• Orðrómur

Flótti frá Samfylkingu yfir í Framsókn- Ingibjörg Sólrún ánægð með Sigrúnu Elsu

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Talsverður uggur er ríkjandi innan Samfylkingar vegna þess að þungavigtarfólk er að yfirgefa flokkinn og ganga til liðs við Framsóknarflokkinn. Þannig eru tveir úr þungavigt Samfylkingar komnir á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur til næstu alþingiskosninga. Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, skipar þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík norður. Hún er fyrrverandi varaþingmaður Alþýðuflokksins og einn af stofnendum Samfylkingar.

Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingar, skipar þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavík suður. Hún útskýrir flokkaskiptin á Facebook. Skilja má á henni að baráttugleðin innan Samfylkingar sé dvínandi.

„Ég gaf fyrst kost á mér til stjórnmálaþátttöku því ég hreifst af umbótavilja og framkvæmda gleðinni hjá Reykjavíkurlistanum. Það var frábær, gefandi og góður tími sem ég lít til baka á með stolti. Það má segja að nú gefi ég kost á mér á ný því ég finn sömu kraftana innan Framsóknarflokksins. Mér leist vel á nýja forystu flokksins fyrir síðustu kosningar og enn betur eftir þetta kjörtímabil. Þau hafa sannað sig svo um munar og ég hlakka til að taka þátt í starfinu… þetta verður svo gaman!“.

Eftir því er tekið að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingar, sýndi velþóknun sína með því að setja „like“ við færslu Sigrúnar Elsu um flokkaskiptin. Sama gerir Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi ráðherra Samfylkingar. Ekkert hefur þó komið fram um að ánægjan sé vísbending um að Ingibjörg eða Katrín muni kjósa Framsóknarflokkinn. Þá sýndi Helgi Hjörvar, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingar, velþóknun sína.

Innan Samfylkingar hefur verið mikil óánægja með það að reyndu fólki hefur verið hafnað við val á framboðslista og nýtt fólk hefur tekið við keflinu. Flokkurinn gekk í gegnum mikið áfall árið 2013 þegar fylgi hans hrundi og flokkurinn missti um helming fylgi síns. Enn syrti í álinn 2016 þegar flokkurinn þurrkaðist nánast út. Það varð honum til bjargar að Logi Einarsson, núverandi formaður varð landskjörinn í Norðausturkjördæmi og dró með sér tvo uppbótarþingmenn. Árið 2017 fékk flokkurinn, undir stjórn Loga Einarssonar, sjö þingmenn. Kannanir hafa undanfarið sýnt að flokkurinn á undir högg að sækja og er fjarri því að ná fyrri stöðu að vera með yfir 32 prósenta fylgi svo sem gerðist í formennskutíð Össurar Skarphéðinssonar. Nýjustu mælingar benda til þess að Samfylking fái 13 prósenta fylgi sem er talsvert meira en í kosningum en langt undir væntingum.

Bersýnilegt er að Framsóknarflokkurinn ætlar sér stóra hluti í Reykjavík þar sem flokkurinn hefur lengi glímt við fylgisleysi. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leiðir í Reykjavík norður. Hann nýtur gríðarlegra vinsælda fyrir störf sín í þágu barna og efnaminna fólks. Þá er listinn poppaður hressilega upp með áhrifavaldinn Brynju Dan Gunnarsdóttur, frumkvöðul og framkvæmdastjóra, í öðru sæti

- Auglýsing -

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, leiðir framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður. Hún hefur notið gríðarlegra vinsælda og gjarnan verið talin formaður framtíðarinnar. Jafnréttisbrot hefur sett kusk á hvítflibba hennar. Í öðru sæti á eftir henni er Aðalsteinn Haukur Sverrisson framkvæmdastjóri og í þriðja sæti er Sigrún Elsa.

Ljóst má vera að Framsóknarflokkurinn tjaldar öllu til svo hann nái fótfestu í Reykjavík. Og helstu veiðilendur hans eru þar sem Samfylking hefur áður sótt fylgi sitt.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -