Laugardagur 7. september, 2024
8.7 C
Reykjavik

Seldi fornan papýrus til föndurfjölskyldu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heimsþekktur handritasérfræðingur hefur verið sakaður um að stela fornum biblíutextum og selja til bandarískrar föndurverslanakeðju.

 

Oxford-háskóli rannsakar nú ásakanir á hendur einum starfsmanna sinna sem er sagður hafa stolið og selt ómetanlega biblíutexta til bandarískrar föndurverslanakeðju. Málið er allt hið undarlegasta en umræddur starfsmaður er Dirk Obbink, heimsþekktur handritasérfræðingur og handhafi MacArthur-„snillingastyrksins“.

Textarnir sem um ræðir eru rifur úr Biblíunni sem fundust við uppgröft í Oxyrhynchus í Egyptalandi árið 1896. Þær hafa verið varðveittar í Sackler-bókasafni Oxford-háskóla en eru í eigu Egypt Exploration Society. Mikið magn papýrusa af ýmsum toga fannst við uppgröftinn og hafa sérfræðingar unnið að því í áratugi að púsla rifunum saman og gefa út. Obbink er meðal þeirra sem leitt hafa verkefnið.

Upphaf málsins má rekja til 2012 þegar Dan Wallace, sérfræðingur í Nýja-Testamentinu, sagðist hafa séð rifu úr Markúsarguðspjalli sem handritasérfræðingur hefði sagt vera skrifað á fyrstu öldinni. Í kjölfarið stigu fleiri fram og sögðust hafa séð téð handrit en allir áttu það sameiginlegt að geta ekki tjáð sig frekar um málið þar sem þeir hefðu undirritað þagnareið. Mörgum þóttu fréttirnar ótrúlegar, enda hefði verið um að ræða elsta Nýja-Testamentistexta sem fundist hefði.

Ekki hefur verið upplýst hvað Green-fjölskyldan greiddi fyrir papýrusin

Allir voru hins vegar sammála um að líklega kæmi Green-fjölskyldan, eigandi Hobby Lobby, við sögu en hún var eini aðilinn í „handritaheiminum“ sem var þekkt fyrir að láta sérfræðinga undirrita þagnareið. Green-fjölskyldan sem er afar trúuð hafði um nokkurt skeið safnað mikilvægum biblíutextum og stóð m.a. fyrir stofnun Biblíusafnsins í Washington D.C.

Í fyrra var afar gömul rifa úr Markúsarguðspjalli birt í nýjustu útgáfu Oxyrhynchus-verkefnsisins. Þar var hún sögð frá annarri eða þriðju öld en Wallace staðfesti að um væri að ræða sömu rifu og hann hafði sagst hafa séð árið 2012. Þá vöknuðu upp ýmsar spurningar. Af hverju hafði aldursgreiningin breyst og hvar var rifuna að finna?

- Auglýsing -

Umfang stuldarins á huldu

Fyrstu vísbendinguna var að finna á YouTube en á myndbandsupptöku mátti heyra Scott Carroll, fyrrverandi forsvarsmann Green-safnsins, greina frá því að hann hefði fyrst séð Markúsarrifuna á billjarðsborði í skrifstofu Dirk Obbink í Oxford. Þá þótti ljóst að Obbink væri handritasérfræðingurinn sem Wallace hafði vísað til.

Á mánudag stigu forsvarsmenn Oxyrhynchus-verkefnisins fram og sögðu að rannsókn hefði leitt í ljós að Obbink hefði stolið að minnsta kosti 11 rifum og selt Green-fjölskyldunni. Obbink hefur ekki unnið fyrir verkefnið frá 2016 en starfar enn við Oxford-háskóla. Green-fjölskyldan hefur heitið því að skila rifunum sem voru fjarlægðar úr safninu ásamt öllum fylgigögnum. Til allrar lukku höfðu verið tekin afrit af gögnunum en þannig komst upp um stuldinn.

Málið hefur orðið til þess að varpa skugga á allt starf Obbink en menn velta því nú m.a. fyrir sér hvort hann hafi vísvitandi sagt ósatt um aldur Markúsarrifunnar til að auka verðmæti hennar fyrir sölu. Þá er unnið að því að athuga hvort fleiri texta sé saknað úr papýrussafninu en vitað er að Green-fjölskyldan hefur í sinni vörslu tvær rifur til viðbótar frá Oxyrhynchus sem voru fengnar annars staðar frá.

- Auglýsing -

Obbink hefur ekki viljað tjá sig um málið en Green-fjölskyldan sem keypti flestar handritarifurnar í tveimur sölum árið 2010 hefur borið því við að hafa ekki vitað að sérfræðingurinn hefði ekki heimild til að selja papýrusinn.

Neyddust til að skila smygluðum fornminjum

Árið 2017 var Hobby Lobby gert að skila þúsundum íraskra fornminja og greiða 3 milljónir dala í sekt, eftir að upp komst að ólöglegan innflutning munanna. Um var að ræða t.d. áletraðar leirtöflur og innsigli, sem komu m.a. frá fornu borginni Irisagrig og eru talin vera frá 2.100 til 1.600 fyrir Krist.

Munirnir voru fluttir inn til Bandaríkjanna frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Ísrael en pakkarnir voru merktir „keramik“ eða „prufur“ til að villa um fyrir tollayfirvöldum. Móttakendurnir voru Hobby Lobby-verslanir og tvær höfuðstöðvar fyrirtækisins.

Árið 2017 var Hobby Lobby gert að skila þúsundum íraskra fornminja og greiða 3 milljónir dala í sekt.

Verulegar takmarkanir hvíla á innflutningi menningarverðmæta frá Írak til Bandaríkjanna en forsvarsmenn Hobby Lobby, sem greiddu 1,6 milljón dala fyrir 5.500 muni, báru við fáfræði þegar málið kom upp.

Forstjóri fyrirtækisins, Steve Green, sagði að forsvarsmenn Hobby Lobby hefðu átt að hafa meiri yfirsýn yfir kaupin og ferlið allt en bandarísk yfirvöld gáfu sterklega í skyn að mönnum hefði átt að vera ljóst að innflutningurinn væri ólögmætur.

Í yfirlýsingu frá Hobby Lobby sagði að fyrirtækið hefði frá árinu 2009 stundað kaup á sögulegum biblíum og öðrum fornminjum og að uppbygging safns af trúarlega mikilvægum bókmenntum og minjum er vörðuðu Biblíuna, í takt við stefnu fyrirtækisins og ástríðu þess gagnvart Biblíunni.

Trúaða fyrirtækið Hobby Lobby

Green-fjölskyldan sækir auð sinn til Hobby Lobby, keðju um 800 föndurverslana í Bandaríkjunum sem stofnuð var af David Green árið 1972. Verslunarkeðjan var mikið í fréttum vestanhafs í tengslum við heilbrigðislöggjöf Baracks Obama, sem skyldaði atvinnurekendur til að greiða fyrir getnaðarvarnir starfsmanna sinna. Green-fjölskyldunni, sem er afar trúuð, hugnaðist ekki löggjöfin og fór í mál við bandaríska ríkið í gegnum Hobby Lobby.

Starfsmenn Hobby Lobby eru um 30 þúsund talsins.

Vísuðu lögmenn fyrirtækisins m.a. til stjórnarskrárvarins rétt fjölskyldunnar, og þar af leiðandi fyrirtæksins, til að fara eftir eigin trúarsannfæringu, sem m.a. væri sú að getnaðarvarnir á borð við „daginn eftir-pilluna“ jafngiltu fóstureyðingu.

Málið rataði til bandaríska hæstaréttarins, sem komst að þeirri niðurstöðu árið 2014 að einkafyrirtækjum í eigu fárra einstaklinga, t.d. fjölskyldna, væri heimilt að neita að greiða fyrir ákveðna þjónustu á grundvelli trúarlegra skoðana eigenda sinna.

Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni en gagnrýnendur sögðust m.a. óttast að niðurstaðan yrði til þess að menn færu að grafa undan öðrum úrræðum á trúarlegum forsendum, t.d. bólusetningum og óskum um að vera ekki endurlífgaður. Þá fannst mörgum hæpið að lög um trúfrelsi gætu náð til fyrirtækja og sögðu þá túlkun ógna mannréttindum einstakra starfsmanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -