Litlu mátti muna að flóðhestur dræpi Breta.
Flóðhestur réðst á hinn breska Roland Cherry þegar hann var í fimm vikna safaríferð með eiginkonu sinni um Afríku. Hjónin voru stödd í Sambíu í bátsferð þegar flóðhesturinn réðst á bátinn og náði í leiðinni taki á Cherry. Eiginkona hans náði að synda í land en Cherry fór úr axlarlið þegar dýrið réðst á þau og komst ekki í burtu frá því.
Samkvæmt hjónunum dró flóðhesturinn Cherry niður á botninn á ánni og sleppti svo takinu á honum. Cherry náði á endanum að komast á þurrt land og var mikið slasaður en náði að komast undir læknishendur. Hann sagði við fjölmiðla að teldi sig heppinn að vera á lífi og sagði að einn af skurðlæknum hans hafi aldrei heyrt um einhvern sem hafi sloppið lifandi frá flóðhesti en þeir eru nokkuð algengir á svæðinu.
Reiknað er með að Cherry nái fullum bata.