Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Ferguson lögmaður Sonju sver af sér Guðmund á Núpum: „Bæði undrandi og vonsvikinn með Gumma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

John J. Ferguson, bandarískur lögmaður auðkonunnar heitinnar Sonju Zorilla, aðskilur sig alfarið frá viðskiptum Guðmundar A. Birgissonar, oftast kenndum við Núpa í Ölfusi, sem hefur játað á sig skattsvik og peningaþvætti. Lögmaðurinn segist bæði undrandi og vonsvikinn að heyra af því hvernig er komið fyrir kollega sínum hjá minningarstjóði Sonju.

„Ég hef þekkt Gumma í 25 ár og veit að hann hefur verið í vandræðum vegna gjaldþrots. En ekkert af því tengist sjóðnum því ég einn hef hönd á öllum peningunum frá upphafi og hann hefur ekki haft nokkurn aðgang að þeim. Hvað sem hann hefur gert þá er alfarið engin peningatenging milli sjóðsins og hans persónulegu mála,“ segir Ferguson.

Guðmundur var umsvifamikill fjárfestir fyrir hrun. Hann átti meðal annars hlut í Lífsval sem var eitt stærsta jarðarfélag landsins. Það keypti á fimmta tug jarða víðsvegar um landið, sauðfjárbú, kúabú og réð auk þess yfir rúmlega milljón lítra mjólkurkvóta. Guðmundur játaði sök fyrir dómi en hann var ákærður fyrir 300 milljóna skilasvik og peningaþvætti. Fjárfestirinn var úrskurðaður gjaldþrota í desember 2013. Guðmundi er gefið að sök að hafa haldið frá skiptastjóra þrotabús síns eignum sem hann átti á Spáni og í Bandaríkjunum og komið undan málverki. Hann hefur nú játað brot sín fyrir dómi.

Sjá nánar hér: Hulinn sjóður Sonju og meinst svikaslóð frændans.

Guðmundur A. Birgisson

Sonja Zorila hagnaðist vel á viðskiptum á Wall Street. Minningarsjóði hennar, Sonja Foundation, var ætlað að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur verið fjallað um að eignir Sonju um aldamótin hafi verið um tíu milljarðar króna. Lítið sem ekkert hefur enn fengist uppgefið um sjóðinn sem varð til við andlát auðkonunnar og áttu allar eignir hennar, að undanskildum lágum upphæðum sem systrabörn hennar fengu, að renna í sjóðinn.

„Hvað sem Gummi hefur gert af sér persónulega hefur ekkert að gera með dánarbú Sonju eða sjóðinn.“

Guðmundur ræktaði mjög sambandið við Sonju um árabil áður en hún lést og vann traust hennar. Sonja átti miklar eignir á Flórída og í New York. Þá átti hún íbúð á Ísland og sumarhús á Núpum, landareign Guðmundar. Auk þess átti hún Rolls Royce bifreið sem geymd var á Núpum. Athyglivert er að meint svikaslóð Guðmundar liggur um sömu svæði og eigur auðkonunnar var að finna. Sonja átti veglegt málverkasafn, íbúðir á Flórída og á Park Avenue í New York þar sem skatturinn hefur komist á snoðir um leyndar eignir Guðmundar.

- Auglýsing -

Allt frá því Sonja lést hefur leyndarhjúpur verið um eignir hennar og ekkert spurts til sjóðsins eða úthlutana úr honum. Guðmundur hefur sjálfur farið undan í flæmingi þegar fjölmiðlar hafa spurt um sjóðinn eða afdrif eignanna. Allt frá því Sonja lést árið 2002 er minningarsjóður hennar enn í sama myrkri og hann hefur verið undanfarin 18 ár.

John J. Ferguson, lögmaður Sonju á sínum tíma og annar umsjónarmanna styrktarsjóðs Sonju.

Saman eru þeir Ferguson og Guðmundur umsjónarmenn minningarsjóðsins. Aðspurður segir Ferguson að upprunalega hafi verið í sjóðnum því sem nemur hálfum milljarði króna og því hefur að mestu verið úthlutað til góðgerðarmála. Hann segir að málverk hafi verið seld á sínum tíma og söluandvirði þeirra verið meðal þess sem rann í sjóðinn en að engar fasteignir hafi runnið þangað inn. Mannlíf óskaði formlega eftir yfirliti frá sjóðnum um hvaða upphæðir og hvert þær hafi runnið úr sjóðnum frá stofnun. Ferguson neitaði að afhenda þær upplýsingar. „Þetta eru trúnaðarupplýsingar og eru því ekki ætlaðar til opinberrar birtingar.“

Spurningunni um hvort ekki hafi verið andvirði 10 milljarða til ráðstöfunar eftir lát Sonju svaraði Ferguson því hlæjandi. Honum var hins vegar augljóslega brugðið þegar Mannlíf sagði honum frá því að Guðmundur hafi játað á sig skattsvik og peningaþvætti.

- Auglýsing -

„Ég held að Sonja hafi aldrei átt svona mikinn pening en það mesta úr sjóðnum hefur verið úthlutað til góðgerðarmála í gegnum árin. Það er eitthvað eftir í sjóðnum. Hvað sem Gummi hefur gert af sér persónulega hefur ekkert að gera með dánarbú Sonju eða sjóðinn. Sjóðurinn stendur fyllilega í skilum við skattayfirvöld og er algjörlega hreinn. Ég finn til með Gumma því hann kom mér ávallt fyrir sjónir sem sannkristinn maður og vingjarnleg persóna. Því er ég bæði undrandi og vonsvikinn. Frá persónulegu sjónarmiði hef ég ekkert að gera með hann og hef ekki þekkingu á hvaðan peningar hans komu,“ segir Ferguson.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -