Fimmtudagur 2. desember, 2021
1.8 C
Reykjavik

Fjallkonan afhjúpuð í fyrramálið: Skartar Binni Glee skautinu á Austurvelli?

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Mikil leynd hvílir yfir ásjónu, ræðu og ljóðmælgi fjallkonu Íslands, sem stígur á svið við Austurvöll klukkan ellefu í fyrramálið og frumflytur sérsamið ljóð fyrir íslensku þjóðinni í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslendinga. Svo mikil dulúð ríkir yfir valinu þetta árið að ekki einu sinni starfsmenn Árbæjarsafns, sem varðveita skautbúning fjallkonunnar árið um kring og færa Reykjavíkurborg fatnaðinn á hverju ári í tæka tíð fyrir hátíðarhöldin, vita hver það er sem klæðist búningnum og stígur á svið til að ávarpa þjóðina. „Nei, það er bara einn sjálfstætt starfandi sérfræðingur, utan viðburðateymis Ráðhússins, sem veit svarið við þeirri spurningu,“ svarar Ágústa Rós Árnadóttir, verkefnastjóri viðburða Borgarsögusafns aðspurð en Ágústa Rós stýrir hátíðarhöldum á Árbæjarsafni á morgun. „Það er klæðskerinn, Oddný Kristjánsdóttir, sem jafnframt er eigandi Þjóðbúningastofunnar 7íhöggi. Það er smár hópur starfsmanna borgarinnar sem veit þetta mikla leyndarmál. Og hvorki viðburðateymi né klæðskeri hafa mælt stakt orð frá vörum.“

Glæsilega ber hún skautbúninginn, fjallkonan á Árbæjarsafni árið 2020 – Ljósmynd: Roman Gerasymenko

Skautbúningurinn er ansi fagur á að líta og var saumaður á síðustu öld, en Ágústa Rós segir algilt að ýmist þurfi að þrengja eða víkka búninginn á hverju ári, þar sem sama fjallkonan stígi aldrei á svið tvisvar sinnum. „Þegar fjallkonan hefur svo verið afhjúpuð á morgun við Austurvöll er búningnum ekið beint aftur á Árbæjarsafnið í fylgd Oddnýjar klæðskera, sem skautar unga stúlku hér á safninu og heldur sýnikennslu um leið fyrir gestum safnsins,“ segir Ágústa. „Þetta verður skemmtilegt, því á morgun læra gestir að skauta búning fjallkonunnar, fræðast um hefðbundna þjóðbúninga á borð við peysuföt og allir þeir sem mæta í þjóðbúning fá ókeypis aðgang inn á safnið. Þeir gestir sem koma í venjulegum fatnaði þurfa hins vegar að greiða aðgangseyri.“

Binni Glee skartar bleikum 50´s kjól á viðburðasíðu borgarinnar og spyrja margir hvort hann klæðist skautbúning á 77 ára afmæli íslenska lýðveldisins

En það er ekki bara íslenski þjóðbúningurinn sem er ígildi aðgangseyris á morgun á Árbæjarsafninu. „Allir þjóðbúningar heims eru velkomnir á safnið á morgun og við fögnum öllum þeim sem klæðast sínum þjóðfatnaði, óháð uppruna,“ klykkir Ágústa Rós út með og bætir því við að danshópurinn VikiVaki muni stíga á stokk með gestum. „Danshópurinn mun leiða gesti gegnum sagnadansa og gömlu dansana og auðvitað vonum við að sem flestir mæti í þjóðbúning að eigin vali og taki sporið.“

Fjallkonuræðuna flutti Edda Björgvinsdóttir, leikkona, á síðasta ári og bar skautið með glæsibrag

Oddný Kristjánsdóttir klæðskeri vildi hins vegar lítið segja í viðtali við blaðamann, enda bundin algerum trúnaði við borgaryfirvöld. „Fjallkonan er aldrei afhjúpuð fyrr en á Asturvelli, en valið fer mjög leynt á hverju ári. Nefndin sem fer fyrir valinu er fámenn og ákvörðun er tekin á stjórnstigi borgarinnar en ég fæ fjallkonuna til mín á hverju ári og með henni fylgir einn starfsmaður borgarinnar, sem gætir þess að enginn komi að okkur meðan á mátun stendur. Ég get auðvitað ekki sagt hver verður fyrir valinu í ár, leyndin er svo mikil að við liggur að við þurfum að hittast seint að kvöldi og um nætur. Og ég má ekki segja neitt. Þetta kemur allt í ljós á morgun.“

Dagskrá Reykjavíkurborgar á morgun, þann 17. júní 2021, má sjá HÉR

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -