Fimm góðar til að viðhalda sólinni í sálinni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Haustið er komið. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því. Jafnvel þótt við fáum ennþá einn og einn sólardag eru kvöldin orðin dimm og köld og þá jafnast fátt á við að hreiðra um sig í sófanum og láta sig dreyma um endalaust sumar með aðstoð góðra kvikmynda.

Bandaríska tímaritið Vogue tók saman lista yfir kvikmyndir sem hrífa áhorfandann með sér í sólríka sumarstemningu á fjarlægum slóðum og við getum ekki annað en verið sammála þeim um valið. Þetta eru svo sannarlega sumarmyndir sem standa undir nafni og ekki spillir fyrir að ljúfsár nostalgía fylgir áhorfi á þær flestar. Verði ykkur að góðu.

Call Me By Your Name

Hin rómaða kvikmynd Luca Guadagnino frá 2017 bauð upp á dásamlegt sýnishorn af tísku fyrri hluta níunda áratugarins, seiðandi sviðsmynd og óviðjafnleg hughrif frá ítölsku sumri. Gerist ekki mikið betra.

Grease

Ah, Sandy og Danny. Hefur eitthvert par hrifið okkur jafn mikið? Sögur af sumarást í upphafi skólaárs á líka vel við á þessum árstíma og ekki spillir dásamleg tónlistin fyrir. Leyfið ykkur bara að verða unglingar aftur. Það kemst enginn að því.

Roman Holiday

Fáar borgir jafnast á við Róm og hún hefur sjaldan notið sín betur í kvikmynd en í þessari fyrstu stórmynd sem Audrey Hepburn lék í. Söguþráðurinn er kannski óttalegt bull en sjarmi Rómar, Audrey og Gregory Peck fær mann fljótt til að gleyma því. Sakbitin sæla eins og þær gerast bestar.

Dirty Dancing

Er þetta ekki ein vinsælasta myndin til að horfa á í náttfatapartíum ungpía á öllum aldri? Allavega fátt sem toppar þessa mynd í að koma manni í dansstuð. Og hver segir að það sé bannað að dansa einn heima í stofu? Látið það bara eftir ykkur. Við skulum engum segja.

The Talented Mr Ripley

Jude Law án pjötlu á kroppnum, meðan hann var enn fagur eins og guð, ítalskt landslag eins og það gerist best, óhugnanlegur undirtónn, góð saga og snilldarleikur Matt Damon og Pilips Seymour Hoffman. Það er nú varla hægt að biðja um meira í einni og sömu myndinni. Eini gallinn er að maður verður svo heillaður af ítalska sumrinu að mann langar helst aldrei að koma til Íslands aftur. En það eru til verri hlutir en það. Hjálpar allavega til við að gleyma myrkrinu og rigningunni um stund. Við eigum það skilið.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira