Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Engar Uber-leigubifreiðar í Lundúnum?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ökumenn leigubifreiðaþjónustunnar Uber í Lundúnum eru um 45 þúsund talsins en þeir kunna að þurfa að finna sér annað að gera eftir að samgönguyfirvöld ákváðu að endurnýja ekki tímabundið starfsleyfi fyrirtæksisins í borginni.

Leigubifreiðaþjónustan Uber hefur verið svipt starfsleyfi í Lundúnum. Samgönguyfirvöld segja fyrirtækið ekki hæft til að reka leigubifreiðaþjónustu í borginni, þrátt fyrir að það hafi gripið til ýmissa jákvæðra ráðstafana til að mæta gagnrýni. Uber missti starfsleyfi sitt í borginni upphaflega árið 2017 en voru veittar tvær framlengingar. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa ákveðið að áfrýja niðurstöðunni og verður Uber heimilt að starfa áfram þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir. Ökumenn Uber í Lundúnum telja 45 þúsund en heildarfjöldi leigubifreiða í höfuðborginni er talinn vera um 126 þúsund.

„Samkvæmt fyrirtækinu koma 24% tekna þess frá fimm stórborgum; Lundúnum, Los Angeles, New York, San Francisco og Sao Paulo.“

Samgönguyfirvöld segja að fyrirtækið hafi ítrekað stofnað farþegum í hættu, m.a. með kerfisbreytingu sem gerði leyfislausum bílstjórum kleift að hlaða myndum sínum upp á notandaaðgang annarra bílstjóra. Breytingin varð til þess að 14 þúsund óheimilar ferðir voru farnar 2018 til 2019. Þá leiddi rannsókn í ljós að bílstjórar sem Uber hafði bannað að keyra gátu þrátt fyrir það búið til notandaaðgang og ekið með farþega. Í einu tilviki tókst bílstjóra að halda áfram að keyra fyrir Uber þrátt fyrir að leyfi hans hefði verið fellt úr gildi í kjölfar þess að hann fékk viðvörun fyrir að deila „ósæmilegum“ myndum af börnum.

Uber ekki eitt um að sæta gagnrýni
BBC hefur eftir Helen Chapman, sem er yfir leyfismálum hjá samgönguyfirvöldum, að þrátt fyrir úrbætur væri óásættanlegt að Uber hefði orðið til þess að farþegar ferðuðust með bílstjórum sem væru mögulega leyfislausir og ótryggðir. „Ég veit að þessi ákvörðun kann að verða óvinsæl meðal notenda Uber en öryggi þeirra er í fyrirrúmi. Reglugerðum er ætlað að tryggja öryggi Lundúnarbúa,“ sagði borgarstjórinn Sadiq Khan (sem er á myndinni hér að ofan).

Forsvarsmenn Uber hafa fordæmt ákvörðunina og segja hana ósanngjarna. Það verður undir dómstólum komið hvort hún er endanleg. Samkvæmt fyrirtækinu koma 24% tekna þess frá fimm stórborgum; Lundúnum, Los Angeles, New York, San Francisco og Sao Paulo. Félag þeirra leigubifreiðastjóra sem aka svokölluðum „black cabs“ hefur hins vegar fagnað ákvörðuninni en þau hafa sakað Uber um að keyra niður gæði og staðla leigubifreiðaþjónustunnar. Sótt hefur verið að fyrirtækinu víðar, m.a. í Danmörku, Búlgaríu og Ungverjalandi, þar sem Uber hefur hætt starfsemi.

Fleiri leigubifreiðaþjónustufyrirtæki á borð við Uber hafa sætt gagnrýni síðustu misseri, t.d. Lyft, en á annan tug kvenna í San Francisco hefur kært fyrirtækið vegna meintra kynferðisbrota eða nauðgana af hendi bílstjóra. Segja þær að fyrirtækið hafi gert þekktum kynferðisbrotamönnum kleift að gerast bílstjórar og að það hafi hylmt yfir kvartanir um kynferðisofbeldi á fjölda starfsstöðva.

Umdeildar breytingar í farvatninu á Íslandi

- Auglýsing -

Á Íslandi er í smíðum nýtt frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur en starfshópur á vegum samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að breytingar á íslensku regluverki um leigubifreiðar væru óhjákvæmilegar, í kjölfar athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Tillögur starfshópsins fólu m.a. í sér afnám fjöldatakmarkana og afnám skyldunnar til að vera tengdur við leigubifreiðastöð til að selja þjónustu.

Meðal þeirra sem skiluðu inn umsögn um frumvarpsdrögin voru Bandalag íslenskra leigubílstjóra og Bifreiðastjórafélagið Frami (sameiginleg umsögn) og Hreyfill. Í báðum umsögnum var lögð áhersla á mikilvægi þess að horft yrði til sakaferils umsækjenda þegar kæmi að veitingu atvinnuleyfis og að gerðar yrðu kröfur um lágmarks íslenskukunnáttu.

„Að mati stjórnar Hreyfils er nauðsynlegt að leggja ríkar kröfur á herðar þeirra sem óska eftir að fá úthlutuðum atvinnu- eða rekstarleyfum svo tryggt sé að notendum sé tryggð örugg og fagleg þjónusta,“ segir m.a. í umsögn Hreyfils. „Mjög mikilvægt er að eftirlitsaðilar hafi uppi virkt eftirlit og gerist leigubifreiðastjórar brotlegir við lög um leigubifreiðar komi til sviptingar á atvinnuréttindum.“

- Auglýsing -

Í umsögn sinni lagðist Bandalag íslenskra leigubílstjóra alfarið gegn afnámi stöðvarskyldunnar. „Með tilkomu leigubifreiðastöðva er skattaundanskotum haldið í skefjum og allt eftirlit reynist stjórnvöldum aðgengilegra en ella,“ segir í umsögninni. Í umsögn Hreyfils var stöðvarskyldan m.a. sögð veita notendum þjónustunnar mikið öryggi, þar sem þeir gætu hvenær sem er haft samband við stöðina til að fá úrlausn sinna mála og þar væri sömuleiðis haldin gagnagrunnur um alla bíla stöðvarinnar og allar ferðir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -