Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Flöskuhálsinn í Fossvogi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bráðamóttaka Landspítalans er orðin eins og umferðarmiðstöð og sífellt fleiri ílengjast lengur en heppilegt getur talist. Starfsfólkið er undir miklu álagi en hefur mestar áhyggjur af örygginu á vinnustaðnum. „Maður er mjög oft hugsi. Gerðum við eins vel og við gátum?“

„Þegar við erum að tala um hvað það er mikið álag og hvað það er mikið að gera hjá okkur þá veit ég ekki hvort fólk veit hvað við þurfum að eiga við. Bráðamóttakan er 36 rúma-deild og við getum komið fyrir 14 bekkjum á ganginum hjá okkur. Við erum með 14 lazyboy-stóla, við erum með biðstofuna frammi og venjulega stóla og stundum er staðan þannig að öll þessi sæti eru upptekin. Og það geta verið snúnir dagar.“
Þetta segir Ágústa Hjördís Kristinsdóttir, hjúkrunarsérfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, en greint var frá því í vikunni að föstudaginn 13. september hefðu innlagðir sjúklingar á deildinni verið 41. sEn þetta var langt í frá einstakur dagur, að sögn Hjördísar. Þetta var líka „mánudagur í mars … sunnudagur í júlí … það eru alltaf þessir svakalegu álagsdagar og hversu marga svoleiðis ætlum við að upplifa áður en við bregðumst við?“ spyr hún.

„Okkur stendur ekki á sama; ekki um sjúklingana og ekki um kollegana.“

Öðruvísi að liggja á bráðadeild
Álagið á Landspitalanum hefur lengi verið í umræðunni, ekki síst í tengslum við öryggi sjúklinga og kjarasamninga hjúkrunarfræðinga. Hvað bráðamóttökuna varðar er ljóst að fjölgun hjúkrunarfræðinga þar, hvort sem er með fyrirheitum um betri kjör eða annað, leysir ekki vandann. „Mönnunin á bráðamóttökunni hefur, ótrúlegt en satt, haldist ótrúlega vel. Þetta er öflugur staður að vinna á,“ segir Hjördís. „Þú finnur svo vel áhrifin af hjúkrun þinni og störfum. Við eigum ekki í vandræðum með að manna okkar stöður en við höfum miklu meiri áhyggjur af því hvernig húsið er mannað af hjúkrunarfræðingum.“

Vandamálið er, líkt og oftsinnis hefur komið fram, að spítalinn er yfirfullur þar sem illa gengur að útskrifa sjúklinga, oft aldraða, í önnur úrræði. Þetta veldur því að flöskuháls myndast í innlögnum inn á spítalann af bráðamóttökunni.

En hvernig blasir vandinn við Hjördísi þegar hún mætir á vaktina?
Eitt af hlutverkum hennar sem hjúkrunarfræðings á bráðamóttökunni er vaktstjórn. Þegar hún mætir, t.d. á morgunvakt, tekur hún við vaktinni og fær upplýsingar um skjólstæðinga deildarinnar. Hjördís segir ekki óalgengt að á morgnana séu um 50 sjúklingar á deildinni, þar af helmingur sem bíður þess að leggjast inn. Þá séu jafnan einhverjar yfirsetur, þ.e. sjúklingar sem þarfnast aukins eftirlits, og einhverjir sem þarf að hafa sérstaka gát á, þ.e. þarfnast tæknilega flókinnar hjúkrunar.

Aðrir eru ekki jafnveikir en þarfnast engu að síður þjónustu, t.d. lyfjagjafa á réttum tíma og að fá að borða og fara á salernið. Hjördís bendir einnig á að það sé allt öðruvísi að liggja inni á bráðadeild en öðrum deildum. „Ljósin á göngunum eru til dæmis aldrei slökkt þótt þú liggir þar alla nóttina. Við getum það ekki, við erum að skoða sjúkinga alla nóttina á ganginum,“ segir hún. Þá sé hætt við að fólki finnist það vera fyrir. „Við erum kannski búin að færa sjúklinginn fimm sinnum áður en hann fer upp á deild.“ Álagið á deildinni bitni ekki síður á sjúklingunum en starfsfólkinu.

Hjördís segir þennan mikla fjölda innlagðra sjúklinga á bráðamóttökunni hafa aukið álagið til muna. Þeir þarfnist þess að komast áfram inn á spítalann til að fá viðeigandi þjónustu en eins og sakir standa sé ætlast til þess að starfsfólk bráðamóttökunnar veiti hana á sama tíma og það hleypur til við að taka á móti sjúkrabílunum. Hún líkir bráðamóttökunni við stoppistöð sem sé allt í einu orðin að risastórri samgöngumiðstöð, þar sem hjúkrunarfræðingarnir berjast við að afgreiða lestar áfram og hringja í leigubíla og svo framvegis.

- Auglýsing -

Föst í umferðinni
Hjördís segist telja að þetta sé eitthvað sem fólk misskilur oft þegar talað er um í fjölmiðlum að svo og svo margir liggi inni á bráðamóttökunni. „Það eru ekki 40 manns á bráðamóttökunni; það eru 100 manns á bráðamóttökunni en 40 ættu a vera komnir í farveg annars staðar,“ segir hún. Því sé það nú stór partur af starfinu að hafa yfirsýn yfir ástandið á spítalanum almennt.

„Ég þarf að fara yfir það; ok, þetta er hjartadeildin … hverjir passa inn þar? Þessi og þessi eru að fara þangað, þessir á skurðdeildina … þessir eiga að fara á lungnadeildina; ég er með tvo með lungnasjúkdóm, hvorn á ég að senda? Og svo erum við líka að horfa á hvar sjúklingarnir búa; getum við sent þá á Selfoss, í Keflavík, á Akranes? Þannig að maður er mikið í umferðarstjórn.“

„Maður er mjög oft hugsi. Gerðum við eins vel og við gátum? Þarf ástandið að vera svona?“

Að sögn Hjördísar er þrátt fyrir allt lúxus að vinna á bráðamóttökunni. Störfin séu krefjandi en jafningjastuðningurinn mikill. En hvernig er fólk statt andlega og líkamlega eftir vaktina?
Hjördís þarf aðeins að hugsa sig um áður en hún svarar. „Maður er mjög oft hugsi. Gerðum við eins vel og við gátum? Þarf ástandið að vera svona? Manni finnst alltaf verið að krefjast þess að við setjum viðmiðin okkar á nýja staði. Það var hræðilegt að vera með 5 innlagða sjúklinga. Við vorum miður okkar þegar þeir voru orðnir 15. Allir voru brjálaðir þegar þeir urðu 20 og ég veit ekki hvert fólk ætlaði þegar þeir voru orðnir 30. Núna eru þeir 40.“

- Auglýsing -

Hún segir álagið vissulega hafa áhrif. „Okkur stendur ekki á sama; ekki um sjúklingana og ekki um kollegana,“ segir Hjördís. Hún segir hjúkrunarfræðinga upplifa að það sé ekki hlustað á þá. „Það fer heill hellingur af fjármunum í heilbrigðiskerfið en við þurfum að nýta þá betur,“ segir hún. Heilbrigðisstarfsmenn séu að hætta en ekki vegna þess að það sé bókstaflega að bugast. „Fólk er að hætta því það vill ekki veita þá þjónustu sem núna stendur til boða.“

Fá ekki að blómstra í starfi

Greint var frá því í Morgunblaðinu í vikunni að það sem af er þessu ári hefur 481 atvik átt sér stað á bráðamóttöku Landspítalans þar sem eitthvað hefur farið úrskeiðis við meðhöndlun sjúklinga. Hefur þeim farið fjölgandi síðustu ár. Samkvæmt rannsóknum má oftar rekja atvikin til aðstæðna frekar en mistaka einstakra starfsmanna.
„Atvikin geta verið misalvarleg,“ segir Hjördís. „Þau geta snúist um það að lyfjagjöfin á sér ekki stað á réttum tíma eða að lyfjagjöfin er röng,“ tekur hún sem dæmi. „En þetta eru atvik sem verða af því að við erum ekki að sinna þjónustunni eins og lagt er upp með.“

„Atvikin geta verið misalvarleg,“ segir Hjördís. „Þau geta snúist um það að lyfjagjöfin á sér ekki stað á réttum tíma eða að lyfjagjöfin er röng,“ tekur hún sem dæmi. „En þetta eru atvik sem verða af því að við erum ekki að sinna þjónustunni eins og lagt er upp með.“

Hún segir öryggismálin vera eitt af því sem sé efst á forgangslista hjúkrunarfræðinga.
„Það er tvennt sem mér finnst ég heyra; það eru hærri laun og betra starfsumhverfi. Betra starfsumhverfi snýst um að hver hjúkrunarfræðingur sé með færri sjúklinga svo við getum tryggt þeirra öryggi og okkar öryggi. Betra starfsumhverfi eru tæknilausnir sem við getum nýtt okkur þannig að við séum ekki að vinna með gamla tækni og vera eftir á í þessari tæknibyltingu.“

Þá segir Hjördís mikilvægt að hjúkrunarfræðingar fái rými til að vinna að umbótum og sinna öðrum verkefnum á borð við kennslu. Í dag sé starfskröftum þeirra mestmegnis varið í endalausan „mokstur“, enginn tími gefist til að finna út úr því hvernig gera megi moksturinn auðveldari.
Ástandið skili sér í mikilli streitu

„Það er mikil hætta á kulnun meðal hjúkrunarfræðinga, sérstaklega þegar það er svona mikið yfirflæði og fólk fer af vaktinni með þá tilfinningu að það hafi ekki náð að klára verkefnin sín. Þú ert alltaf að moka skurðinn en færð ekki að blómstra í starfi; nýta styrkleika þína sem best.“

  • Á hefðbundinni morgunvakt eru um 13-14 hjúkrunarfræðingar á vakt á bráðamóttökunni, 6 sjúkraliðar og 4-6 starfsmenn Eflingar. Hjúkrunarfræðingarnir vinna 8-12 tíma vaktir.
  • Um þessar mundir er meðalinnlagnartími á bráðamóttökunni 22 tímar, þ.e. tíminn sem innlagðir sjúklingar bíða á deildinni eftir að komast áfram inn á spítalann. Hjördís segir gæðaviðmiðið á heimsvísu 4-6 tíma.
  • Auk annarra veikra sjúklinga er alltaf eitthvað um yfirsetur á hverri vakt en það eru sjúklingar sem einhverra hluta vegna þurfa aukið efirlit, t.d. vegna andlegs ástands. Þá er einnig talað um gátsjúklinga en þeir þarfnast mikillar þjónustu veikinda sinna vegna, t.d. eftirlit með lífsmörkum, blóð- og lyfjagjöf.
  • Bráðamóttakan tekur á móti 100 til 200 skjólstæðingum á dag en um 86% þeirra útskrifast heim til sín samdægurs.
  • Klukkan 12 á fimmtudaginn voru 49 sjúklingar á bráðadeildinni í Fossvogi og 24 sjúklingar á bráða- og göngudeildinni í Fossvogi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -