2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fékk símtalið sem hann hafði óttast svo lengi

Foreldrar eru oft ráðalausir þegar börn þeirra eru í neyslu og fátt erfiðara en að horfa upp á ástandið án þess að geta nokkuð gert. Faðir sem missti dóttur sína fyrir fjórum árum, eftir að hún hafði tekið of stóran skammt af lyfseðilsskyldu lyfi, féllst á að segja okkur sögu sína. Hann vill þó ekki koma fram undir nafni til að ýfa ekki upp sár sem varla eru gróin og munu kannski aldrei gera.

„Þegar talað er um áfallahjálp finnst mér merkilegt til þess að hugsa að okkur var ekki boðið slíkt, þótt ég hefði ekki þegið hana. Ef bíll festist í á eða flugvél hristist er öllum boðin áfallahjálp,“ segir faðir sem missti dóttur sína fyrir fjórum árum, eftir að hún hafði tekið of stóran skammt af lyfseðilsskyldu lyfi.

„Hún byrjaði ekki að drekka fyrr en hún varð tvítug. Hún var alltaf góður námsmaður, var samviskusöm og mikill fullkomnunarsinni. Hún útskrifaðist sem stúdent með láði og hóf læknanám ári seinna á erlendri grundu. Þegar hún var yngri var hún frekar kvíðin og fékk oft kvíðaköst. Kvíðinn jókst þegar hún byrjaði að nota áfengi. Námið gekk samt vel til að byrja með og fyrstu tvö árin hafði ég engar áhyggjur af henni, ég var í þéttu sambandi við hana í gegnum síma og þegar hún kom heim í frí. Ég er sjálfur óvirkur alkóhólisti og því fór mig að gruna með tímanum að ekki væri allt með felldu. Hún fór til dæmis að svara stopult í símann, segja sögur sem ekki alltaf stóðust og svaf mikið á daginn auk þess að vera komin í vafasaman félagsskap. Hún fór að lifa tvöföldu lífi. Eitt sinn datt hún illa og fékk höfuðhögg eftir að hafa tekið svefnlyf og var lögð inn á sjúkrahús. Þá byrjuðu áhyggjurnar fyrir alvöru. Lyfin sem hún notaði voru meðal annars Imovane-svefnlyf, róandi lyf og svo náttúrlega drakk hún alltaf áfengi. Ýmislegt kom upp á, hún reyndi til dæmis nokkrum sinnum að skera sig á púls. Hún gæti hafa verið í harðari neyslu, ég veit það ekki, hún sagði mér einu sinni að hún hefði prufað ýmislegt. Ég held að hún hafi fengið lyfin hjá læknum þarna úti, hafi látið skrifa upp á þau fyrir sig. En þrátt fyrir neyslu, kvíða og vanlíðan kláraði hún námið og fékk háar einkunnir. Hún fór í gegnum þetta á hörkunni.“

„Hún fór í hjartastopp og var á gjörgæslu í fjóra daga. Þetta var eilíft ströggl hjá henni, hún var inn og út af geðdeild og gerði nokkrar tilraunir til að svipta sig lífi. Ef hún fékk valíumlyf vildi hún alltaf deyja og reyndi það meðal annars inni á geðdeild.“

Banvæn blanda
Fljótlega eftir að hún flutti heim tók hún ákvörðun um að fara inn á Vog. „Hún fór í heila meðferð sem var henni erfið og í kjölfarið tók hún kandídatsárið. Hún átti í miklum erfiðleikum með að halda sér edrú, var alltaf falla og fór svo í aðra heila meðferð á Vogi. Ég man ekki hversu langt var á milli þeirra. Fyrsta stóra áfallið var þegar hún bjó hjá ömmu sinni en þá var hún rétt dáin vegna ofneyslu geðdeyfðarlyfsins amilín. Það er ekki ávanabindandi lyf en notað gegn vefjagigt og kvíða meðal annars. Ef hún hefði ekki vakið ömmu sína, sem hringdi á sjúkrabíl, hefði hún dáið þennan dag. Hún fór í hjartastopp og var á gjörgæslu í fjóra daga. Þetta var eilíft ströggl hjá henni, hún var inn og út af geðdeild og gerði nokkrar tilraunir til að svipta sig lífi. Ef hún fékk valíumlyf vildi hún alltaf deyja og reyndi það meðal annars inni á geðdeild. Hún kláraði kandídatsárið, valdi sér sérgrein innan læknisfræðinnar og sinnti því eins og hún gat. En allt var henni erfitt.“

Hann segir að fjölskyldan hafi stutt hana eins og hægt var en margt sé einfaldlega ekki í mannlegu valdi að gera. „Sjálfur er ég læknir og óvirkur alkóhólisti þannig að ég hef breiða þekkingu á sjúkdómnum. Fátt hefur hjálpað mér eins mikið á mínum starfsferli og að vera alkóhólisti sjálfur. Ég vissi því að það var ekkert sem ég gat gert til að bjarga henni ef hún vildi ekki þiggja þá hjálp sem að henni var rétt. Það voru næg úrræði í boði fyrir hana en hún annaðhvort var ekki nægilega heiðarleg til að geta hætt eða bara vildi það alls ekki. Á Vogi er unnið frábært starf og þar er fleiri mannslífum bjargað en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Biðlistarnir til að komast þangað inn eru hins vegar allt of langir og slæmt til þess að hugsa að ríkisvaldið leggi ekki meira í málaflokkinn.

AUGLÝSING


Þrátt fyrir allt sem er í boði geta geðsjúkdómar og neysla verið erfið blanda. Oft er ekki hægt að vinna með geðsjúkdóminn fyrr en fólk er orðið edrú og fólk með geðsjúkdóma hefur ekki löngun til að hætta neyslu. Þetta getur verið banvæn blanda.“

Engin áfallahjálp
Fyrir fjórum árum fékk hann svo símtalið sem hann hafði svo lengi óttast. „Ég heyrði í henni kvöldið áður, hún sagðist vera þreytt og fannst erfitt í vinnunni. Hún bauð mér svo fallega góða nótt, öðruvísi en hún var vön að gera. Daginn eftir mætti hún ekki í vinnuna á Landspítalann og ég var látinn vita. Ég hringdi nokkur símtöl og komst að því að hún hafði skrifað á sig lyfið amitriptyline kvöldið áður en sé það tekið í stórum skömmtum veldur það hjartsláttartruflunum. Síminn hennar var miðaður út og hún fannst látin. Ég var svo kallaður til að bera kennsl á líkið hennar, þurfti að opna líkpokann og horfa framan í dóttur mína. Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. Þegar talað er um áfallahjálp finnst mér merkilegt til þess að hugsa að okkur var ekki boðið slíkt, þótt ég hefði ekki þegið hana. Ef bíll festist í á eða flugvél hristist er öllum boðin áfallahjálp.

Við erum enn að vinna úr sorginni og sennilega jöfnum við okkur aldrei, þótt við hefðum lengi óttast þetta. Ég hugsaði oft með mér að ég gæti ekki verið edrú áfram ef hún myndi deyja, ég gæti ekki lifað. En hér er ég enn, edrú og á lífi.“

 „Á að bjarga öllu með pillum“
Í starfi sínu sem læknir hefur hann tekið eftir því að misnotkun lyfsseðilsskyldra lyfja hefur aukist. „Það er gríðarleg ásókn í sterk verkjalyf, eins og parkódín forte og tramól, sem og svefnlyf. Læknar skrifa allt of mikið út af þessum lyfjum, meira að segja fyrir ungt fólk, enda er þunginn og þrýstingurinn mikill. Að mínu mati á ekki að gera það nema í algerri neyð, það er stundum eins og enginn megi finna til. Stundum er fólk líka útskrifað allt of snemma af spítala eftir til dæmis alvarleg slys og þá með sterkar verkjatöflur upp á arminn. Þessir einstaklingar verða svo í einhverjum tilfellum háðir verkjalyfjum í kjölfarið. Notkun rítalíns og conserta hefur einnig aukist og misnotkun þess enn einn armurinn af þessu alvarlega ástandi. Ég tel að öll slík lyf sem misnotuð eru hér á landi séu skrifuð út af íslenskum læknum en ekki notuð af þeim sem lyfin eru ætluð.

„Ég tel að öll slík lyf sem misnotuð eru hér á landi séu skrifuð út af íslenskum læknum en ekki notuð af þeim sem lyfin eru ætluð.“

Oft er talað um að Íslendingar noti allra þjóða mest af þunglyndislyfjum. Því er slegið upp sem einhverju skammaryrði og lyfjunum lýst sem gleðipillum. Notkun flestra þessara lyfja er hins vegar ekki ávanabindandi og ekki hægt að misnota. Þau gera ekki annað er að auka seritónínframleiðslu sem er mörgum nauðsynlegt. Hins vegar er vert að skoða notkun Íslendinga á morfínskyldum kódeinverkjalyfjum, svefnlyfjum og þeim lyfjum sem merkt eru með rauðum þríhyrningi. Taki óvirkur alkóhólisti slík lyf er hann í raun ekki edrú. En við lifum í lyfjaumhverfi þar sem á að bjarga öllu með pillum.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um skaðsemi lyfseðilsskyldra lyfja. Dauðsföllum af völdum misnotkunar þeirra hefur fjölgað gríðarlega og grunur um að andlát níu manneskja á þessu ári megi rekja til ofneyslu slíkra lyfja eða fíkniefna. Mannlíf ræddi einnig við Sigurð Rósant Júlíusson, fyrrverandi fíkil, um reynslu hans af hörðum heimi fíkniefna og Valgerði Rúnarsdóttur, forstjóra SÁÁ, um þann vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is