Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Eyþór Arnalds fagnar frelsinu frá stjórnmálunum: „Ég synti oft á móti straumnum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nú er ég frjáls. Þetta er alltaf ákvörðun hvort maður eigi að fara í framboð eða ekki og ég sagði að ég ætlaði að fara í framboð að óbreyttu. Síðan er búin að vera umræða um prófkjör eða ekki prófkjör og þá verður maður að gera upp hug sinn endanlega og mér fannst rétt að gera það núna fyrir jólin. Af því að þegar maður finnur í hjartanu að maður eigi að gera eitthvað eða ekki gera eitthvað þá á maður að ákveða það og láta fólk vita,“ segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Reyni Traustason en Eyþór ætlar ekki að gefa kost á sér í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Ég léttist um þrjú kíló áður en ég tók ákvörðun um að fara; þetta var það erfið ákvörðun.

„Ég held að það sé margt sem hefur áhrif á mann og svona ákvörðun er stór ef maður er að fara af stað. Ég kvaldist mikið áður en ég tók ákvörðun um að fara síðast en þá var leiðtogaprófkjör og fimm sem kepptu endanlega um það. Áður en ég ákvað að fara í það prófkjör fyrir fjórum árum reyndi ég mikið að segja „nei“ og reyndi mikið að telja sjálfum mér hughvarf um að fara ekki. Ég gekk svo langt að ég var með tvo kristalla í vasanum sem áttu að fá mig til þess að vera staðfastan og fá mig til þess að fara ekki. En það tókst ekki. Ég léttist um þrjú kíló áður en ég tók ákvörðun um að fara; þetta var það erfið ákvörðun. Þetta er auðveldari ákvörðun,“ segir hann um ákvörðunina núna. „Ég léttist bara andlega vegna þess að nú er mér létt.“

Eyþór er spurður hvort það sé ekki leiðinlegt að vera leiðtogi minnihluta.

Það fer stundum meiri orka í að vinna innan flokks heldur en út á við og það á við bæði um minnihluta og meirihluta.

„Það er alltaf flókið að vera leiðtogi bæði minnihluta og meirihluta. Ég hef prófað hvoru tveggja; í Árborg var ég í fjögur ár í minnihluta og fjögur ár í meirihluta. Þetta er alltaf ákveðinn ballans. Það fer mikil orka innan flokka í að sameina ólík sjónarmið og hlusta á alla. Það fer stundum meiri orka í að vinna innan flokks heldur en út á við og það á við bæði um minnihluta og meirihluta. Ég hugsa til dæmis að þessi meirihluti sem er núna í Reykjavík sé ekki einfaldur því þarna eru gjörólíkir flokkar; Viðreisn, VG og fleiri. Þetta er alltaf jafnvægislist að vera leiðtogi. Maður má ekki láta sér leiðast þó maður sé leiðtogi. Maður verður að hafa gaman af þessu.“

Dagur er búinn að vera lengi í ráðhúsinu og það gildir um stjórnmálamenn svipað og flugvélar: Á endanum kemur málmþreyta í alla.

Talið berst að meirihlutanum í borgarstjórn og Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

„Dagur er búinn að vera lengi í ráðhúsinu og það gildir um stjórnmálamenn svipað og flugvélar: Á endanum kemur málmþreyta í alla. Hann er búinn að vera í 20 ár í ráðhúsinu og ég finn það bara á honum sjálfum að þetta er orðið dálítið langt. Það er kannski spurning um útgönguleiðina. Ég tók eftir að hann gaf út eins konar ævisögu,“ segir Eyþór og á við nýja bók Dags sem kom út fyrir jólin: „Nýja Reykjavík – umbreytingar í ungri borg“. „Hún fjallar mikið um hans verk í borginni og pólitíkina. Það er nú oft merki um að menn séu á útleið þegar þeir skrifa bautastein um sjálfan sig. Þannig að í huganum held ég að hann sé farinn í burtu en það er bara spurning hvert.“

- Auglýsing -

Borgarfulltrúinn er spurður hvaða möguleika hann haldi að Sjálfstæðismenn hafi til að mynda meirihluta í borgarstjórn. Og hann segist halda að það sé alltaf möguleiki. „Ég tók oft það debat fyrir fjórum árum – þá voru allar skoðanakannanir þannig að meirihlutinn sem var þá myndi halda. Það var bara tveimur dögum fyrir kosningar sem við náðum að koma fram í skoðanakönnunum að við værum að fella meirihlutann. Ég var alltaf sannfærður um að við myndum fella hann og við felldum hann. Svo var það Viðreisn sem ákvað að endurreisa hann.“

Todmobile

- Auglýsing -

Eyþór hefur komið víða við undanfarna áratugi og hann segir að það sé skemmtilegt að takast á við ólík verkefni. Tónlistin heillaði og hann var í hljómsveitinni Tappa tíkarrassi um tíma.

„Þegar við horfum til baka á Tappa tíkarrass sem var í Rokk í Reykjavík og þessari pönkbylgju þá vorum við að mörgu leyti svona krúttpönk. Við vorum miklu meiri krútt heldur en pönkarar í Bretlandi og litríkari og glaðari. Þessi bylting sem var í kringum tónlistina á þessum tíma var ótrúlega öflug. Það var gaman að taka þátt í því. Við tókum alla músík og hökkuðum hana í ræmur og bjuggum til eitthvað nýtt.“

Hann segir að þau hafi verið 15 ára gömul.

„Þetta var upphafið að því að ungir krakkar voru að hafa trú á því að semja tónlist og vera ekki bara að þýða eins og oft var erlenda tónlist yfir á íslensku. Það var algengt að popptónlist á Íslandi væri erlend lög. Við bjuggum ekki bara til lög sem voru gjörólík heldur vorum við óhrædd við að fara algerlega nýjar leiðir. Ég held að þetta sjálfstraust hafi skilað sér síðan í tónlistinni á Íslandi.“

Margir jafnaldrar mínir fóru að verða baldnir 16 ára en ég fór alveg hina leiðina; fór í pönkinu í sellóið. Ég synti oft á móti straumnum

Svo var það klassíkin. Sellóið.

„Margir jafnaldrar mínir fóru að verða baldnir 16 ára en ég fór alveg hina leiðina; fór í pönkinu í sellóið. Ég synti oft á móti straumnum.“

Hann fór í MH og þurfti að sækja um að vera utanskóla af því að hann æfði sig á sellóið í um sex tíma á dag. „Ég tók það mjög alvarlega,“ segir Eyþór sem fór síðan í framhaldsám í Hollandi og segir hann að kennari sinn þar sé eini sellóleikarinn sem geti spilað með tveimur bogum.

Svo stakk vinur hans, Þorvaldur, upp á því að þeir tækju upp nokkur lög og úr varð hljómsveitin Todmobile sem gerði garðinn frægan og kom hljómsveitin meira að segja saman fyrr á þessu ári í Hörpu.

„Við komum saman á þessu ári; við hittum á grímulausan glugga milli Covid-lokana og gátum horft framan í áheyrendur í Hörpu.“

Todmobil fór svolítið aðrar leiðir. „Við blönduðum saman klassík, poppi og rokki.“

Svo hætti Eyþór í hljómsveitinni.

„Við vorum búin að gera það sem við ætluðum að gera. Við vorum búin að gefa út plötur og fá öll þau verðlaun sem hægt var að fá. Það var tvennt í stöðunni: Annaðhvort að fara til útlanda og spila annars staðar eða endurtaka okkur svolítið. Þá var það að gera eitthvað annað og þá fór ég í tæknina og Símann og allt það.“

Nýr kafli var hafinn.

 

Stofnaði Íslandssíma

Eyþór segist hafa verið með stúdíó sem var eitt fyrsta stafræna stúdíóið í heimi. „Ég bjó til félag sem hét Stafræn hljóðvinnsla. Góður vinur minn, Guðjón í OZ, var mjög framsýnn með tækni; langt á undan sinni samtíð. Og við bjuggum til OZ hljóð og fórum að vinna með hljóð í OZ-tækninni. Það leiddi til þess að ég fór að vinna með Guðjóni í OZ og það var mikið ævintýri. Við fórum til Silicon Valley og út um allt; við vorum í San Francisco og hittum alla þessa toppa – Bill Gates og alla sem voru í tækninni á þeim tíma. Þetta var gríðarlega spennandi tími ekki síst í kringum 1996-1997. Við unnum líka með Ericsson sem var fjarskiptarisi.“

Þá kom hugmynd að Íslandssíma sem við stofnuðum og fórum í að keppa við Landssímann á öllum sviðum fjarskipta og í dag er það félag Vodafone.

Svo kom upp hugmynd; það var bara eitt símafyrirtæki á Íslandi. „Svo kom Tal með gsm. Vantaði ekki annað svona heilsteypt fjarskiptafyrirtæki? Þá kom hugmynd að Íslandssíma sem við stofnuðum og fórum í að keppa við Landssímann á öllum sviðum fjarskipta og í dag er það félag Vodafone. Síðan fór ég til London að vinna hjá fjarskiptafyrirtæki þar þannig að maður er búinn að vera víða.“

Og Eyþór seldi hlut sinn í Íslandssíma.

„Síðan hefur maður gert ýmislegt fleira.“

 

Í stjórnmálin

Eitt ár í stórborginni London og svo var það sveitasælan fyrir utan Selfoss þar sem Eyþór bjó um árabil. Hann var þar oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg.

Það er það sem vantar í Reykjavík – að meirihlutinn vinni með minnihlutanum.

„Heimamenn vildu fá mig í framboð. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg í lægð. Hann hafði verið með um 24% og þeir sannfærðu mig um að fara í slaginn; þar var prófkjör og ég vann það og við náðum síðan 40% fylgi og síðan 50% fylgi í næstu kosningum. Það gekk vel. Það var gríðarlega lærdómsríkur tími. Þegar við tókum við 2010 þá var bankahrunið eiginlega nýbúið og ástandið á fjármálum sveitarfélagsins mjög slæmt. En það var mjög góð samstaða í bæjarstjórninni og við áttum gott samstarf með þeim sem voru í minnihluta. Það er það sem vantar í Reykjavík – að meirihlutinn vinni með minnihlutanum. Við unnum mjög náið með öllum aðilum og hagræddum. Og ef ég súmmera upp það sem gerðist þá lækkuðum við fasteignaskattana, við lækkuðum skuldirnar og bæjarfélagið eignaðist það sem núna er miðbær Selfoss og framtíðarlandið við brúna sem er við Laugardæli. Þetta var allt keypt en þrátt fyrir það náðum við að lækka skuldir en það er vegna þess að það var svo ódýrt að kaupa – við notuðum tækifærið í kreppunni. Og nú er Árborg búið að blómstra sem sveitarfélag og lykillinn er að grípa tækifærin þegar þau koma. Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið að taka þátt í þeirri vegferð.“

Eyþór var um tíma stjórnarformaður og prókúruhafi Becromal Iceland ehf sem rekur aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði. „Það var mjög spennandi verkefni. Það eru þéttar sem eru notaðir í flest allar vindmyllur í Evrópu. Þetta er bara kyrrlát verksmiðja við fjörðinn sem gengur bara vel. “

Hann er farinn út úr því fyrirtæki.

„Núna er meiri tími til að hugsa og vinna.“

Hann er alveg einstakur í Íslandssögunni.

Svo stofnaði hann félagið „Félag um forsetaframboð Davíðs“ sem studdi Davíð Oddsson í kjöri til forseta Íslands. „Mér fannst það spennandi. Davíð er mjög merkilegur karakter og það að fá að kynnast honum eru ákveðin forréttindi. Hann er alveg einstakur í Íslandssögunni. Hans saga sem stjórnmálaforingi er einstök. Og svo er hann svo sterk persóna og gríðarlega minnugur þannig að ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst honum.“

Eyþór hefur verið hluthafi í Morgunblaðinu og segist nú eiga um 10%. Hann er spurður hvers vegna honum hafi dottið í hug að kaupa hlut í fjölmiðli.

„Ég var hluthafi í DV þegar ég var 11 ára,“ segir Eyþór sem gaf út blað í bekknum sínum á svipuðum tíma. „Ég seldi Vísi sem krakki og sparaði peninginn og mér datt ekki annað í hug heldur en bara að kaupa í Dagblaðinu sem var síðan stofnað. Auðvitað fékk ég þá ekki peninga til baka.“

Athafnamaðurinn og pólitíkusinn segist alltaf hafa haft áhuga á fjölmiðlum vegna þess að þeir séu hluti af menningunni okkar.

 

Neikvæðni virkar

Eyþór hefur verið gagnrýndur fyrir hlut sinn í Morgunblaðinu. „Það er þannig í stórnmálum að allt sem hægt er að nota gegn manni er notað gegn manni.“

Hann segir að pólitíkin hafi þann galla að það sé svo auðvelt að nota neikvæðnina. „Það er mjög neikvætt hvað neikvæðnin er mikil en ástæðan fyrir því að hún er notuð er að hún virkar. Það er sálfræðilega sannað að menn muna miklu meira ósigra sína heldur en sigra og þeir muna meira ef þeir tapa heldur en ef þeir græða. Það er margbúið að rannsaka það í pólitík að neikvæðni virkar. Og menn keppast þá um að vera sem neikvæðastir. Það er hins vegar ekki mjög jákvætt vinnuumhverfi fyrir sálina. Sá sem er í meirhluta ræður dálítið andrúmsloftinu á vinnustað. Hann ræður hvort það sé hlustað á, hvort tillögur séu samþykktar eða hvort menn séu með í ráðum. Víða í kringum okkur eins og í Kópavogi er verið að samþykkja fjárhagsáætlanir sameiginlega en í Reykjavík er ekkert verið að hlusta. Ég held að þetta sé ekkert hollt fyrir meirihlutann hvorki varðandi rekstur borgarinnar né bara heilsufarslega. Það er mikið um veikindi í borgarstjórn. Það hafa margir veikst á þessu kjörtímabili og ég held að það hljóti að tengjast andrúmsloftinu að einhverju leyti.“

Þetta eiga bara að vera fulltrúar íbúanna og svo eiga þeir að vinna saman og ef þeir mynda einhvern meirihluta þá er ekki þar með sagt að þeir eigi að loka á minnihlutann.

Eyþór viðurkennir að það sé of mikil harka í umræðunni. Hann segir að ef hann hefði fengið tækifæri þá hefði hann gert eins og gert var á Selfossi; að vinna með minnihlutanum. „Hugsunin með sveitarstjórn og borgarstjórn er ekki meirihluti og minnihluti. Það er hvergi talað um það í lögunum. Þetta eiga bara að vera fulltrúar íbúanna og svo eiga þeir að vinna saman og ef þeir mynda einhvern meirihluta þá er ekki þar með sagt að þeir eigi að loka á minnihlutann. Svo var meira að segja minnihlutinn í borgarstjórn núna með meirihluta atkvæða. Það voru fleiri atkvæði á bak við okkur heldur en meirihlutann.“

Eyþór segist ekki trúa öðru en að það verði breytingar eftir kosningarnar í vor. „Það á eftir að koma í ljós hvort Dagur heldur áfram eða ekki og svo á eftir að ákveða hvernig hinir flokkarnir raða á lista. Tilfinning mín er að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að geta fengið 35-36%. Ég hef haft ágætis tilfinningu fyrir svona fylgi og spáði því síðast að við fengjum rúmlega 30% – þá vorum við með um 24% í könnunum og fengum 31%. Ég man eftir því að þá spáðu flestir því að Samfylkingin yrði stærsti flokkurinn en það varð ekki. En 35-36%; það vantar þá einhvern samstarfsflokk og þá er það spurning hver það verður. En ég held að það sé hollt fyrir borgina að þetta breytist.“

Ég held að ef maður horfir á línurit yfir fylgin þá hafi Icesave-málið haft áhrif.

Eyþór er spurður um skoðun sína á rúmlega 20% fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. „Hann hefur haft betra fylgi í sveitarstjórnum víða heldur en á landsvísu. Við vorum til dæmis með 31% í Reykjavík í borgarstjórn en það var bara rúmlega 20% í þinginu. Ég held að ef maður horfir á línurit yfir fylgin þá hafi Icesave-málið haft áhrif. Það dumpaði þetta dálítið niður og svo hefur Sjálfstæðisflokkurinn misst fólk til Viðreisnar annars vegar og Miðflokksins hins vegar. Núna er eitthvað af fólki að koma frá Miðflokknum yfir til Sjálfstæðisflokksins og svo er spurning hvað gerist með Viðreisn. Þetta eru ákveðin skil. Varðandi Viðreisn þá er það ESB; þar fór ákveðinn hluti af borgarísjakanum á flot. ESB er ekki á dagskrá þannig að ég myndi halda að það væri hægt að ná honum til baka en við tókum nýlega við varaborgarfulltrúa úr Miðflokknum, Baldri Borgþórsyni,“ segir Eyþór en Baldur gekk í Sjálfstæðisflokkinn.

 

Borgarlínan

Eyþór hefur haft miklar efasamdir um fyrirhugaða borgarlínu.

Þannig að það að fara af stað með hugmyndir um línur þar sem verða stórar rútur: Framtíðin er ekki stórar rútur. Framtíðin er litlir pakkar. Alveg eins og internetið.

„Ég hafði efasemdir um hana 2017 áður en ég fór í framboð. Ég hef litið á borgarlínuna sem línulegt kerfi og dálítið þunglamalegt kerfi. Við erum að ganga í gegnum algjöra samgöngubyltingu alveg eins og fjarskiptabyltingin var alger bylting þegar farsímarnir komu og internetið. Núna erum við að sjá álíka byltingu í samgöngum þar sem við sjáum annars vegar sjálfkeyrandi lausnir og orkuskipti; rafmagn.“ Hann nefnir rafskutlur sem hann segir að enginn hafi séð fyrir og hann talar um orkuskipti í bílum á Íslandi. „Þannig að umhverfisþátturinn í samgöngum er að gjörbreytast. Bíllinn verður ekkert mengandi lengur. Þá er það spurningin hvernig við eigum að laga samgöngurnar. Ég trúi því að tæknin sé núna að koma með miklar breytingar; sjálfkeyrandi lausnir munu lækka kostnaðinn við almenningssamgöngur. Þannig að það að fara af stað með hugmyndir um línur þar sem verða stórar rútur: Framtíðin er ekki stórar rútur. Framtíðin er litlir pakkar. Alveg eins og internetið.“

Er nokkur leið til baka?

„Ég ákvað að gefa ekki kost á mér; það er hægt að taka ákvörðun. Það er ekki búið að panta eitt eða neitt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -