Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Mimi malar gull um jólin

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það eru fáir sem geta státað að því að standa jafnfætis Nat King Cole og Bing Crosby þegar kemur að undirleik jólahátíðarinnar og enginn kemst nærri því en Mariah Carey. Það finnst varla sá Trölli sem sönglar ekki með All I Want For Christmas Is You í jólainnkaupum og það má með sanni segja að lagið sé komið í jólalagakanónuna.

 

All I Want For Christmas Is You, samið og flutt af poppdívunni Mariah Carey, komst á dögunum í efsta sæti Billboard Hot 100-listans yfir mest seldu, spiluðu og streymdu lögin vestanhafs. Þetta þykir nokkurt afrek í ljósi þess að lagið kom fyrst út fyrir 25 árum en kannski ekki skrýtið þar sem það er eitt vinsælasta jólalag seinni tíma. Árið 2017 var áætlað að lagið hefði skilað Carey og meðhöfundi hennar samtals 60 milljónum Bandaríkjadala í höfundarréttartekjur en því til viðbótar hefur söngkonan verið dugleg að gera út á vinsældir All I Want For Christmas Is You með jólatónleikum, barnabók, teiknimynd og auglýsingasamningum, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er einfaldur og hreinn og beinn poppgimsteinn sem vill svo til að fjallar um jólin.“

Carey, sem kallar sig Mimi, og Walter Afanasieff hafa orðið margsaga um það hvernig lagið varð til en samkvæmt einni útgáfunni var það soðið saman á aðeins 15 mínútum sumarið 1994. Í annarri útgáfu sagðist Carey hafa samið lagið ein við hljómborðið, með It’s a Wonderful Life í bakgrunninum, og síðan hafa fullkomnað það með Afanasieff í hljóðverinu. Afanasieff man þetta hins vegar öðruvísi og bendir máli sínu til stuðnings á að höfundarrétti lagsins sé skipt 50/50. „Ég sat við píanóið með Mariah í herberginu og byrjaði að pikka – eins og ég gerði alltaf, í hverju einasta lagi sem við höfum samið saman – ákveðinn hljóm,“ sagði Afanasieff. Hann hefði klárað lagið en Carey samið textann.

Nýtt lag varð að gamalli klassík
Það sem er óumdeildt er að Carey var í fyrstu síður en svo hrifin af þeirri hugmynd að taka upp jólaplötu. Árið 1994 var hún orðin heimsfræg; hafði afrekað það að koma fyrstu fjórum lögunum sínum á Billboard Hot 100 listann og slegið í gegn með lagið Hero af plötunni Music Box, sem varð ein sú mest selda í heimi. Á þessum tíma tíðkaðist ekki að stórstjörnur á hátindi frægðar sinnar gæfu út jólaplötur en söngkonan var þá gift Tommy Mottola, sem var yfir Sony Music Entertainment, og tókst að selja henni hugmyndina.

Carey og Afanasieff hófu að semja tónlist og til að koma sér í rétta stemningu hóf jólabarnið Carey að skreyta heimilið sem hún deildi með Mottola í uppsveitum New York. „Ég er mjög hrifin af hátíðisdögum og elska jólin. Ég hef sungið jólaög frá því ég var lítil stelpa. Ég fór um og söng jólasöngva. Þegar kom að plötunni þurftum við að finna rétt jafnvægi milli hefðbundinna jólasálma og skemmtilegra laga. Það var forgangsatriði hjá mér að semja að minnsta kosti nokkur ný lög en það skiptir ekki máli hversu gott nýtt lag er; fólk vill heyra gömlu lögin um jólin,“ sagði Carey um plötuna Merry Christmas, sem kom út jólin 1994.

Á plötunni var m.a. að finna, auk All I Want For Christmas Is You, útgáfur Carey af Silent Night, O Holy Night og Christmas (Baby Please Come Home) en ekkert þeirra náði viðlíka vinsældum og fyrstnefnda lagið. Margir hafa reynt að kryfja það hvers vegna All I Want For Christmas Is You vann hug og hjörtu heimsbyggðarinnar, alveg niður í einstaka nótur. Flestir hafa þó verið sammála um að það megi m.a. þakka hressum taktinum, blæ af gamalli klassík og tímalausum skilaboðum. Lagið hefur verið sagt fanga hinn sanna anda jólanna í ódauðlegum smelli. „Þetta er ekki lag sem fúnar með árunum, með einhver gamaldags skilaboð,“ segir Dave Bakula hjá Nielsen Music. „Þetta er einfaldur og hreinn og beinn poppgimsteinn sem vill svo til að fjallar um jólin.“

- Auglýsing -

Gjöfin sem gefur … og gefur

Þrátt fyrir stöðugar vinsældir All I Want For Christmas Is You gekk lagið óumdeilanlega í endurnýjun lífdaga í kjölfar útgáfu kvikmyndarinnar Love, Actually en í myndinni, sem sjálf hefur hlotið fastan sess í hugum og hjörtum margra jólabarna, er lagið sungið af ungstirninu Olivia Olson í eftirminnilegu atriði.

Carey hefur síðustu ár verið sérstaklega dugleg við að „eigna sér“ jólin og hefur haldið fjölda tónleika og viðburða í kringum hátíðirnar. Í ár fagnaði hún 25 ára afmæli Merry Christmas með sérstakri tónleikaferð og endurútgáfu plötunnar. Þá hefur Amazon gefið út stutta heimildarmynd um lagið, undir titlinum Mariah Carey is Christmas: The Story of All I Want For Christmas Is You.

- Auglýsing -

Margir muna eflaust eftir Will Freeman í kvikmyndinni About a Boy en hann var leikinn var af Hugh Grant, sem einnig fór með hlutverk í Love, Actually. Freeman lifir fábreytnu en auðveldu lífi, þar sem hann hefur lifibrauð sitt af höfundarréttartekjum föður síns sem sló í gegn með jólasmellinn Santa’s Super Sleigh. Umræddur skáldskapur á sér stoð í raunveruleikanum en staðreyndin er sú að Carey gæti auðveldlega lifað á tekjunum af All I Want For Christmas Is You einum saman.

The Economist áætlaði árið 2017 að höfundarréttartekjur af laginu hefðu náð 60 milljónum dala en það er í raun aðeins hluti þeirra tekna sem söngkonan hefur haft af laginu. Óbeinar tekjur eru mun meiri og má þar nefna nýjasta auglýsingasamning Carey, sem er sögð hafa fengið 11 milljónir dala fyrir að auglýsa Walkers-snakk í jólaauglýsingum fyrir PepsiCo.

  • All I Want … í tölum
    *Lagið er mest streymda jólalagið á Spotify; hefur verið spilað 602 milljón sinnum. Horft hefur verið á myndbandið 605 milljón sinnum, frá því það var sett inn á YouTube árið 2009.
    *Höfundarréttartekjurnar af streyminu á Spotify námu 2 milljónum dala síðust ár og eru taldar munu nema 600 þúsund dölum árið 2019.
    *All I Want For Christmas Is You er fyrsta jólalagið til að komast í fyrsta sæti Billboard Hot 100 í 60 ár. Hitt lagið sem vermt hefur efsta sætið er The Chipmunk Song.
    *All I Want … er 19. lag Carey sem kemst á topp Billboard Hot 100 en aðeins Bítlarnir hafa átt fleiri lög á toppnum; 20.
    *Laginu var streymt 12,6 milljón sinnum árið 2014 en 185 milljón sinnum í fyrra. Þá var það spilað 24 þúsund sinnum í útvarpi árið 2014 en 42 þúsund sinnum í fyrra.
    *Merry Christmas var þriðja söluhæsta jólaplatan í Bandaríkjunum frá 1991 til 2015, samkvæmt Nielsen SoundScan. Fjórða mest selda platan var These Are Special Times með Celine Dion en sú mest selda var Miracles: The Holiday Album með Kenny G.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -