2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Fiskistofa vissi ekki af auknum kröfum til hvalveiða og getur ekki afturkallað leyfið

„Við höfum hins vegar engin þvingunarúrræði hjá okkur til að knýja á um að gögnunum sé skilað og við getum til dæmis ekki afturkallað veiðileyfi þeirra,“ hefur Fréttablaðið eftir Eyþóri Björnssyni fiskistofustjóra í dag, mánudag.

Blaðið gerir heimildarleysi Fiskistofu til þvingunaraðgerða gagnvart fyrirtækinu að umfjöllunarefni. Hvalur hf. hefur ekki skilað inn dagbók um veiðarnar sem gerð er krafa um að skipstjóri hvalveiðiskips haldi vegna veiða á langreyðum. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Fiskistofa hafi ítrekað óskað eftir afriti af dagbókunum vegna veiða fá árinu 2014, 2015 og 2018.

Auknar kvaðir eru gerðar til heimildar á veiðum á langreyði með breytingum árið 2014. Þó kemur fram í frétt Fréttablaðsins að Fiskistofa hafi ekki áttað sig á þessum breytingum fyrr en eftir að leyfi hafði verið veitt. Í febrúar var Hval veitt nýtt leyfi samkvæmt sama fyrirkomulagi án þess þó að gögnin hafi verið afhent. Heimild til að afturkalla leyfið vegna þessa vanefnda er þó ekki að finna og því getur Fiskistofa ekki þvingað fyrirtækið. Eyþór segir Fiskistofu vera að fara yfir málið og kalla eftir gögnunum.

Reglum um hvalskurð aldrei fylgt

Árið 2009 voru settar reglur um að hvalskurður stórhvela skuli gerast innandyra enda um matvæli að ræða. Í ágúst árið 2018 greindu fjölmiðlar hins vegar frá því að þeim reglum hefði Hvalur hf. aldrei fylgt. Kröfunni var síðar breytt og ekki lengur gerð krafa um yfirbyggðan skurð. Sú breyting átti sér stað aðeins tíu dögum eftir að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. sendi Krist­jáni Þór Júl­í­us­syn­i ­sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra tölvupóst þar sem hann óskaði eftir að reglur yrðu rýmkaðar. „Tíu dögum síðar skrif­aði ráð­herra undir breyt­ingu á reglu­gerð­inni. Í henni fólst meðal ann­ars að 10. gr í reglu­gerð­inni var breytt á þann veg að ekki var lengur gerð krafa um að skera hval á yfir­byggðum skurð­ar­flet­i,“ segir í umfjöllun Kjarnans af málinu. Samkvæmt tölvupóstunum telur Hvalur sig hafa náð betri árangri með öðrum aðferðum en að byggja yfir skurðinn.

AUGLÝSING


Eftirlausar hvalveiðibyssur

Stundin sagði frá því í október 2018 að engin leyfi hafi þá fundist fyrir fjórum skutulbyssum sem notaðar hafa verið við veiðar á langreyð. Í raun voru byssurnar utan eftirlits. „Leyfi fyrir þeim finnst ekki á pappírsformi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en skip fyrirtækisins komu til landsins á árunum 1964 og 1965. Vopnin hafi því nú verið skráð í rafræna skotvopnaskrá Ríkislögreglustjóra,“ segir í frétt Stundarinnar af málinu. Þá kemur fram að á þeim tíma hafi hvorki Vinnueftirlitið né samgöngustofa haft eftirlit með vopnunum en að Vinnueftirlitið hafi eftirlit með sprengihleðslum sem fara í byssurnar.

Hvalmjöl sem ekki er til manneldis heimilað í bjór

Einn umdeildasti bjór íslands fór í sölu árið 2014 en bjórinn var bruggaður með hvalmjöli frá Hval hf. þrátt fyrr að fyrirtækið hafi ekki haft heimild til slíkrar framleiðslu til manneldis. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og núverandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, veiti heimild til sölunnar þrátt fyrir að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi áður bannað framleiðsluna.

Fiskistofa í molum

Ríkisendurskoðun birti síðastliðinn janúar stjórnsýsluúttekt vegna eftirlits Fiskistofu. Í skýrslunni kemur fram að styrkja þurfi eftirlit Fiskistofu til að styðja markmið um sjálfbæra og ábyrga nýtingu fiskimiða. Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli að eftirlit sé veikt, stofnunina skorti úrræði og aðföng til að sinna hlutverki sínu sem og að eftirlit með brottkasti sé veikburða og ómarkvisst.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is