Undanfarnar vikur og mánuði hafa lögreglumenn þurft að leita sér hjálpar; farið í veikindaleyfi vegna mála sem eru á meðal þeirra þyngstu er hafa komið upp hér á landi.
Formaður Landssambands lögreglumanna segir að afar oft hafi verið varað við stöðunni:
„Lögregla kemur á vettvang og gerir sitt og áfallið kemur ekki þegar þú ert að vinna verkefnið. Það kemur ekki fyrr en þú ert kominn heim til þín, hittir börnin þín,“ segir Fjölnir Sæmundsson, sem er formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við RÚV.
Þetta árið hefur þremur börnum verið ráðinn bani; fjórum fullorðnum.
Tekur Fjölnir það fram að hann vilji ekki láta öll þessi afar sorglegu mál snúast um viðbragðsaðila; vottar aðstandendum samúð:
„Svona áföll koma eftir á, þegar fólk jafnvel mætir í vinnu aftur og finnur svo hvað það er erfitt að vera í vinnunni og ég veit til þess að fólk hefur óskað eftir meiri aðstoð. Það hafa verið margir viðrunarfundir og fólk er að nýta sér sálfræðiaðstoð sem ríkislögreglustjóri býður upp á,“ segir hann og bætir við:
„En auðvitað þegar svona kemur upp að þá eru bara fyrstu viðbrögð hjá mér og mörgum hjá lögreglunni; við erum búin að segja ykkur þetta. Við erum búin að tala og tala um þetta heillengi. Það er aukinn vopnaburður, það er aukin harka og fyrstu viðbrögð eru eins og enginn hafi verið að hlusta.“
Fjölnir nefnir að „það hafa verið ónot yfir þessum aukna vopnaburði sem lögreglumenn hafa auðvitað séð í sínum störfum. Fólk er vopnað – það er verið að stoppa bíla, unglingar eru vopnaðir – og eins og við höfum sagt: Ef þú berð hníf þá er alltaf hætta á að þú notir hann, þó þó ætlir þér það ekki.“
Fjölnir er á þeirri skoðun að það hafa verið mistök að fækka hverfislögreglustöðvum; að gjá hafi myndast á milli almennings í landinu og lögreglunnar – nú þegar fólk hefur ekki eins greiðan aðgang að lögreglunni:
„Það þarf líka að auka sektir við vopnaburði og stoppa innflutning á vopnum til landsins. Það þarf að taka harðar á þessu, að fólk megi ekki bera vopn á sér eða flytja inn vopn.“
Fjölnir segir það kunnuglegt stef að fara í átak til að bæta stöðuna; átak er síðan renni sitt skeið á enda, og það bara megi ekki gerast:
„Þetta er bara hræðilegt ástand og ég hef bara varla getað tjáð mig um þetta. Þetta er svo mikil sorg fyrir þetta fólk sem á ættingja sem hefur týnt lífi síðustu ár. Og við erum komin með barnamorð. Þetta er bara óskiljanlegt,“ segir Fjölnir.