Sunnudagur 29. maí, 2022
12.1 C
Reykjavik

Er hagvöxtur gallaður mælikvarði?

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hagvöxtur mælir efnahagslega stöðu þjóðar og hefur löngum verið notaður sem mælikvarði á velsæld þjóða, sem og lausn við atvinnuleysi og fátækt. Kenningin um hagvöxt er nokkurn veginn svona: vöxtur á landsframleiðslu (GDP), sem mælir framleiddar vöru og þjónustu hagkerfisins á hverju ári, er nauðsynlegur til að þjóð dafni og það ríki stöðugleiki. Flestar alþjóðastofnanir svo sem OECD (efnahags- og framfarastofnunin) og World bank, (Alþjóðbankinn) nota hagvöxt til að mæla stöðu þjóða og í meira en hálfa öld hafa ríki einblínt á vöxt hagkerfi síns í þeirri von að hraður efnahagslegur vöxtur bæti líf almennings.

Á Íslandi er hagvöxtur notaður sem mælitæki á góða stöðu landsins. Hann á að skapa störf og efla kaupmátt almennings. Hlutirnir eiga að vera í góðu lagi þegar hagvöxtur er mikill en í verra standi ef hægist verulega á honum. Hann virðist því vera öryggislína fyrir ráðamenn um að það sé allt í góðu lagi, svona sjáiði: „hér er allt í lagi, hér er hagvöxtur“ en titringur skapast og óöryggi grípur um sig ef hann fer niður.

Það gefur hins vegar augaleið að hagvöxtur er takmarkað mælitæki á velsæld. Í fyrsta lagi byggir hann á því að vöxtur sé alltaf góður. Er það svo? Jörðin virðist vera að biðja um endurskoðun á þeirri kenningu, enda komið að þolmörkum á mörgum vígstöðvum vegna neyslu og vaxtar mannkyns. Í öðru lagi, hagfelld efnahagsskilyrði eru ekki endilega samasem merki um almennt hamingjustig fólks. Þó við getum verið sammála um að fólk sé almennt hamingjusamara í samfélagi þar sem ytri efnahagsleg skilyrði eru ágæt er það ekki sjálf gefið. Við þekkjum það flest úr eigin lífi að hamingja og gleði í gegnum tíðina hefur ekki stuðst við stöðuna á bankareikningnum, þó hún geti skapað öryggistilfinningu sem er annars eðlis.

Á undanförnum árum hafa því sumir hagfræðingar talað fyrir því að það sé betra að mæla vellíðan en vöxt. Lönd geta t.d búið við hagvöxt en á sama tíma getur ójöfnuður aukist og fátækt. Það er til dæmis ekkert gefið að þó hagvöxtur sé mikill að allir meðal þjóðar njóti hans. Ef litið er til Bandaríkjanna er það raunin svo dæmi séu tekin. En hvernig aukum við lífsgæði samfélags án þess að horfa til vaxtar?

Í fyrsta lagi má nefna það að vöxtur er margs konar. Þannig getur manneskja eða þjóð vaxið á annan hátt en efnahagslegan. Tilfinningalegur vöxtur er eitt, heilbrigði er annað og efling undirstöðu gilda eins og náungakærleika, nægjusemi og sáttar án þess að gera kröfu um eitthvað meira efnahagslega eins og nýjan sófa eða næsta hús. Þetta er þó ekki mælt sem velgengni sérstaklega. Að knýja þjóð áfram á vexti leiðir líka til undirliggjandi viðhorfa um það að tilgangur lífsins geti verið að fara á næsta stig upp skalann, án þess að það gefi þó eitthvað sérstakt gildi nema að þjóna samkeppniseðli okkar.

Í öðru lagi hafa hagfræðingar t.d. Michael Spence, nóbelverðlaunahafi og fyrrum prófessor við Stanford, bent á að það sé heilbrigðara efnahagslega að samþykkja lága hagvaxtarprósentu en forgangsraða því að tækla ójöfnuð og aðgang fólks að þjónustu innan samfélagsins. Hraður vöxtur getur nefnilega borið háan kostnað að lokum. Til dæmis eins og krafan á fyrirtæki að þéna vel og skila góðum hagnaði, þá er oft kvartað undan reglubyrði og hún sé kostnaðarsöm og því farið að létta undir regluverki t.d. með þeim afleiðingum að ekki er hugað nægilega vel af áhrifum á umhverfið eða nærsamfélagið – sem kann að vera kostnaðarsamt til lengri tíma.

- Auglýsing -

Þetta samspil má sjá glöggt þegar rætt er um aðgerðir vegna loftslagsbreytinga sem verða mögulega kostnaðarsamar til skamms tíma en í raun og veru fjárfesting til lengri tíma eða t.d. á Íslandi þegar byggja á virkjanir, til að skapa störf sem er nauðsynlegt fyrir hagvöxt og á meðan er umhverfisþáttunum, nú af því að það eru framtíðarpælingar til langstíma, forgangsraðað lægra. Þetta var t.d. gert með Kárahnjúkavirkjun sem hefur nú haft ýmsar afleiðingar á lífríki t.d Lagarfljóts þar sem 80% af silungi er nú horfinn.

Það er vel mögulegt að þjóð geti dafnað vel þótt vöxtur sé lágur. Það er meira segja nokkuð góð pæling. Þannig getur hið opinbera snúið sér að stefnumótun sem miðar gagngert að því að efla vellíðan fólks – að fólk vinni minna, neyti minna og fara betur með sig heilsufarslega án þess að einblína um of á hagvaxtarstigið. Slík þjóð hlítur að vera betri staður fyrir alla. Og til lengri tíma kann það að vera mun farsælla módel – og tikka í fleiri box en efnahagsleg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -