Föstudagur 17. mars, 2023
2.1 C
Reykjavik

Ferðafélag Íslands saklaust af ásökunum yfirtökufólks: Rétt viðbrögð við áreitismálum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ferðafélag Íslands er saklaust af þeim grófu ávirðingum sem hópur tengdur Önnu Dóru Sæþórsdóttur, fyrrverandi forseta félagsins, hefur haldið á lofti. Umrætt fólk hélt því fram að fararstjórar og stjórnarmenn hefðu orðið uppvísir að alvarlegum brotum gegn umbjóðendum sínum. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir forsetanum fyrrverandi.

Í úttekt sálfræðistofunnar Lífs og sálar er farið ítarlega í gegnum ávirðingarnar og þau mál sem nefnd voru sem dæmi um yfirhylmingu og brot. Niðurstaðan er sú að félagið hafi staðið rétt að úrlausn mála. Sigrún Valbergsdóttir, fráfarandi forseti Ferðafélags Íslands, upplýsti á fjölmennum aðalfundi félagsins í gærkvöld að með þessari niðurstöðu væri komið nýtt upphaf og ömurlegum tíma innihaldslausra ásakana lokið.

Sigrún Valbergsdóttir.

„Í febrúar 2023 var svo endurskoðað það fyrirkomulag og samþykkt af hálfu stjórnar FÍ,
uppfærð viðbragðsáætlun, þar sem fram kemur að þrír utanaðkomandi aðilar skipi fagteymi sem vísi málum í úttekt hjá fagaðila ef ástæða þykir til. Telur undirrituð að slík skipan mála sé mjög af hinu góða og tryggi betur faglega fjarlægð og hlutleysi í þessum viðkvæmu og flóknu málum og betri sátt ríki um niðurstöður. Að því sögðu er ekki verið að gefa í skyn að hlutleysi hafi verið ábótavant í þeim málum sem hér hefur verið fjallað um.“
Undir þetta ritar Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur hjá Lífi og sál.“

Sigrún Valbergsdóttir fagnar niðurstöðunni.

„Þessum niðurstöðum fögnum við að sjálfsögðu um leið og við gerum okkur ljóst að það er framundan mikil vinna við að endurheimta trúverðugleika félagsins eftir neikvæða umræðu síðast liðið haust. En til þess er stjórnin reiðubúin – öll sem eitt – í samstarfi við félagsmenn. Án þeirra er ekkert félag,“ sagði hún á fundinum í gærkvöld.

Harðskeytt umfjöllun

Gríðarleg aðför var gerð að félaginu og stjórnendum þess síðastliðið haust. Fréttablaðið birti gagnrýnislaust forsíðuviðtal við Önnu Dóru þar sem hún bar starfsfólk og stjórn félagsins alvarlegum sökum og tilgreindi að fararstjórar hefðu framið alvarleg brot. Blaðamaðurinn Björk Eiðsdóttir tók viðtalið. Fylgjendur Önnu Dóru fengu mikið pláss í fjölmiðlum með ávirðingar á hendur félaginu.

Gísli Marteinn, sjónvarpsmaður. Mynd/Skjáskot. Vísir
- Auglýsing -

Sem dæmi um harðskeytta umfjöllun má nefna að Gísli Marteinn Baldursson uppnefndi félagið í sjónvarpsþættinum Vikunni sem Feðrafélag Íslands. Kristín I Pálsdóttir, formaður kvenfélagsins Rótarinnar, gekk hvað lengst í ásökunum á stjórn og fararstjóra. Hún bar upp vantraust á stjórnina á fjölmennum félagsfundi en tillagan fékk ekki hljómgrunn. Aftur á móti samþykkti gríðarlegur meirihluti fundarmanna traustsyfirlýsingu við stjórnina. Kristín sagði sig úr félaginu áður en til aðalfundar kom.

Átakasagan

Átökin innan Ferðafélags Íslands hófust á síðasta ári. Þáverandi forseti félagsins, Anna Dóra Sæþórsdóttir, vann leynt og ljóst að því að koma Páli Guðmundssyni, framkvæmdastjóra félagsins, úr starfi með aðferðum sem túlkaðar voru sem einelti. Enginn annar innan níu manna stjórnar félagsins var sammála því að reka framkvæmdastjórann sem um árabil hafði skilað félaginu með hagnaði og í farsælum rekstri.

Á fundi í höfuðstöðvum Ferðafélagsins voru Róbert Marshall, þáverandi fararstjóri Ferðafélags Íslands, og Þórey Vilhjálmsdóttir ráðgjafi mætt og sögðust vera þar í umboði Önnu Dóru. Tvímenningarnir sátu fyrir framkvæmdastjóranum við vinnustað hans og kröfðust fundarins. Þórey er þekkt sem aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur dómsmálaráðherra á þeim tíma sem Lekamálið kom upp. Það mál kostaði ráðherrann embættið. Á fundinum settu tvímenningarnir fram þá kröfu að Páll viki úr starfi sínu.

Þórey Vilhjálmsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson
- Auglýsing -

Í framhaldinu fengu þau fund með fjórum stjórnarmönnum og kröfðust þess, með undirliggjandi hótunum, að Páll yrði látinn fara, að öðrum kosti yrðu trúnaðarupplýsingar úr starfi félagsins birtar opinberlega. Síðasta vor gekk svo mikið á í samskiptum Páls og Önnu Dóru að hann hafði við orð að hann gæti ekki sinnt starfi sínu við þær aðstæður og myndi láta af störfum frekar en sæta áframhaldandi áreiti Önnu Dóru.

Nokkru eftir fundinn í höfuðstöðvum Ferðafélagsins bauð Anna Dóra Róberti Marshall starf framkvæmdastjóra, samkvæmt heimildum Mannlífs. Þetta gerðist í hálendisferð á vegum Ferðafélagsins. Anna Dóra gat ekki staðið við boð sitt  því aðrir í stjórn félagsins féllust ekki á að Páll hætti störfum. Úr varð að stjórnin skipaði forsetanum að láta framkvæmdastjórann og aðra á skrifstofu félagsins í friði og hætta eineltinu. Þetta má í raun túlka sem nálgunarbann. Jafnframt kærði Páll Önnu Dóru fyrir einelti á hendur sér og týndi til fjölmörg dæmi. Upp úr þessu var ríkjandi stjórnarkreppa í félaginu.

Sáttin

Framganga Önnu Dóru gagnvart Páli þótti vera grafalvarleg. Síðastliðið sumar var leitað sátta í málinu og bað hún Pál um að draga mál sitt til baka gegn því að málið yrði leyst á farsælan hátt með hagsmuni Ferðafélagsins að leiðarljósi. Lögmenn þeirra gerðu sátt um þetta mál. Páll skilaði skriflegri sátt frá sinni hlið en forsetinn munnlegri. Sá skilningur var uppi að Anna Dóra myndi hætta með reisn og ekki yrði rætt frekar um eineltið. Í framhaldinu dró Páll til baka kæruna á hendur forsetanum í þeirri trú að samkomulagið héldi og þannig staðið vörð um orðspor félagsins.

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri.

Grunsemdir spruttu svo um að Anna Dóra hygðist ekki standa við samkomulagið. Rætt var um að bera þar upp vantrauststillögu á Önnu Dóru sem forseta ef hún stæði ekki við afsögnina sem sáttin hafði verið gerð um. Grunsemdir reyndust síðan réttar og Anna Dóra sagði af sér embætti í lok september síðast liðins með miklum hvelli. Lýsti hún afsögn sinni sem afleiðingu þess að innan félagsins hefði þrifist kynferðislegt áreiti án þess að brugðist hefði verið við. Stjórn félagsins hefur upplýst að sex mál af þessum toga hafi komið upp á undanförnum fimm árum. Öll hafi þau verið leidd til lykta, ýmist með áminningu, skriflegri áminningu, tiltali, eða afsögn úr stjórn eða starfi. Anna Dóra nefndi í engu einelti sitt á hendur framkvæmdastjóranum.

Hallarbyltingin

Nokkru fyrir afsögnina kynntu Róbert Marshall og Brynhildur Ólafsdóttir, eiginkona hans, nýtt félag um útivist. Félagið nefna þau Útihreyfinguna. Bæði hafa þau starfað um langt árabil innan Ferðafélagsins við ýmis verkefni. Hæst ber þar Landvættaprógrammið sem hefur verið fjölsótt. Þegar nýja hreyfingin var kynnt sögðu þau jafnramt lausum störfum sínum hjá Ferðafélaginu. Um áramót fór síðan Kolbrún Björnsdóttir, fararstjóri Ferðafélags Íslands, út úr félaginu með verkefni sem tengdust kvennagöngum.

Róbert Marshall átti að verða framkvæmdastjóri.

Heimildarmenn Mannlífs töldu að nauðsynlegt væri að setja hina nýju hreyfingu í samhengi við atburðarásina í sumar og afsögn Önnu Dóru. Þetta fólk hafi reynt hallarbyltingu í Ferðafélaginu en þegar það mistókst hafi þau ákveðið að kljúfa sig frá félaginu og taka með sér verkefnin. Aðrir sem hafa verið viðloðandi málið eru Karen Kjartansdóttir, almannatengill og fyrrverandi fréttamaður, og Magnús Orri Schram, eiginmaður Þóreyjar. Magnús Orri hyggur á hótelrekstur í Þjórsárdal.

Tómas í sigtinu

Anna Dóra lýsti á sínum tíma framgöngu Tómasar Guðbjartssonar, stjórnarmanns og fararstjóra, sem hafi sótt fast að fá Helga Jóhannesson, stjórnarmann aftur til liðs við félagið.

Tómas Guðbjartsson læknir.

Helgi sagði af sér eftir að ásakanir komu fram í fjölmiðlum á hendur honum. Tómas hefur rekið til baka þessi ummæli og segir að hann hafi aðeins beðið um að Helgi fengi að hitta stjórnina og skýra sín mál.

Á aðalfundinum í gærkvöld kom fram mikill einhugur. Enginn þeirra sem gagnrýnt hafa stjórn og starfsfólk félagsins voru staddir á fundinum. Ólöf Sívertssen, sem setið hefur í stjórn, var kosin sem forseti félagsins. Þá komu inn tveir nýir stjórnarmenn í stað Önnu Dóru og Margrétar Hallgrímsdóttur. Það eru þær Salvör Nordal og Elín Björk Jónasdóttir.

Ný stjórn FÍ. Myndin er á FB síðu Gísla Más, stjórnarmanns.
F.v. Pétur Magnússon, Elín Björk Jónasdóttir, ný í stjórn, Sigrún Valbergsdóttir, Gísli Már Gíslason, Ólöf Kristín Sívertsen, nýr forseti FÍ, Tómas Guðbjartsson, Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri, Sigurður Ragnarsson og Gestur Pétursson. Á myndina vantar Salvöru Nordal, sem einnig er ný í stjórn. Í baksýn er svo mynd af Skagfjörsskála, en stærsta verkefni FÍ framundan er að endurnýja hann frá grunni. Nýr skáli með sama útliti mun rísa á grunni gamla skálans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -