Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Elísabet segist ofsótt – Bauðst vinnan aftur á spítalanum ef hún viðurkenndi að hún væri geðveik

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elísabet Guðmundsdóttir lýtalæknir segir í stöðufærslu á Facebook að hún hafi verið ofsótt á Íslandi eftir að hún opinberaði skoðanir sínar á COVID. Henni hafi verið hótað nauðgun, eggjum grýtt í hús hennar og lögreglan stöðvi hana sífellt þó hún hafi engin umferðalög brotið. Hún fullyrðir enn fremur að sama dag og það var opinberað að hún væri ekki með læknisleyfi hafi geðlæknar Landspítalans haft samband og viljað leggja hana inn á deild.

Henni er augljóslega mikið niðri fyrir yfir þessu öllu. „Þeir eru margir íslendingarnir sem grýta mig og taka þátt í mannorðsmorði yfirvalda á mér. Aldrei hefði ég trúað því að íslendingar myndu hóta mér barsmíðum, nauðgun, grýta heimili mitt eggjum og dreifa hatri sínu á mér með ljótum og andstyggilegum kommentum um konu sem þau þekkja hvorki né hafa hitt. Að beiðni Landlæknis hef ég að sjálfsögðu framvísað læknisvottorði sem staðfestir að ég er heil heilsu og að auki að sjálfsögðu ekki í neyslu af neinu tagi,“ skrifar Elísabet.

Hún segir boðskap sinn ekki hafa verið svo róttækan að þetta eigi rétt á sér. „Hlakkað hefur í mörgum íslendingum sem ausa hatri sínu yfir eina lækni landsins sem stóð upp fyrir þjóðinni og benti á hvernig fólk gæti styrkt ónæmiskerfi sitt og lýsti yfir áhyggjum af börnum og unglingum vegna lokunar skóla og frístundastarfs. Fyrir það var ég rekin án ástæðu eða fyrirvara af Landspítalanum þar sem ég starfaði sem sérfræðingur í fullu starfi,“ segir Elísabet.

Hún lýsir svo atburðarrásinni í desember frá hennar sjónarhorni. „Ég starfaði út uppsagnarfrestinn og að honum loknum þann 1. desember sl, fór ég til Danmerkur þar sem mér var boðið að taka þátt í panelumræðu ásamt sérfræðingum í veiru- og ónæmisfræði um covid-19 og yfir 100.000 danir hafa séð þessa umræðu og þá ræðu sem ég hélt um ástandið á Íslandi. Í umræðunni tóku einnig þátt lögmenn með sérhæfingu í lögum og reglum um mannréttindi og sóttvarnir,“ segir Elísabet og heldur áfram:

„Á blaðamannafundi Almannavarna þann 7. desember greinir aðstoðaryfirlögreglustjóri frá því að þessi kona (sem sagt ég) væri ekki með lækningaleyfi á Íslandi! og sama kvöld hringir í mig geðlæknir á vegum Landspítalans og vill að ég fari niður á geðdeild í mat, búið var að ræsa út yfirlækni geðsviðs og 2 aðra sérfræðinga sem biðu eftir mér því ég væri greinilega orðin geðveik og þyrfti innlögn. Þar að auki var mér tjáð að ef ég legðist nú bara inn í nokkra daga og hvíldi mig, fengi ég vinnuna aftur því það mætti ekki reka veikt fólk!“

Hún segist ekki hafa þegið þetta boð. „Ég fór að sjálfsögðu ekki ein seint um kvöld af heimili mínu í fang 3ja geðlækna sem töldu mig geðveika, en hafði strax samband við minn heimilislækni og sjálfstætt starfandi geðlækni sem staðfestu heilsu mína eftir læknisskoðun dagin eftir. Þá tók við einelti lögreglu á mér og hefur lögregla haft af mér afskipti 5 sinnum af tilbúnum orsökum td vegna gruns um t.d að hafa ekið of hægt af stað á grænu ljósi og vegna gruns um að hafa hugsanlega ætlað inn í verslun án grímu osfrv,“ segir Elísabet.

- Auglýsing -

Hún fer svo yfir atvikið þegar hún birti sjálf myndband af lögreglunni handtaka sig. „Fyrir rúmlega viku síðan var ég að keyra vin minn heim er ég stöðvuð af lögreglunni kl 23.30 rétt við Fjarðarkaup. Fyrst er eg beðin um ökuskírteini og látin blása og að því loknu sagt að ég væri eftirlýst. Það var undarlegt þar sem ekki voru meira en 2 dagar síðan lögreglan trakkaseraði mig siðast og stöðvaði mig í umferðinni. 23.30 á fimmtudagskvöldi voru 3 lögreglubílar og 5 lögregluþjónar í útkalli til að handsama konu sem aldrei hefur komist í kast við lögin, ekki einu sinni umferðarlagabrot. Allt fór friðsamlega fram, ég sýndi skírteini, blés og var sagt að bíða því varðstjóri væri á leiðinni. Taugakerfi mitt var þegar orðið streitt eftir áreiti undanfarinna vikna og þarna skulfu hendur mínar og líkami allur því ég vissi ekki á hverju ég ætti von, en hélt samt ró minni og beið þar varðstjorinn sem beðið var eftir var mættur á staðinn líka,“ lýsir Elísabet.

Hún segir það sem kom á eftir enn verra. „Þrátt fyrir að hafa sagt ok ég kem eftir að hann tekur af mér síma og bílbelti þar sem ég sit inni í bílnum, draga 4 lögreglumenn mig út úr bílnum, þrýsta mér upp að bílnum mínum með hendur fyrir aftan bak og handjárna mig. Skýrslutakan tók 3 klukkustundir og klukkan 02.30 stend ég ein úti á götu fyrir utan lögreglustöðina á kaldri og myrkri vetrarnóttu eftir hrottalega handtöku, eftirlýst vegna skýrslutöku. Ég hafði hringt í lögfræðinginn minn um leið og ég sá bláu ljósin, hann sagði mér að gera það sem lögreglan bæði um og þar sem hann kom ekki á lögreglustöðina hafði ég setið ein í 3 klukkutíma, þann fyrsta handjárnuð fyrir aftan bak með poka yfir höfðinu umkringd 5 lögreglumönnnum með grímur og i fullum skrúða,“ segir Elísabet.

Hún vandar svo ekki íslensku þjóðinni kveðjuna. „Þjóðin sem ég stóð upp fyrir grýtir mig nú og dæmir án þess að skoða samhengið og finnst ég sjálf geta kennt mér um og er hissa á að ég gráti á meðan ég er beitt hryllilegu og ómannúðlegu ofbeldi. Þjóðin mín grýtir mig og hótar mér enn meira ofbeldi, sumir jafnvel að nauðga mér og aðrir grýta heimili mitt með eggjum, og njóta þess að horfa á yfirvöld eyðileggja líf mitt og barna minna, en ég hef meðvitað sett það sem ég hef orðið fyrir á netið til þess að sýna ofbeldið sem ég er beitt,“ segir Elísabet.

- Auglýsing -

„Það hafa óteljandi íslendingar lent í mun verra ofbeldi yfirvalda en ég, og mér er það óskiljanlegt hvernig íslendingar eru hissa á að kona gráti, við brutal handtöku. Óteljandi Íslendingum finnst konan og læknirinn sem er ekki einu sinni sektuð fyrir umferðarlagabrot eigi skilið að lögregla elti hana uppi líkt og um vopnaðan forhertan glæpamann sé að ræða til að taka skýrslu vegna gruns um að hafa brotið reglur sem þar að auki eru ólöglegar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -