Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Stakk af í kjölfar slyss

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upp er komin milliríkjadeila milli Bretlands og Bandaríkjanna eftir að eiginkona bandarísks diplómats varð valdur að dauða 19 ára Breta í ágúst sl. og flúði land í kjölfarið. Fjölskylda hans krefst réttlætis.

 

Bandaríkjamenn hafa neitað að aflétta diplómatískri friðhelgi Anne Sacoolas, sem er talin hafa orðið 19 ára Breta að bana í ágúst sl. Harry Dunn var á bifhjóli sínu þegar Sacoolas ók á hann í nágrenni Chroughton-herstöðvarinnar í Northampton-skíri. Dunn lést af sárum sínum en Sacoolas flúði land í kjölfarið, þvert á það sem hún sagðist myndu gera þegar hún var yfirheyrð af lögreglu. Ráðamenn í Bretlandi og Bandaríkjunum deila nú um málið en fjölskylda Dunn hefur sagst ekki munu una sér hvíldar fyrir en réttlætið muni sigra.

Harry Dunn.

Ljósmyndir sem náðust af minnispunktum Donald Trump Bandaríkjaforseta á miðvikudag sýna að honum var ráðlagt að svara því á blaðamannafundi að Sacoolas myndi ekki snúa aftur til Bretlands til að aðstoða við rannsókn málsins. Í punktunum var m.a. vísað til samtals utanríkisráðherra ríkjanna, þar sem sömu svör voru gefin. Þá stóð einnig á minnisblaðinu að Sacoolas myndi sjálf ákveða hvort hún vildi ræða við bresk yfirvöld. Trump studdist hins vegar ekki við ráðleggingar undirmanna sinna, heldur spann eigið svar.

„Þetta er mjög flókið mál, eins og þið vitið,“ sagði Trump á miðvikudag. „Ungur maður dó. Manneskjan sem ók bifreiðinni er með diplómatíska friðhelgi. Við ætlum að ræða við hana bráðlega og sjá hvort við getum gert eitthvað. Þetta var slys … Við ætlum að tala við hana og sjá hvað við getum gert til að ná sáttum.“ Forsetinn sagði einnig að það gerðist stundum að Bandaríkjamenn keyrðu á öfugum vegarhelmingi í Bretlandi en það er einmitt það sem lögregla telur hafa gerst.

Þegar málið kom fyrst upp lá ekki fyrir hvort Sacoolas nyti sannarlega diplómatískrar friðhelgi en eiginmaður hennar starfar sem samskiptafulltrúi fyrir bandaríska herinn. Innanríkisráðuneytið breska játaði hins vegar síðar að Sacoolas nyti friðhelgi og að þarlend stjórnvöld gætu lítið afhafst ef Bandaríkjamenn neituðu að aflétta henni. Beiðni þar að lútandi hefur verið borin fram af lögreglu, utanríkisráðherranum Dominic Raab og forsætisráðherranum Boris Johnson.

Sjónarspil af hálfu stjórnvalda

Johnson sagðist sjálfur myndu ræða við Donald Trump ef Bandaríkjamenn sæju ekki að sér. „Ég held að hugur allra sé hjá fjölskyldu Harry Dunn og við vottum þeim samúð vegna þessa hörmulega missis,“ sagði Johnson þegar hann var spurður um málið í vikunni. „Ég verð að svara ykkur hreint út; ég tel ekki rétt að nota diplómatíska friðhelgi í þessum tilgangi.“

- Auglýsing -

„Ég verð að svara ykkur hreint út; ég tel ekki rétt að nota diplómatíska friðhelgi í þessum tilgangi.“

Foreldrar Dunn áttu fund með Raab í gær en eftir fundinn sagði móðir hans, Charlotte Charles, að stjórnvöld í Bretlandi og vestan hafs hefðu brugðist fjölskyldunni. „Ég skil ekki af hverju okkur var boðið að hitta Dominic Raab. Við erum ekkert lengra komin en við vorum á sama tíma í síðustu viku. Hluta af mér finnst eins og þetta sé bara sjónarspil af hálfu breskra stjórnvalda til að sýnast vera að hjálpa okkur. En þrátt fyrir að hann sé að eiga við okkur samtal þá höfum við ekki fengið nein svör. Við erum örg yfir því að hafa varið hálftíma eða meira með honum en vera engu nær.“

Charles biðlaði til Sacoolas í gegnum fjölmiðla um að sýna mannúð og koma til baka. Hún sagði viðbrögð Donald Trump ógeðfelld. Tim Dunn sagði það valda gríðarlegum vonbrigðum að menn teldu allt í lagi að komast upp með það að verða ungum dreng að bana.

Sacoolas, sem er 42 ára og hafði dvalið í Bretlandi í þrjár vikur þegar slysið átti sér stað, á yfir höfði sér fangelsisdóm ef hún snýr aftur.

- Auglýsing -

Umdeild vernd

Diplómatískri friðhelgi er sárasjaldan aflétt en það gerðist m.a. árið 1997, þegar Gueorgui Makharadze, sendierindreki frá Georgíu, varð valdur að árekstri í Washington DC. Makharadze var ölvaður og 16 ára stúlka lést, auk þess sem fjórir slösuðust. Stjórnvöld í Georgíu héldu í fyrstu verndarhendi yfir sendierindrekanum, sem var sá næstháttsettasti í sendiráðinu, en létu að lokum undan þrýstingi og heimiluðu bandarískum yfirvöldum að sækja hann til saka. Makharadze var dæmdur í 7-21 árs fangelsi og afplánaði stærstan hluta dómsins í Georgíu.

Í fyrra neituðu bandarísk stjórnvöld hins vegar að aflétta friðhelgi ofurstans Joseph Hall, þegar hann var sakaður um að hafa orðið manni á mótorhjóli að bana í Pakistan eftir að hafa ekið á rauðu ljósi. Hall yfirgaf Pakistan og Bandaríkjamenn neituðu að senda hann til baka.

Stjórnvöld í Kólumbíu brugðust ólíkt við þegar Jairo Soto-Mendoza var sakaður um að hafa myrt mann sem rændi son hans í Lundúnum árið 2002. Soto-Mendoza bar fyrir sig diplómatískri friðhelgi en Kólumbía aflétti henni að beiðni breskra stjórnvalda. Soto-Mendoza var sýknaður.

Eitt þeirra mála er vörðuðu diplómatíska friðhelgi og vöktu hvað mesta athygli var þegar lögreglukonan Yvonne Fletcher var skotin til bana fyrir utan sendiráð Líbíu í Lundúnum árið 1984. Mótmæli stóðu yfir en skotið sem hæfði Fletcher kom úr glugga á fyrstu hæð sendiráðsins. Eftir 11 daga umsátur sáu bresk stjórnvöld til þess að fjöldi starfsmanna sendiráðsins var sendur úr landi. Vegna laganna um diplómatíska friðhelgi hafði lögregla hins vegar ekki heimild til að leita á starfsfólkinu eða í eigum þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -