Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Von í vísindunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hjartasjúkdómar eru langalgengasta dánarorsök meðal þjóða heims og á Vesturlöndum fylgir krabbamein fast á eftir. En sem betur fer berast reglulega fregnir af nýjungum í læknavísindunum sem vekja vonir um nýjar meðferðir við illvígum sjúkdómum, aukin lífsgæði og lengra líf til handa sjúklingum.

Ein meðferð við öllum krabbameinum?

Vísindamenn við Cardiff University hafa uppgötvað nýja tegund T-frumu sem hefur vakið vonir um eina meðferð við öllum krabbameinum. T-eitilfrumur eru nýjasta vonin í baráttunni gegn krabbameini en algengasta meðferðin, CAR-T, gengur út á að fjarlægja ónæmisfrumurnar úr líkamanum, gera breytingar á þeim sem eru sniðnar að hverjum sjúklingi fyrir sig, og koma þeim aftur fyrir til að finna og drepa krabbameinsfrumur. Hingað til hafa T-frumumeðferðirnar aðeins gagnast gegn fáum tegundum krabbameins og takmörkuðum hóp sjúklinga en nú segjast vísindamennirnir hafa uppgötvað nýja tegund T-fruma sem búa yfir nema (TCR) sem ber kennsl á og drepur flestar tegundir krabbameinsfruma en lætur heilbrigðar frumur í friði.

Hefðbundar T-frumur „skanna“ yfirborð annarra fruma og ráðast gegn þeim sem gefa frá sér afbrigðileg prótein. Hingað til hafa meðferðir gengið út á að neminn á T-frumunum beri kennsl á svokallaða HLA-sameind en hún er ólík milli einstaklinga. Nýja T-fruman nemur hins vegar og „les“ sameindina MR1, sem er á yfirborði allra fruma líkamans og eins hjá öllum. Vísindamennirnir telja að MR1 sendi skilaboð til ónæmiskerfisins þegar eitthvað er bogið við frumur, sem verður til þess að T-fruman ræðst á viðkomandi frumur og grandar þeim. Tilraunir á músum og krabbameinsfrumum utan mannslíkamans hafa gefið góða raun og T-fruman sannað ágæti sitt gegn fjölda krabbameina, m.a. þeirra sem eru algengust á Íslandi; blöðruhálskirtilskrabbameini, brjóstakrabbameini og ristilkrabbameini.

Prófessorinn Andrew Sewell, t.h., leiðir rannsóknarteymið.

Vonir eru bundnar við að hægt verði að hefja prófanir á mönnum fyrir árslok en áður þarf að tryggja öryggi meðferðarinnar. Hún mun ganga út á að taka blóð úr sjúklingnum, einangra T-frumur líkamans, umbreyta þeim til að þær nemi MR1, rækta þær og fjölga þeim, og koma aftur fyrir í sjúklingnum. Vísindamönnunum hefur þegar tekist að sýna fram á að T-frumum sjúklinga sem þjáðust af húðkrabbameini mátti umbreyta til að nema MR1 og nota til að drepa krabbameinsfrumur úr öðrum sjúklingum. Prófanirnar voru gerðar á rannsóknarstofu, utan líkamans, en gefa vísbendingu um að hægt verði að virkja T-frumur úr einum sjúklingi til að lækna annan sjúkling.

„Það er mjög erfitt að heimfæra svona niðurstöður upp á það sem myndi gerast í mannslíkamanum,“ segir Gunnar Bjarni Ragnarsson krabbameinslæknir um niðurstöðurnar. Hann hvetur til hóflegrar bjartsýni. „Þetta er vissulega áhugavert og ein grunnrannsókn sem bætir við okkar þekkingargrunn sem gæti nýst til að bæta meðferð krabbameina. Það er þó langt frá því að hægt sé að lofa því að þetta sé einhver lausn. Fyrst þarf að reyna þetta í mönnum og það gefur oft mjög ólíkar niðurstöður,“ segir hann. Vegurinn frá rannsóknarstofunni sé langur.

- Auglýsing -

Nýtt vopn gegn vonda kólesterólinu

Bresk heilbrigðisyfirvöld hyggjast leggja í fordæmalausa rannsókn með þátttöku almennings, sem felur í sér að einstaklingum sem eru í mikilli áhættu á að fá hjartaáfall eða heilablóðfall verður boðið lyfið inclisiran en rannsóknir hafa sýnt að það getur minnkað verulega magn slæma kólesterólsins í blóðinu á nokkrum vikum. Inclisiran hefur ekki verið samþykkt til almennrar notkunar, hvorki í Evrópu né Bandaríkjunum, en bresk yfirvöld áætla að 40 þúsund manns gætu fengið því ávísað innan ramma samstarfsverkefnis NHS og lyfjafyrirtækisins Novartis.

Hjartasjúkdómar eru helsta dánarorsök þjóða heims.

Heilbrigðisráðherrann Matt Hancock segir vonir standa til að átakið verði til þess að bjarga 30 þúsund mannslífum næsta áratuginn.

- Auglýsing -

Slæma kólesterólið getur safnast upp innan æða líkamans, þrengt þær og aukið líkurnar á hjartaáfalli og heilablóðfalli. Inclisiran „þaggar niður í“ geninu PCSK9, sem verður til þess að lifrin tekur meira slæmt kólesteról úr blóðinu og brýtur niður. Rannsóknir á vegum European Society of Cardiology hafa sýnt fram á að lyfið getur helmingað magn slæma kólesterólsins í blóðinu á nokkrum vikum og breska heilbrigðisráðuneytið áætlar að notkun inclisiran gæti komið í veg fyrir 55 þúsund hjartaáföll og heilablóðföll á ári, fyrir hverja 300 þúsund einstaklinga sem nota það.

Milljónir manna út um allan heim taka nú þegar inn svokölluð statínlyf, sem minnka magn slæms kólesteróls í blóðinu. Þau virka hins vegar misvel og hafa ýmsar aukaverkanir. Þá hefur inclisiran þann kost að það er gefið með sprautu tvisvar á ári, í stað daglegrar inntöku.

Lyf helmingar líkurnar á brjóstakrabbameini

Í desember sl. var greint frá því að lyfið anastrozole, sem helmingar líkur kvenna á því að fá brjóstakrabbamein, héldi áfram að virka löngu eftir að inntöku er hætt. Lyfið hamlar framleiðslu estrógens, sem örvar vöxt margra brjóstakrabbameina en er aðeins gefið konum eftir tíðahvörf þar sem það virkar ekki hjá yngri konum.

Anastrozole er skráð í sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar sem lyf við brjóstakrabbameini en erlendis hefur það verið rannsakað sem fyrirbyggjandi meðferð fyrir konur í áhættuhóp.

Eldri rannsóknir leiddu í ljós að anastrozole minnkaði líkurnar á brjóstakrabbameini um helming þau fimm ár sem konur tóku lyfið en eftirfylgni með 3.800 konum leiddi í ljós að tölfræðin var nánast óbreytt sjö árum eftir að inntöku var hætt.

Á Bretlandi hafa heilbrigðisyfirvöld mælst til þess frá 2017 að konur í áhættuhóp, m.a. vegna fjölskyldusögu um brjóstakrabbamein, taki lyfið í forvarnarskyni. Aðeins um 10% þeirra sem tilheyra þessum hóp hafa nýtt sér lyfið. Eitt áhyggjuefni hefur verið langtímaáhrif og annað aukaverkanir en rannsókn leiddi í ljós að 75% kvenna á anastrozole héldu áfram inntöku þrátt fyrir aukaverkanir, nánast sama hlutfall og fékk lyfleysu.

Tamoxifen er annað lyf sem hefur verið gefið til að draga úr líkunum á brjóstakrabbameini en á meðan anastrozole minnkaði líkurnar um 49% á 12 ára tímabili, var sama hlutfallið 28% fyrir tamoxifen. Á Bretlandi er tamoxifen dýrara en anastrozole en það hefur þann kost að gagnast konum fyrir tíðahvörf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -