„Ég hrópaði og bað, – bað Guð almáttugan að miskunna sig yfir fólkið mitt en láta þjáningarnar bitna á mér,“ skrifar Jóhann. „Ég bað þess að ef það ætti nú að deyja að gefa því rólegt andlát, en yfirfæra heldur dauðastríð þess á mig. Ég hrópaði bænina og róaðist.“

Erla rifjar upp þjáningar föður síns.

„Það var þessi hræðilega upplifun hans að heyra í börnunum sínum og geta ekki komið þeim til hjálpar. Það er náttúrlega ekki hægt að hugsa sér að maðurinn skyldi nokkurn tímann halda sönsum eftir þetta og mér finnst merkilegt að hann skyldi komast þetta áfram eins og hann gerði í nokkur ár á eftir og fékk aldrei nokkra einustu hjálp. Auðvitað hefðum við systkinin og ekki síst pabbi þurft að fá áfallahjálp. Við fengum enga hjálp, varla frá okkar nánustu því þau voru svo heltekin af sorg að við gleymdumst. Kannski var bara ekki litið á okkur börnin sem mannverur sem myndu skilja hlutina. Ég hef oft hugsað um þetta: Hvers vegna tók okkur enginn í fangið? Pabbi var mikið kalinn. Hann kól á báðum olnbogum og báðum fótum og það þurfti að taka af honum annan fótlegginn. En það var minningin um dauða dætra hans og eiginkonu sem fór verst með hann eins og kemur fram í samtali hans við Jónas, sem lét lífið í þessu flóði:

„Við töluðum um líkur fyrir björgun, bjuggumst við pósti norður yfir háls þann dag og fram eftir daginn eftir. Jónas sagði mér oft að Ásdís litla væri bæði þyrst og svöng og um kvöldið bað hann mig ákaft að reyna að koma til sín og taka hana, hún kalli grátandi á mömmu sína – „nú kallar hún á pabba sinn, heyrir þú ekki til hennar?“ spyr Jónas. … Ég braust um af alefli, rak axlir og olnboga út í klakahelluna sem kringum mig hafði myndast. Ekkert lát var á neinu, ég fann sárt til í hægri olnboganum og hætti þessum þýðingarlausu umbrotum. Jafnvel neyðaróp yngstu dóttur minnar og vonin um að ef ég gæti losað mig myndi ég máske getað bjargað dætrum mínum og konu, þeim þrem manneskjum sem mér hafði þótt vænst um í lífinu, gat ekki veitt mér þann styrk sem þurfti til þess að losa þær viðjar er hið miskunnarlausa snjóflóð hafði nú bundið mig í. Ég bað Jónas að hlúa að Ásdísi og hugga eftir því sem hann gæti.“

Erla var í Asparvík um jólin.

„Það fór nú ósköp vel um mig þarna. Húsmóðirin átti mörg börn og ég var bara eins og eitt þeirra þessi jól. Ég frétti mjög lítið af mínu fólki, bræður mínir, Bergþór, sem síðar varð grasafræðingur og lést árið 2006, og Haukur, verkfræðingur, voru á Reykjaskóla í Hrútafirði. Pabbi á Landspítalanum, enda mikið slasaður. Það einkennilega er að ég átti móðurbræður og móðursystur í firðinum, en enginn bauð mér dvöl hjá sér né heimsótti mig. Ég fékk ekki að hlusta á útvarp og mér var haldið í algjörri óvissu og einsemd. Dagarnir eftir slysið og næstu vikur á eftir eru sem í þoku. Mér fannst pabbi rólegri eftir slysið en áður. Hann var svolítið strangur við okkur, en ég veit að hann komst aldrei nokkurn tímann yfir þetta.“

Þessi atburður snerti við allri þjóðinni. Vísir sagði svo frá: „Alla íslendinga mun hafa sett hljóða, er hin átakanlega fregn barst um landið, að snjóflóð hefði grandað sex mannslífum, og heimili bóndans í Goðdal lagt í rúst af völdum viltra og miskunarlausra núttúruaifla, er snjóskriðan örlagaríka féll á bæinn.“ Blaðið skoraði á landsmenn að láta eitthvað að hendi rakna til fjölskyldunnar. 

Bærinn fór í eyði í eftir að snjóflóðið fell á hann úr Hólsfjalli. Þeirra sex sem fórust í snjóflóðinu  var minnst 1998, þegar minnisvarði var afhjúpaður neðan Bjarnarfjarðarháls.