Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Eygló segist með lausnina við COVID í ræktinni – Íslendingar mega ekki verða feitari

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eygló Egilsdóttur, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Metabolic Reykjavík við Gullinbrú, biðlar til yfirvalda á Íslandi í aðsendri grein í Morgunblaðinu um að sóttvarnarreglur sem banna starfsemi líkamsræktarstöðva verði endurskoðaðar. Hún bendir á að Ísland er feitasta þjóð Evrópu og því megi landsmenn ekki við þessu. Hún segist hafa þróað kerfið þar sem sóttvarnir eru í fyrirrúmi.

„Eftir nokkra daga stendur til að endurmeta stöðu Covidfaraldursins og þeirra aðgerða sem þörf er á til að stemma stigu við útbreiðslu hans. Nú þegar þetta er skrifað hafa líkamsræktarstöðvar verið lokaðar í sex mánuði af síðustu tíu. Öllum má vera ljóst að kvaðir um lokun á fyrirtæki eru mjög íþyngjandi fyrir reksturinn, svo ekki sé meira sagt. Slíkar aðgerðir og kvaðir í þágu almannahagsmuna þurfa og verða að standast ýtrustu skoðun og þurfa að byggja á haldföstum rökum, sérstaklega þegar lokunin teygir sig yfir margra mánaða tímabil. Það er viðbúið að rekstraraðilar muni leita réttar síns fyrir dómstólum til að fá úr því skorið hvort aðgerðirnar hafi í raun verið réttmætar og reistar á rökum í ljósi annarra tilslakana í öðrum atvinnugeirum á sama tíma. Við áframhaldandi óbreytt ástand má búast við algjöru hruni í greininni, svo ekki sé talað um í lýðheilsu almennings,“ segir Eygló.

Hún bendir svo á hrollvekjandi tölfræði. „Nýlega voru birtar opinberar tölur frá OECD yfir þjóðir í ofþyngd. Þar trónir Ísland á toppnum, vel yfir meðallagi Evrópu, með 27% þjóðarinnar í ofþyngd. Meðaltal Evrópulanda er 17% þjóðar í ofþyngd, þetta eru tölur frá 2018. Nú er alveg ljóst að engin ein starfsstétt eða eitt atriði hefur úrslitaáhrif um hvort heil þjóð sé með ríflega fjórðung íbúa í ofþyngd. Þá er samt ljóst að ásamt öðru gegna líkams- og heilsuræktarstöðvar mikilvægu hlutverki við að halda uppi góðri lýðheilsu. Það er ekki nóg fyrir alla að fara bara út að labba, eins og landlæknir hefur haldið fram í fjölmiðlum. Það er frábær byrjun fyrir einhvern sem er í ofþyngd, en ef það væri nóg fyrir alla væru engar líkams- og heilsuræktarstöðvar til,“ segir Eygló.

Hún útskýrir svo hvernig hún gæti tekið á móti fólki og fylgt öllum reglum. „Það lítur út fyrir að hugmyndir þríeykisins um heilsu- og líkamsræktarstöðvar séu ansi takmarkaðar. Haft hefur verið eftir sóttvarnalækni að hann sjái fyrir sér að fólk „hlaupi á milli tækja“ á æfingum sínum. Eðlilega er erfitt að sjá fyrir sér góðar sóttvarnir þegar þessi mynd er dregin upp. Mig langar að bjóða sóttvarnalækni á æfingu til mín við fyrsta tækifæri, en þá sæi hann (kannski í fyrsta skipti) nýtt umhverfi fyrir þjálfun. Í stöð eins og þeirri sem ég rek hef ég 400 fm gólfpláss, sem er opið og ekki afmarkað af neinum föstum tækjum á gólfinu, er auðvelt að afmarka sóttvarnahólf fyrir iðkendur. Ég get með einföldum hætti tekið á móti litlum hópi, til dæmis 10 manns, þar sem tveggja metra regla er mjög vel virt og sameiginlegir snertifletir eru fáir eða engir,“ segir Eygló og heldur áfram:

„Allir sem koma í tíma bóka fyrst pláss í bókunarkerfinu okkar, þannig er með einföldum hætti hægt að takmarka iðkendafjölda í hverjum tíma. Hægt er að ganga inn um stórar dyr, þar sem ekki þarf að taka í húna, hver iðkandi fær sitt sóttvarnahólf á gólfinu, með eigin lóðum sem búið er að sækja og setja inn í hólfið. Þjálfari stjórnar tímanum, stýrir hópnum í gegnum upphitun, æfinguna og niðurlag. Hver og einn iðkandi fer ekki út úr sínu hólfi meðan á æfingunni stendur. Iðkendur þurfa með þessu verklagi því aldrei að koma við húna eða vera nálægt nokkrum einstaklingi. Ég væri tilbúin til að samþykkja svona strangar takmarkanir langt inn í árið 2021, jafnvel út árið, ef það þýddi að ég fengi bara að hafa opið. Það að opna og loka til skiptis er eitthvað sem drepur hvaða rekstrarmódel sem er,“ segir Eygló.

Hún segir dæmi um að tíu vinir æfi saman í sveittum litlum bílskúr. Það sé varla skárra.  „Við, eigendur heilsu- og líkamsæktarstöðva, höfum axlað ábyrgð sem á herðar okkar hefur verið lögð á árinu 2020. Við höfum mátt þola gagnrýni fyrir það eitt að vilja halda rekstri og lífsviðurværi okkar réttu megin við núllið. Við höfum búið við ströng skilyrði og verið undir smásjá lögreglu, m.a. eru dæmi um að eigandi líkamsræktarstöðvar hafi verið rekinn út úr sínum eigin sal á grundvelli þess að „líkamsræktarstöðvar eigi að vera lokaðar“. Á sama tíma eru tíu vinir að æfa saman í sveittum litlum bílskúr. Þetta er veira í samfélaginu okkar sem getur smitast hvar og nánast hvenær sem er, jafnvel þótt öllum leiðbeiningum sé fylgt, eins og yfirlögregluþjónn almannavarna þekkir. Samt hefur bara verið ákveðið að banna sumt en ekki annað,“ segir Eygló.

- Auglýsing -

„Opnum nú heilsu- og líkamsræktarstöðvar með takmörkunum. Það er erfitt að sjá af hverju það má ekki, þegar á sama tíma engum virðist finnast óeðlilegt að 30 þúsund manns fari í Kringluna á fimm klukkustundum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -