysið var ég frá vinnu í átta mánuði og var tekjulaus allan tímann þar sem ég var svo óheppin að lenda á milli kerfa. Ég hafði misst allan rétt í Svíþjóð við flutning lögheimilis frá Svíþjóð og hafði ekki náð að vinna mér inn rétt minn á Íslandi hvorki hjá lífeyrissjóði eða læknafélagi og ég neyddist til að leita til félagsmálastofnunar og biðja um styrk en þá hafði ég haft of háar tekjur í Svíþjóð árinu áður til þess að eiga rétt á því. Kerfið hér er allt of flókið og ekki séns í miklum veikindum að rata í því eða vita hvaða rétt maður á og ég hef verið svo heppin að hafa aldrei áður þurft á aðstoð að halda. Þegar maður er búinn að vera með góðar tekjur þá er maður líka með mikil útgjöld svo sem í tengslum við stofurnar og húsnæði sitt. Þetta var virkilega erfitt og ég var stöðugt með áhyggjur og kvíða og kunni ekki að biðja neinn um að hjálpa mér, vön að bjarga mér sjálf, og hafði ekki haft tíma til að virkja félagslegt net eða kynnast nágrönnum eða foreldrum þeirra barna sem börnin mín voru að kynnast.“

„Kvíðinn lýsti sér sem lamandi, hræðilegur og sársaukafullur kvíði sem ég gafst alltaf upp á eftir nokkra daga og varð að taka þessi kvíðalyf því mér fannst ég annars vera að deyja“

Róandi lyf

Elísabet segir að á þessum erfiða tíma hafi hún fengið mikið af lyfjum svo sem verkjalyf og róandi lyf. „Þegar vanlíðan og streita var orðin of mikil réð ég ekki lengur við neitt. Stofan í Svíþjóð fór í gjaldþrot, öll sú „administration“ sem ég hafði – ein með tvö fyrirtæki, heimili og börn – fór að fara í óreiðu, reikningar hrúguðust upp, ég var ekki einu sinni búin að pakka upp almennilega eftir flutningana og börnin mín voru auk þess að aðlagast nýju lífi á Íslandi í nýjum skóla með nýjum félögum.

Ég missti stjórnina og það umhverfi og regla sem ég þarfnast til þess að geta liðið vel eru í rauninni þær aðferðir sem ég hef tamið mér og eru nú kenndar á námskeiðum fyrir fólk með ADHD. Kvíðinn og þunglyndið jókst hratt uns ég var komin í lífshættu og tengist líka skömm og sektarkennd yfir því að vera farin að meðhöndla mig sjálf með þeim lyfjum sem ég hafði aðgang að sem læknir. Kvíðinn lýsti sér sem lamandi, hræðilegur og sársaukafullur kvíði sem ég gafst alltaf upp á eftir nokkra daga og varð að taka þessi kvíðalyf því mér fannst ég annars vera að deyja.

Elísabet hefur sótt um að fá að sækja lækningaleyfið aftur og segist hafa fengið fullt lækningaleyfi með takmörkunum þó þar til í apríl á næsta ári sem felist í að hún megi ekki skrifa út ávanabinandi lyf. Hún segir það skipta sig engu máli þar sem hún skrifi í rauninni aldrei út lyf hvort sem er.

Besta vinkona mín úr læknadeildinni reyndist ennþá vera það þrátt fyrir að hún hafi farið í sérnám til Bandaríkjanna og leiðir því skilið í nokkur ár en hún bjargaði mér þegar hún sá í hvað stefndi ásamt landlækni, sama yndislega og er núna; þær björguðu lífi mínu þegar ég var að gefast upp og komu mér inn á geðdeild Landspítalans og ég þáði að leggja inn lækningaleyfið mitt þar til ég hefði náð bata á ný.“ Elísabet fékk svo lækningaleyfið aftur síðar.

„Gæfa mín var að komast undir þær læknishendur sem ég þurfti á að halda og láta hugsa um mig. Ég get aldrei hrósað starfsfólki geðdeildar Landspítalans nóg fyrir hversu vel það tók á móti mér því ég var hræddari en ég hef nokkurn tímann á ævinni verið, ég hafði týnt mér og skömmin var hræðileg. Ég hélt ég væri eina manneskjan með svona hræðilegan karakter, ég væri jafnvel ólæknandi alkóhólisti og að lífið væri búið og ég hélt að það væri jafnvel betra fyrir börnin mín að ég væri ekki til. Ég fékk þá hjálp sem ég þurfti og sem ég hefði fyrir löngu átt að vera búin að leita. Ég vona innilega að ég hafi lært mína lexíu varðandi það að leita mér læknis ef ég veikist af sjúkdómi hver sem hann er í framtíðinni.

Það er erfiðara fyrir lækna en aðra að fara til læknis og við hunsum held ég einkenni okkar lengur, bítum á jaxlinn, gleymum og höldum svo áfram ein og bælum eigin einkenni, skellum í okkur ibufen og förum alltaf í vinnuna sama hvað eða eins og ég fór að meðhöndla kvíðann minn sjálf sem leiddi til þess að ég gat ekki losnað við kvíðalyfin. Ég fór eftir þetta á fjögurra vikna streitunámskeið í Hveragerði og komst meðal annars í gang með þeirri hreyfingu sem mér er lífsnauðsynleg til að geta liðið vel en ég hafði lítið getað hreyft mig eða æft í heilt ár og hafði fitnað heil ósköp. Ég hafði verið veik á bæði líkama og sál í langan tíma.“

ADHD

Elísabet fékk á þessum tíma þá greiningu að hún væri með ADHD og hefur síðan verið á lyfjum við því. „Mér hafði aldrei dottið í hug að ég væri með ADHD og var hreinlega með fordóma gagnvart greiningunni og var hrædd um það sem sumir læknar og sálfræðingar sögðu mér um þá hættu að ég gæti farið að misnota örvandi fíkniefni eða jafnvel endað í sprautufíkn. Ég hafði aldrei notað fíkniefni en öll fíkn er jú fíkn sama hver hún er og er sami sjúkdómurinn í grunninn sama hvað er misnotað en er mjög oft hamlandi afleiðing ADHD en það vitum við meðal annars vegna rannsókna á Íslandi. Meðferðin gjörbylti lífi mínu frá fyrsta degi og sem betur fer fór ég að ráðum þess góða læknis sem greindi mig með gaumgæfilegum rannsóknum, viðtölum, tölvuprófum, sálfræðiviðtölum og spurningalistum sem ég og fjölskylda mín svöruðum. Það tóku ekki margir eftir breytingum á mér enda hafði ég verið í Svíþjóð og verið veik og er að auki það sem ég vil kalla „social introvert“ og hef ekki mikla þörf fyrir að tala um mitt einkalíf nema við mína allra nánustu. En ég elska að vera í góðum félagsskap þótt ég uni mér vel ein og þarfnast þess að vera það og mér hefur aldrei leiðst á ævinni og ég segi það satt. Innra með mér fór ég að standa betur með sjálfri mér og eftir árs meðferð fór ég að finna fyrir tilfinningu fyrir innan tilfinninguna sem átti það til að vera sem lauf í vindi ytri aðstæðna oft og tíðum og gera mér lífið erfitt í persónulega lífinu. Ég komst svo að því að þessi nýja tillfinning er sú sem er mín eigin og er hamingjusöm sama hvað gerist í þeirri ytri og ég hvíli alltaf í sama hvað gerist og svo er einnig nú þrátt fyrir allt sem hefur gengið á undanfarnar vikur.“

„Það er rosalega mikil niðurlæging að vera rekin af háskólasjúkrahúsi; eina háskólasjúkrahúsinu á Íslandi. Ég tek þessu samt ekkert persónulega af því að þetta snýst ekkert um mig.“

Neitaði að fara í skimun eða sóttkví

Elísabet segir að eftir streitunámskeiðið hjá NFLÍ í Hveragerði hafi hún farið að vinna hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Ég ætlaði ekki að vera lengi en það var svo gott að vinna þar, mér var vel tekið og ég fékk virkilega góðan yfirmann sem er framkvæmdastjóri starfseminnar í Kópavogi þar sem klínískar rannóknir fara fram. Ég var þar í eitt og hálft ár uns ég hóf störf á Landspítalanum 1. apríl síðastliðnum sem klínískur læknir í brjóstamiðstöð Landspítalans í Skógarhlíð. Mér var síðan sagt upp fyrir einum og hálfum mánuði án nokkurrar ástæðu eða fyrirvara.“ Elísabet segist ekki hafa fengið skýringu á uppsögninni né heldur lögfræðingur læknafélagsins sem hún segir að hafi innt eftir ástæðu við spítalann.

„Það er rosalega mikil niðurlæging að vera rekin af háskólasjúkrahúsi; eina háskólasjúkrahúsinu á Íslandi. Ég tek þessu samt ekkert persónulega af því að þetta snýst ekkert um mig. Það er engin ástæða fyrir uppsögninni. Það er ekkert sem ég hef gert rangt. Ég var vel liðin af starfsfólkinu og sjúklingunum. Það hefur ekkert komið upp á. Það hefur enginn kollegi hringt og spurt hvað hafi gerst. Það er bara þögn sem ríkir í læknasettinu.“

Á covid.is kemur fram að farþegar sem koma til Íslands geti valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með fimm daga sóttkví á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku liggur fyrir eða sleppa sýnatöku og sitja í 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Þar kemur einnig fram að brot á sóttkví eða einangrun geti leitt til sekta og aðkomu yfirvalda til að koma í veg fyrir brot.

Elísabet fór nýlega til Kaupamannahafnar og þegar hún kom aftur til landsins neitaði hún að fara í sýnatöku og fór ekki í sóttkví. Hún skipulagði í kjölfarið mótmæli á Austurvelli gegn sóttvarnaaðgerðum hér á landi. Þá hefur hún birt myndbönd á Facebook þar sem hún sýnir frá aðstæðum og fjallar um þetta og hefur þetta og mál hennar ratað í fjölmiðla.

„Af því að ég hef verið að vinna þar sem eru stundum faraldrar og líka þar sem eru fjölónæmar bakteríur þá veit ég töluvert mikið um sóttvarnir og grímur. Mér fannst það ekki meika neinn sens í upphafi Covid-faraldursins þegar sagt var að það ætti að loka efnahag vestrænna landa til þess að vernda gamla og veika. Svo hugsaði ég með mér að það væri á móti öllu sem ég hef lært í læknisfræði þegar sagt var að það þyrfti að bólusetja alla. Það hefur aldrei verið gert. Þá fór ég að leita mér upplýsinga og var í raun og veru í rannsóknarvinnu „non stop“ í allt vor.

Svo finnst mér vera hræðilegt að unglingar komist ekki í skólann því þeir verða að hitta aðra unglinga. Þeim líður illa og þeir eru hræddir, hvað þá þeir sem bjuggu við lélegar aðstæður fyrir. Fólk sem drekkur, drekkur bara meira heima hjá sér núna þegar barir eru lokaðir. Þetta er svo hræðilegt fyrir börnin og það er það sem vakir fyrir mér. Skólinn er kannski eina athvarfið fyrir sum börn og unglinga. Ég verð að tala um þetta. Við erum búin að gleyma hvernig er að vera frjáls. Það er búið að svipta okkur frelsinu. Og ég hef ferðast um lönd þar sem er kúgun. Ég vil bara að börn fái að lifa sem eðlilegustu lífi. Það er engin ástæða að hafa þau í einangrun og halda þeim ekki í skólanum. Það á frekar að vernda gamla fólkið og hafa það í almennilegu húsnæði.

Fólk hélt um daginn að ég væri orðin geðveik af því að ég setti myndband á Facebook af því þegar ég var í Leifsstöð eftir komuna til landsins. Ég vissi alveg hvað ég var að gera. Ég er að reyna að vekja athygli á svo mörgum málum svo sem mannréttindabrotinu sem við höfum orðið fyrir hér á Íslandi sem á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndum okkar. Og enginn þorir að segja neitt.“

Í byrjun vikunnar var tilkynnt að Elísabet væri ekki með lækningaleyfi og segir hún að sama kvöld hafi geðlæknir á vegum Landspítalans hringt í sig til að lýsa yfir áhyggjum margra af geðheilsu hennar því hún væri líklega komin í maníu, og segir hún að svo sé ekki, og að það hefði ekki verið stabíl manneskja sem hafi sést gráta á myndskeiði sem hún hafði sett á Facebook við heimkomu í Leifsstöð.

„Þær björguðu lífi mínu þegar ég var að gefast upp og komu mér inn á geðdeild Landspítalans og ég þáði að leggja inn lækningaleyfið mitt þar til ég hefði náð bata á ný“

„Ég sagði að þegar fólk er í maníu þá sofi það ekki, borði ekki og kaupir kannski öll tannkremin í bænum. Mér líður í raun og veru mjög vel. Ég er með þetta ADHD sem ég fæ meðferð við. Svo fékk ég skilaboð í dag frá konu sem ég þekki þar sem hún skrifaði að henni fyndist persónuleiki minn hafa breyst. Málið er að ég hef ekki verið í samskiptum við hana í mörg ár. Ég hef ekki talað við hana og hún getur ekki vitað þetta. Svo skrifaði hún að heilaæxli gæti valdið þessu og ég þyrfti að fara í rannsóknir. Ég ætla að koma mér þangað niður eftir og fara að sjálfsögðu í fullkomið mat og rannsóknir en embætti landlæknis mun samkvæmt lögfræðingi mínum líklega krefjast starfshæfnismats þar sem þau eru hrædd um að ég sé orðin geðveik og persónuleikatrufluð en það er ekkert skrýtið að ég sé búin að vera stressuð alla vikuna eftir allt sem hefur gengið á. Þeim gengur vonandi einungis gott til og ég er orðin viss um að svo er, enda hefur landlæknisembættið hingað til reynst mér vel. Það er samt skrýtið og sárt að enginn læknir starfandi á Landspítala né skólafélagi úr deildinni hafi haft samband í einn og hálfan mánuð og spurt hvernig ég hafi það og hvers vegna ég hafi verið rekin. Þó er búið að staðfesta við embættið að ástæða brottrekstursins sé ekki að neitt hafi komið upp á og enginn grunur eða ástæða til að gruna mig um að vera í neyslu af neinu tagi, enda hefur einungis verið mikil ánægja með störf min þar til skyndilega umræddan dag.“

Á borði lögreglunnar

Lögreglan mætti svo á heimili Elísabetar daginn eftir að þetta viðtal var tekið og boðaði hana í skýrslutöku sem hún á eftir að fara í og hún vill ekki segja neitt um það mál að ráðleggingu lögmanna sinna en mun fylgja ráðum þeirra og klára þau persónulegu mál sem eru henni mikilvægust sem er möguleiki hennar til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða með starfinu sem hún hefur menntað sig í og unnið við frá útskrift úr læknadeild HÍ árið 1997. Hún segist hafa sótt um að fá að sækja lækningaleyfið aftur og segist hafa fengið fullt lækningaleyfi með takmörkunum þó þar til í apríl á næsta ári sem felist í að hún megi ekki skrifa út ávanabinandi lyf. Hún segir það skipta sig engu máli þar sem hún skrifi í rauninni aldrei út lyf hvort sem er.

„Síðustu vikur og dagar hafa verið afar viðburðaríkir og ég er eðlilega þreytt en hvíli eins og undanfarið eitt og hálft ár í minni eigin innri tilfinningu sem breytist ekki þrátt fyrir ytri aðstæður, uppnám, ótta eða annað sem upp getur komið í þeim aðstæðum sem ég lendi í alveg sama hvað. Og gæti ekki hreinlega verið að þetta sé það sem Buddistarnir tala um að sé sá Guð sem býr í okkur öllum?

Þessi tími frá því að ég fór að benda á þá hluti sem ég taldi afar óréttláta og hamlandi, miðað við þau vísindi sem ég vinn samkvæmt og þeim siðareglum sem ég hef heitið að starfa eftir, hefur gefið mér mikið líka þótt ég hafi fórnað miklu og verið undir álagi og börnin mín auðvitað líka. Það eru 99,9% af öllu því sem ég hef séð eða fengið sent til mín jákvæð viðbrögð og stuðningur frá fleiri einstaklingum en ég hef tölu á en ég svara öllum persónulega og er þeim öllum innilega þakklát og verð það ævinlega. Ég svar líka þeim örfáu sem til dæmis segja mér að fara út aftur en þeir fá líka vingjarnlegt svar með ósk um góða framtíð. Það sem er eiginlega sem lítið kraftaverk er að sumir þessara aðila sem sent hafa slíkt hafa þá svarað til baka og sagt mér að foreldri hafi til dæmis verið á geðdeild. Það sannar að það borgar sig að svara öllum með virðingu, velvild og kærleika en þá eru miklar líkur á að slíkt hið sama komi til baka nánast samstundis. Ég tel að það sé ekki hægt að fá það sem maður hefur ekki gefið og það á líka við þessa góðu og fallegu eiginleika okkar mannskepnunnar. Annað sem er að gerast er að sumir eru farnir að segja frá sínum sárum og þannig getum við koll af kolli lifað hér saman í sátt og samlyndi og hætt að vera hrædd við hvert annað, gripið hvert annað og ekki samþykkt níð af nokkru tagi heldur lifað eins og við hljótum öll að óska okkur í sátt, samlyndi og góðum félagsskap, rökræðum, spurt spurninga og haft skoðanaskipti eins og við gátum einu sinni.“

 

Texti: Svava Jónsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -