„Gróft kynlíf sem fór illa“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mál manns sem var dæmdur fyrir að hafa myrt unga breska ferðakonu í Nýja-Sjálandi hefur vakið upp umræðu um „gróft kynlíf“ sem málsvörn. Gagnrýnendur segja afsökunina nýjustu útgáfu þess að kenna konum um þegar þær eru beittar ofbeldi en þeim málum fer fjölgandi þar sem henni er beitt í dómsal.

 

Breskir lögmenn og kvenréttindasamtök hafa kallað eftir lagabreytingu til að koma í veg fyrir að einstaklingar sem hafa verið ásakaðir um morð geti notað það sem vörn að dauða fórnarlambsins hafi borið að þegar gróft kynlíf fór illa. Sérfræðingar segja fjölda slíkra málsvarna hafa tífaldast síðustu áratugi en samkvæmt samtökunum We Can’t Consent to This létust 30 konur og stúlkur á síðustu 10 árum við það sem gerandinn vildi meina að hefði verið gróft kynlíf með samþykki beggja. Í 17 málum var sakborningurinn dæmdur fyrir morð, í níu málum var niðurstaðan manndráp af gáleysi en sýknað var í tveimur málum.

Árið 1996 komu upp tvö mál þar sem dauði og áverkar kvenna voru sagðir afleiðing grófs kynlífs en árið 2016 hafði fjöldinn náð 20. Vandamálið er ekki bundið við Bretland en komst aftur í hámæli eftir að bresk stúlka var myrt á Nýja-Sjálandi í fyrra en lögmaður morðingjans vildi meina að um slys hefði verið að ræða, við ástundun „hefðbundinnar“ kynlífsiðkunar. Sakborningurinn í málinu var fundinn sekur í síðustu viku.

Kyrking dánarorsök í þriðjungi heimilisofbeldismála

We Can’t Consent to This-samtökin voru sett á fót eftir að John Broadhurst var dæmdur fyrir manndráp af gáleysi eftir að hann varð Natalie Connolly að bana árið 2016. Broadhurst hlaut aðeins þriggja ára og átta mánaða fangelsisdóm þrátt fyrir að 40 áverkar hefðu fundist á líkamsleifum Connolly, þeirra á meðal alvarlegar innvortis blæðingar og brotin augntóft. Þá var hún með leifar af klór í andlitinu. „Samþykki“ sem kemur oft við sögu í nauðgunarmálum, er hvorki afsökun fyrir meiðslum né dauða í breskum lögum. Aðgerðasinnar segja „gróft kynlíf sem fór illa“ sem vörn í sakamálum þó geta orðið til þess að menn séu frekar dæmdir fyrir manndráp af gáleysi en morð og að þeir fá vægari dóma.

„Konur deyja ekki úr grófu kynlífi. Þær deyja af því að menn beita þær ofbeldi“

Susan Edwards, prófessor við lagadeild University of Buckingham, bendir á að kyrking sé dánarorsök í þriðjungi tilvika þar sem einstaklingur verður maka sínum að bana. Hún sagði í samtali við Guardian að það færðist í aukana að menn bæru fyrir sig grófu kynlífi sem vörn þar sem BDSM þætti nú ásættanlegur þáttur í kynlífsiðkun fólks. Fyrir þrjátíu árum hefðu ofbeldismennirnir heldur borið fyrir sig að þeim hefði verið ögrað eða að þeir hefðu misst stjórn á sér.

Óhugnanleg þróun

„Konur deyja ekki úr grófu kynlífi. Þær deyja af því að menn beita þær ofbeldi,“ segir Karen Ingala-Smith, framkvæmdastjóri góðgerðasamtakanna Nia, sem berjast gegn heimilisofbeldi. Hún sagði klám hluta vandans, þar sem ungir menn hefðu ranghugmyndir um kynlíf og konur upplifðu þrýsting um að sætta sig við ofbeldi sem þátt í kynlífinu.

Fiona MacKenzie, stofnandi We Can’t Consent to This, sagði í samtali við Sky News að þróunin væri óhugnanleg; að í málum þar sem konur væru beittar ofbeldi neyddust þær til að mæta fyrir dóm og verjast ásökunum um að hafa verið viljugir þátttakendur í ofbeldinu. „Það er ekkert sem bendir til þess að þessar konur hafi gefið samþykki sitt. Þessir menn beita hræðilegu, sadísku ofbeldi og nota þessa vörn til að koma sér undan þyngri dómum.“

 

Myrti hana „óvart“ en gróf í ferðatösku

Grace Millane, 21 árs, var í heimsreisu þegar hún kom til Nýja-Sjálands í nóvember í fyrra. Hún hafði kynnst manni á Tinder og átti stefnumót við hann í Auckland þann 1. desember. Líkamsleifar hennar fundust átta dögum síðar, í ferðatösku sem hafði verið grafin fyrir utan borgina. Jesse Kempson, 27 ára, var í síðustu viku fundinn sekur um að hafa myrt Millane en við réttarhöldin sögðu verjendur hans að hann hefði „óvart“ þrengt að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún lést.

Grace Millane.

Sérfræðingur sagði við réttarhöldin að það hefði tekið Millane fimm til tíu mínútur að deyja og að hún hefði misst meðvitund áður.

Vitni sem kynntist Millane í gegnum BDSM-stefnumótasíðu, sagði hana hafa verið „saklausa“ en fyrrverandi kærasti sagði Millane þvert á móti hafa haft reynslu af BDSM og þekkt vel til öryggisráðstafana. Hann staðfesti að hún hefði leyft honum að þrengja að hálsi hennar þegar þau stunduðu kynlíf en sagði þau hafa notað öryggisorð og snertingar til að gefa til kynna að þau vildu stoppa.

„Þú getur ekki gefið samþykki fyrir eigin morði,“ sagði saksóknarinn í málinu en verjendur Kempson sögðu að um slys hefði verið að ræða, sem mætti m.a. rekja til áfengisneyslu og reynsluleysis.

Við réttarhöldin var Kempson sagður hafa farið á annað Tinder-stefnumót sama dag og hann losaði sig við líkamsleifar Millane, og aðrar konur höfðu hætt samskiptum við hann vegna framkomu hans. Þá var hann sagður eiga sögu um að segja ósatt og hafði m.a. logið því til að hann hefði greinst með krabbamein, að hann væri atvinnuíþróttamaður og að hann væri yfirmaður á olíuborpalli.

Lesið meira um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Hver er Ghislaine Maxwell? – Hægri hönd Jef­frey Ep­steins

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók Ghislaine Maxwell, samstarfskonu og fyrrverandi kærustu auðkýfingsins Jeffrey Epsteins á fimmtudaginn. Hún er...