Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

„Ég vil bara vera Kobe Bryant“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Körfuknattleiksmaðurinn Kobe Bryant lést í hörmulegu þyrluslysi á sunnudaginn, ásamt Giönnu dóttur sinni, og sjö öðrum sem um borð voru í þyrlunni. Hann bjó yfir óbilandi sigurvilja sem fjölmargir titlar og met vitna um, en kom sér stundum í ógöngur utan vallar. Hann lærði mikið af Michael Jordan en vildi ekki vera borinn saman við goðsögnina.

„Maður svíkur sjálfan sig þegar maður segist ekki geta áorkað einhverju. Heilinn í mér höndlar ekki að mistakast; hann skilur það ekki. Það væri nærri því verra en dauðinn sjálfur, að þurfa að setjast niður og segja við sjálfan mig að ég væri misheppnaður – að mér hefði mistekist.“

Kobe, sem var 41 árs þegar hann fórst, er einn allra besti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar. Hann var á vellinum þekktur fyrir óbilandi sigurvilja, trú á sjálfum sér og sjálfsaga, eins og tilvitnunin í hann hér að ofan ber með sér.

Kobe Bryant fæddist 23. ágúst 1978 í Pennsylvaníu í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Hann lék í 20 ár með Los Angeles Lakers. Hann varð NBA-meistari þrjú ár í röð á árunum 2000 til 2002, þar sem þeir Shaquille O‘Neal mynduðu eitthvert þekktasta tvíeyki körfuboltasögunnar. Hann var stigahæstur í NBA-deildinni 2005-2006 og 2006-2007. Hann skoraði mest 81 stig í einum leik en aðeins gamla hetjan Wilt Chamberlain skoraði meira í einum og sama leiknum.

Kobe leiddi Lakers í úrslit NBA-deildarinnar 2008 en það ár vann hann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Peking. Hann varð aftur ólympíumeistari 2012. Kobe var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar árin 2008-2010 og var besti leikmaður Lakers sem vann NBA-deildina 2009 og 2010. Aðeins tveir hafa skorað fleiri stig í NBA-deildarkeppninni frá upphafi. Á 20 ára ferli í NBA var hann í 18 skipti valinn til að spila í stjörnuleik NBA en í fjögur skipti var hann besti maður stjörnuleiksins. Í lokaleik sínum í deildinni, sem fram fór 13. apríl 2016, þegar Kobe var 37 ára, varð hann elsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar til að skora 60 stig í einum og sama leiknum.

Mynd / epa

Borinn saman við Jordan

- Auglýsing -

Kobe hefur í gegnum tíðina iðulega verið líkt við Michael Jordan sem talinn er besti körfuknattleiksmaður allra tíma. Kobe sagði að Jordan hefði allar götur reynst sér afar vel og verið fús til að veita sér heilræði og tilsögn. „Ég held að fólk átti sig ekki á þeim áhrifum sem Jordan hefur haft á mig sem leikmann og leiðtoga,“ sagði hann eitt sinn. Kobe lét hins vegar líka hafa eftir sér að hann vildi ekki bera sig saman við goðsögnina. „Ég vil ekki verða næsti Michael Jordan. Ég vil bara vera Kobe Bryant.“

Jordan er einmitt á meðal þeirra sem minnst hefur Kobe Bryant. „Ég elskaði Kobe – hann var mér sem bróðir. Við töluðum reglulega saman og ég mun sakna þeirra samtala mjög,“ sagði hann meðal annars.

Breyskleikar sigurvegarans

- Auglýsing -

Þótt Kobe sé fyrst og fremst þekktur fyrir afrek sín á körfuboltavellinum skiptust á skin og skúrir í lífi hans.  Árið 2003 var hann handtekinn og í kjölfarið ákærður fyrir að hafa nauðgað 19 ára hótelþernu. Kobe viðurkenndi að hafa átt kynferðislegt samneyti með konunni, og haldið fram hjá eiginkonu sinni, en hafnaði öllum ásökunum um kynferðisbrot. Málið var látið niður falla eftir að konan neitaði að bera vitni fyrir dómi. Hann var sóttur til saka af hinu opinbera en um málið var samið án aðkomu dómstóla. Kobe bað konuna síðar afsökunar og sagði að þó að hann hefði sjálfur litið svo á að samþykki væri fyrir hendi gæti hann skilið að henni hafi ekki liðið eins. Þetta fylgdi honum þó allar götur. Það var meðal annars rifjað upp þegar Kobe vann til Óskarsverðlauna fyrir stuttmynd í flokki teiknimynda árið 2018, á hápunkti #Metoo-byltingarinnar.

Kobe var sannur sigurvegari en eins og knattspyrnuþjálfarinn José Mourinho sagði þegar hann frétti af andláti Kobe, eru menn með slík persónueinkenni ekki allra. Kobe sem þótti stundum heldur eigingjarn á boltann, lenti reglulega saman við samstarfsfólk. Þeir Shaquille O‘Neal elduðu stundum grátt silfur auk þess sem hann komst upp á kant við stjórn Lakers og jafnvel goðsögnina Phil Jackson, einhvern farsælasta þjálfara í sögu NBA. Þá bárust stöku sinnum fréttir af því að hjónaband Kobe við Vanessu héngi á bláþræði.

Kobe spilaði 13 tímabil eftir nauðgunarákæruna og varð á þeim tíma í tvígang NBA-meistari. Hjónaband hans og Vanessu hélt í gegnum súrt og sætt, en þau áttu saman fjórar dætur. Natalia er elst en hún fæddist 2003. Gianna sem nú er látin, var fædd 2006 og var sérstaklega efnilegur leikmaður. Þau voru einmitt á leið á æfingu þegar slysið varð. Bianka fæddist 2016 og sú yngsta, Capri, verður ársgömul í júní.

„Eins og að fá högg í magann“

„Maður varð bara lamaður einhvern veginn,“ segir margfaldur Íslandsmeistari og þjálfari í körfuknattleik, Finnur Freyr Stefánsson, í samtali við Mannlíf um það þegar honum bárust fréttir af fráfalli Kobe Bryant. Það kom Finni á óvart að finna til sterkra sorgarviðbragða. „Maður trúir því eiginlega ekki að einhver maður úti í heimi, sem maður hefur hvorki hitt né séð, geti haft svona áhrif á mann. En Kobe er eini maðurinn sem ég get sagt að hafi verið átrúnaðargoðið mitt. Hann skipti mig sennilega meira máli en mig grunaði.“

Finnur hefur fylgst náið með NBA síðan körfuboltamyndaæði rann á börn og unglinga á tíunda áratug síðustu aldar. Þá var Jordan aðalstjarnan og hafði verið um tíma. Finnur segir að Kobe sé fyrsta stórstjarnan sem hann hafi fylgst með allan ferilinn. „Ég var 13 ára þegar hann kom inn í deildina en er núna 36 ára. Hann hefur verið hluti af mínu lífi í 23 ár af 36.“

Finnur segir að Kobe sé fyrir körfuboltann eins og Ronaldo eða Messi fyrir fótboltann; ímynd þess að ná langt í krafti vinnusemi og ástríðu fyrir íþróttinni. Finnur bendir á að þótt Kobe hafi verið hættur að spila hafi hann í auknum mæli sýnt vilja til að láta gott af sér leiða í þágu annarra. Hann var mikill talsmaður kvennaíþrótta; jafnt körfuknattleiks sem knattspyrnu. „Hann sýndi mikinn vilja til að hafa áfram áhrif á íþróttamenn um heim allan,“ segir Finnur. Þess má geta að Kobe sagði fáum dögum fyrir andlát sitt að hann vonaðist til að konum yrði einn daginn gert mögulegt að spila í NBA-deildinni. Þær væru sumar hverjar nógu góðar til þess. „Hann var bara rétt að byrja,“ segir Finnur um áhrifin sem hann hefði getað haldið áfram að hafa á íþróttamenn um heim allan.

Um breyskleika Kobe, til dæmis samskiptaörðugleika við samherja og þjálfara, vitnar Finnur til orða José Mourinho um að þeir einu sem skilji hugarfar sigurvegara og þrá þeirra til að ná árangri séu þeir sem séu eins þenkjandi sjálfir. Þessir menn geti oft verið erfiðir í samskiptum. „Það getur verið erfitt að vera í kringum þannig fólk alla daga. Shaq var til dæmis glaumgosi og ekki alltaf með hugann allan við íþróttina,“ útskýrir Finnur. „Það er ekkert óeðlilegt að þeim tveimur hafi lent saman.“

Finni finnst undarleg tilhugsun að Kobe sé farinn. „Þetta er skrýtið. Maður hefur upplifað sorg áður, til dæmis í eigin fjölskyldu, og maður tekst við hana á ákveðinn hátt. En maður finnur á Twitter hvað margir eru sorgmæddir – og margir sem upplifa sömu tilfinningar. Það er gott að geta séð að fleiri finna það sama og maður sjálfur. Kobe var sá leikmaður sem gerði það að verkum að ég fór úr því að verða áhugamaður yfir í að verða ástfanginn af íþróttinni. Það að fá þessar fréttir var eins og að fá högg í magann.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -