Engill Bjartur er neytandi vikunnar: „Kreditkort versta uppfinning samtímans“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar er Engill Bjartur Einisson, rithöfundur, ljóðskáld og pistlahöfundur. Auk þess er hann rappari og er að vinna í gerð síns fyrsta lags. Engill Bjartur er áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og deilir skemmtilegum brotum úr lífi sínu á Instagram og TikTok til afþreyingar landsmanna. Hann býr með foreldrum sínum og yngri bróður. Engill Bjartur er fæddur 1998 en segir að flestir halda að hann sé þrítugur eftir að hann byrjaði að safna skeggi. Hann hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur á síðastliðnum þrem árum (Vígsla, Ljóðgæti & Frumefni) og hafa þær hlotið góðar viðtökur. 

Hvað eyðir Engill Bjartur í mat á mánuði og hvar verslar hann helst ?

„Ég eyði umtalsverðu í mat þar sem ég er iðinn vöðvasmiður eða vaxtarræktarmaður. Eins og flestir vita, er það brýn nauðsyn að innbyrða ógrynni af hitaeiningum og prótíni til að hámarka vöðvavöxtinn. Að öðru heimilisfólki undanskildu snæði ég fyrir u.þ.b. 100 þ. kr. á mánuði. 

 Ég versla eingöngu í Bónus einfaldlega því þar er ódýrast. En hneturnar og húmmusinn minn kaupi ég í Costco. Hvað val á verslunum varðar er verðlagning lykilatriði en góð þjónusta skiptir líka sköpum. Ef afgreiðslufólk tiltekinnar verslunar leggur sig í framkróka við að veita líflega og almennilega þjónustu, er mun líklegra að ég skipti við þá verslun. Mér leiðist þurr þjónusta og skil ekki að hún skuli þrífast á annað borð. Ef þjónustufólk getur ekki verið kurteist við alla viðskiptavini, ætti það að skipta um starf.“

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

 „Ég held kostnaði niðri með því að fara sjaldan út að borða. Þar að auki er ég grænmetisæta/fiskæta og slepp því við að eyða peningum í kjöt. Ég myndi vilja fá Costco í heimabæinn minn Mosfellsbæ til að þvinga Bónus til að vera enn samkeppnishæfari. Ef sama verðstríð gilti um matvöruverslanir og gildir um eldsneyti, væri matarverð lægra á landsvísu, öllum til bóta.“

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

„Að mestu leyti já. Þar sem ég versla sárasjaldan í sjoppum, dýrum búðum og skyndibita- og veitingastöðum, verð ég lítið var við háa verðlagningu en ég er meðvitaður um hana og þykir hún stundum eiga rétt á sér. Stundum ekki. Ef verslanir eru opnar allan sólarhringinn er hærra verð réttlætanlegt. En síðan er hreint og beint okur einnig til sem fyrirbæri og því er ég ekki hlynntur. Gullna reglan er þessi: Ef álagning er mikil á vöru eða þjónustu, þarf kúnninn að fá fríðnidi í hlutfalli við álagninguna; s.s. framúrskarandi þjónustugæði, lengri opnunartíma, betri vöru, heimsendingu o.þ.h. Verslunum ber að hafa þetta hugfast. Já, ég geri verðsamanburð af natni því sparaður skildingur er græddur skildingur.“

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

„Ég tek aldrei lán. Þegar ég flyt að heiman er stefnan að geta staðgreitt mína fyrstu íbúð. Ég er mótfallinn lánum af öllum toga. Einnig þykir mér kreditkort versta uppfinning samtímans. Mun verri en yfirdráttur. Best er að eiga sinn eiginn aur og ef maður á hann ekki að safna þá af þolinmæði og vera með raunhæf markmið í neyslu, útgjöldum og fjárfestingum.“

Leggur þú fyrir og ef svo er hvaða leiðir notar þú ?

„Ég er séður í fjármálum og safna af fyrirhyggju. Núna er ég að safna fyrir nýjum bíl. Síðan íbúð. Mín besta leið til að safna er að taka út reiðufé í hraðbanka og fela það á góðum stöðum. Þá sé ég féð ekki í heimabankanum og er því ólíklegri til að falla í þá gryfju að eyða því í óþarfa. Þetta er eins og að vera með banka heima hjá sér. Einnig hef ég hug á að koma mér upp persónulegum neyðarsjóði með tíð og tíma sem samanstendur 50% af Bandaríkjadölum og 50% af gulli – ef ske kynni að efnahagurinn í núverandi mynd hrynji.“

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

„Ég er umhverfisverndarsinni og náttúrubarn. T.a.m. hata ég að sjá sígarettustubba á Esjunni og ég kem því ekki heim og saman að sumir hendi rusli á götum úti og hvað þá í íslensku náttúrunni okkar. Hins vegar hallast ég að því að gert sé eilítið of mikið úr kolefnismengun af almenningsvöldum. Einkaþotur milljarðamæringa eru mun stærra vandamál hvað umhverfið varðar en fólksbíll meðalmannsins. Öfgaumhverfisvernd er að mínu mati aðferð glóbalista og auðmanna til að einoka auðlindir jarðar og dreifa athygli jarðbúa frá stærri vandamálum eins og stjarnfræðilegum útgjöldum Bandaríkjahers og NATÓ sem menga meira en almenningur á einkabílum. Í þessu sambandi þykir mér umræðan um fækkun bílastæða í höfuðborginni ekki landsmönnum fyrir bestu.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -