Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Elín Björk er neytandi vikunnar: „Frystiskápar- og kistur eiga það til að verða einskonar svarthol“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Neytandi vikunnar, Elín Björk Ragnarsdóttir er fædd 1973, gift og fimm barna móðir. Svo á hún einnig tvö ömmubörn. Fjölskyldan er búsett í Mosfellsbæ. Elín starfar sem fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands og er björgunarsveitarmaður í Björgunarsveitinni Kyndli Mosfellsbæ. Einnig er hún sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá Tupperware.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég kaupi alltaf nautakjöt og kjúkling í magnpakkningum. Lambakjöt kaupi ég beint af bónda. Ég kaupi einnig oft grænmeti og ávexti sem eru á síðasta séns og frysti eða nota í súpur eða pottrétti. Ég reyni að skipuleggja vikuleg innkaup með því að gera vikumatseðil. Einu sinni í viku erum við með „vinalegan vikudag“ en það er kjötlaus dagur.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Já, ég endurnýti. Við fjárfestum í flokkunartunnum í eldhúsið og þá gengur miklu betur fyrir alla fjölskyldumeðlimi að flokka. Fatnað hef ég selt í Extraloppunni og húsgögn og annan húsbúnað hef ég annaðhvort sett í nytjagám Sorpu eða auglýst á gefins síðum á Facebook. Það er nefnilega þannig að þegar hluturinn hættir að veita þér gleði er tilvalið að hann fái að veita öðrum gleði.

Gefðu eitthvað sem kemur frá hjartanu

- Auglýsing -

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Það fyrsta sem mér dettur í hug varðandi matvöru er að hún sé innlend. Ef ég þarf að versla innflutta vöru, þá reyni ég að gæta að hún sé ekki flutt um langa leið til neytanda. Varðandi fatnað, þá versla ég mikið notaðan fatnað og reyni frekar að fjárfesta í íslenskri hönnun. Þegar kemur að gjöfum, þá slá heimatilbúnar gjafir alltaf í gegn. Til dæmis gott granóla eða sultur. Gefðu eitthvað sem kemur frá hjartanu. Gjafabréf í ýmiskonar upplifanir eru einnig sniðugar.

Elín Björk Ragnarsdóttir
Elín Björk er útivistarkona.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

- Auglýsing -

Ég á afar erfitt með að draga úr kaupum á vörum tengdum útivist og hreyfingu en reyni þá frekar að finna notaðan útivistarfatnað og því tengt á sölusíðum eða í Extraloppunni. Oft heldur fólk að flíkin sé ónýt þegar hún hættir að vera vatnsheld og losar sig við hana. Það eina sem þarf að gera er að vatnsverja hana upp á nýtt og hún gengur í endurnýjun lífdaga.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já, ég myndi segja það. Ég er löngu hætt að nota smjörpappír, plastfilmu og poka. Núna nota ég fjölnota baksturmottu og fjölnota frysti- og geymsluílát og svo rúllar fjölskyldan um á rafmagnsbílum.

Annað sem þú vilt taka fram?

Ég get gefið gott ráð varðandi frystingu á mat. Frystiskápar- og kistur eiga það til að verða einskonar svarthol sem hlutir gleymast í. Það er gott að halda skjal utan um hvað er í kistunni og taka það upp sem er orðið elst. Ef þú ætlar að prófa þetta, er gott að taka allt upp úr, skrifa niður viðkomandi matvöru og dagsetningu.

 

Ellu granóla

  • 125 g haframjöl
  • 100 g gróft kókosmjöl
  • 100 g hnetur t.d möndlur, pekan eða heslihnetur í grófum bitum
  • 65 g blönduð fræ t.d graskers, sólblómafræ eða hörfræ
  • 1 dl rúsínur, döðlur, epli, apríkósur, trönuber eða aðrir smátt skornir, þurrkaðir ávextir
  • 1 ½ tsk kanill
  • 2 msk kókosolía (má vera sólblóma eða grænmetisolía)
  • 125 g hlynsíróp eða sykurlaust sírópGranóla

Aðferð

Hitið ofninn í 170° gráður, undir og yfirhiti. Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál. Hitið kókosolíuna í vatni þannig að hún verði fljótandi. Setjið síróp og kókosolíu út í blönduna og hrærið vel saman. Hellið á fjölnota sílikon mottu, dreifið vel úr og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur. Gott að taka út þegar tíminn er hálfnaður og hræra upp í blöndunni. Takið úr ofninum, hrærið upp í blöndunni og látið kólna á mottunni. Setjið í loftþétt ílát og geymið á þurrum og dimmum stað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -