Eyþór Arnalds segir aldursmuninn á honum og nýju ástinni í lífi hans ekki skipta máli. Þau deili sömu gildum og áhugamálum og svo brenna þau bæði fyrir listina.
Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og tónlistarmaður, er í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins þessa helgina. Þar talar hann meðal annars um nýju ástina í lífi sínu, Ástríði Jósefínu Ólafsdóttur, myndlistakonu.
„Það er dásamlegt að finna ástina og kannski er hún lífið, það er að segja að elska aðra manneskju og allt sem maður gerir. Ég held að það sé ákveðið hreyfiafl. Ég var heppinn að kynnast Ástríði,“ segir Eyþór í viðtalinu. Er hann þá spurður hvort 20 ára aldursmunurinn á milli þeirra trufli þau ekkert segir hann ekki svo vera. „Það er vissulega aldursmunur á okkur en það dregur okkur saman að við deilum sömu gildum og áhugamálum og brennum bæði sérstaklega fyrir listinni og klassískri tónlist. Við erum mjög samhuga.“
Eyþór og Ástríður kynntust í gegnum sameiginlega vini og segist Eyþór hafa orðið heillaður um leið. „Hún er ólík flestum sem ég hef kynnst. Hún er málari í klassískum stíl. Endurreisnarmálari. En hún er ekki bara málari heldur stundar hún líka „aerial silks“, eins og þú sérð í Cirque du Soleil,“ sagði Eyþór stolur af konu sinni.
Eyþór heldur áfram að dásama nýju konuna í lífi hans. „Hún er sterk manneskja í mörgum skilningi þess orðs og hefur þurft að hafa fyrir lífinu. Hún er góð jarðtenging fyrir mig. Ég fer stundum of hratt og það er gott að hafa góða jarðtengingu.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér.