Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Eva Ruza reynir að hafa flækjustigið sem minnst: „Ég get orðið rosalega matsár“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég vil bara hafa matinn minn bragðgóðan og ég get orðið rosalega matsár. Sem er sérstakt, þar sem eldamennskan mín hefur ekki alltaf heppnast og hafa aðrir þurft að þjást vegna hennar. Ég verð samt aldrei matsár við sjálfan mig. En ef einhver annar eldar vondan mat, þá er það allt önnur saga og þá verður Ruzan ekki sátt.“

Fékk ekki samhæfingu í vöggugjöf
Eva Ruza, þúsundfjalasmiður er Matgæðingur Mannlífs þessa vikuna. Eva segist vera allt í senn hamfarakokkur, ástríðukokkur, brussukokkur, smá subbukokkur og inn á milli góður kokkur.

„Mér var ekki gefin samhæfing líkamans í vöggugjöf, þannig að það þvælist stundum fyrir

Ljósmyndari: Þorgeir Ólafsson

mér í eldamennskunni. Ég er nýbúin að mölbrjóta lok á uppáhaldspottinum mínum og skil ekkert hvernig það gerðist. Mér líður eins og ég hafi fleygt því í gólfið. Samhæfing líkamans um að kenna. Hendurnar voru ekki að tala saman.“

Eva segist halda það að hún hafi lagast mikið þegar kemur að eldamennskunni;

„en svo byrja ég að elda og þá kemur í ljós að ég er bara alls ekkert búin að lagast. Ég elska samt rosalega mikið að elda og finnst ekkert skemmtilegra en að dunda mér við að elda og undirbúa. Eldhúsið og Siggi maðurinn minn, eru ekki alveg eins hrifin af uppátækjunum mínum því það er alltaf eins og hitabeltisstormur hafi flogið inn um eldhúsið eftir að ég elda…en ég meina ef maturinn heppnast, þá er það það sem skiptir máli. Svo tekur uppþvottavélin og tuskan við restinni.“

- Auglýsing -

Mastera réttinn
Um þessar mundir eru það asískar núðlur með nautaþynnum sem hún Eva uppgötvaði hjá henni Berglindi Hreiðars á gotteri.is sem er í uppáhalds.

„Ég er orðin klárust í heimi að elda þær og hef smá áhyggjur af því að fjölskyldan fái leið á þessum rétt. Það væri pirrandi því ég er búin að mastera hann. En á meðan þau kvarta ekki, þá held ég bara áfram að elda hann.“

Á týpískum degi í lífi Evu fær hún sér alltaf hreina AB mjólk og múslí í morgunmat og hún segist elska það alltaf jafn mikið. Í hádeginu þá er ekkert betra en grænn smoothie. Í smoothie setur hún banana, epli, spínati, sítrónu, frosnu mangó, engifer, dass af vatni og dass af djús; „mixa í drasl og voila. Mjög ferskur og góður.“

- Auglýsing -

Kvöldmaturinn er frekar venjulegur og reynir Eva á virkum dögum að vera ekkert að flækja hlutina neitt svakalega. Kjúlli, spaghetti, fiskur og þetta týpíska verður oftast fyrir valinu.

„Ég hef alltaf verið meðvituð um hvað ég borða og hvað ég gef fjöllunni að borða, þannig að ég reyni að hafa þetta hollt og gott og reyni að hafa flækjustigið sem minnst.“

Vill ekki mat sem hún hefur ekki bragðað áður

Mynd úr einkasafni Evu Ruza

Eva segist vera með frekar einfalda bragðlauka en hún vilji alls ekki sterkan mat, ekki of kryddaðan og hún borða ekkert sem hún veit ekki nú þegar hvernig bragðast.

„Ég byrjaði ekki að borða tómata og sveppi fyrr en ég var tvítug, held ég. Mér fannst svo ógeðsleg áferðin á þeim og mér fannst þeir ,,virka“ svo vondir. Greyið mamma þurfti alltaf að sigta sveppasúpu fyrir mig á jólunum svo að ég myndi borða hana. Hef samt aðeins þroskast í dag og borða sveppi og tómata eins og enginn sé morgundagurinn. Ég hljóma næstum því eins og 12 ára sonur minn núna.“

Skemmtilegt er frá því að segja að eitt skiptið eldaði Eva kjúkling og franskar með uppþvottabursta. Þau hjónin voru nýflutt í fyrstu íbúðina sína og buðu bestu vinkonu í mat.

„Ég ætlaði að vera rosa grand á því og elda heilan kjúkling og fröllur í fyrsta sinn. Svo sitjum við inn í stofu á meðan maturinn mallar og Auður vinkona mín segir; ,,það er rosaleg brunaplast lykt hérna“ . Hamfarakokkurinn var að sjálfsögðu ekki búinn að finna neina lykt. En við förum inn í eldhús og kíkjum inn í ofninn. Þá gaus þessi rosalega lykt beint i fésið á okkur. Ég ríf plötuna út úr ofninum. Hangir ekki helvítis uppþvottaburstinn neðan úr plötunni allur snarbráðnaður fastur við plötuna. Þá hafði ég kippt honum óvart með þegar ég setti plötuna í ofninn og var búin að elda hann í rúman klukkutíma. Kjúklingurinn var hins vegar bragðgóður og engum varð meint af…nema burstanum. Ég notaði hann samt til að vaska upp eftir kvöldið. Virkaði fínt. Mæli samt ekki með að elda þá.“

Asískar núðlur

Ljósmynd: Berglind Hreiðarsdóttir

Fyrir 4-6 manns

  • 375 g núðlur (6 „blocks“)
  • 500 g nautakjöt
  • Brokkolihaus
  • 4-5 gulrætur
  • ½ blaðlaukur
  • Kikkoman soyasósa
  • Kikkoman teriyaki sósa
  • Hoisin sósa
  • Sweet chili sósa
  • Ólífuolía
  • Salt, pipar, hvítlauksduft
  • 100 g ristaðar og saltaðar kasjúhnetur

Aðferð

  1. Grillið/eldið nautalundina og hvílið á meðan þið útbúið núðlurnar.
  2. Skerið brokkoli í bita og lauk og gulrætur í strimla.
  3. Steikið brokkoli og gulrætur á meðalháum hita upp úr vel af ólífuolíu í stutta stund. Hellið 4 msk af vatni og 2 msk af soyasósu á pönnuna og hrærið vel í þar til vökvinn gufar upp.
  4. Bætið þá lauknum saman við ásamt meira af ólífuolíu og kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
  5. Blandið á meðan saman í skál 6 msk af Hoisin sósu, 2 msk soyasósu, 2 msk teriyaki og 4 msk sweet chili sósu og hellið yfir grænmetið.
  6. Sneiðið kjötið í þunna strimla og blandið saman við.
  7. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka og hrærið vel saman við í lokin, toppið með kasjúhnetum.

 

Smelltu hér til að lesa allt um málið í brakandi fesku helgarblaði eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -