2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin

Tómas Þór Þórðarson, sem nýverið var ráðinn til að lýsa enska boltanum í Sjónvarpi Símans næsta hausti, hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni og byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár,“

segir Tómas í ítarlegu forsíðuviðtali í Mannlífi. Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað? „Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is