Sunnudagur 27. nóvember, 2022
1.8 C
Reykjavik

Flúði slökkviliðið vegna áreitis: „Ég óskaði eftir sálgæslu eftir mjög erfitt útkall og það þótti afskaplega fyndið og mikill aumingjaskapur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig,“ segir Andrea Björk Sigurvinsdóttir, sem var eina konan í slökkviliði Fjarðabyggðar þegar hún hóf störf þar sumarið 2017. Hún hafði reynslu af sjúkraflutningum og brennandi áhuga á starfinu, sótti sér aukna menntun í því og lagði sig alla fram. Fljótlega fór þó að bera á því að ýmsir samstarfsmenn hennar voru ekki hrifnir af því að fá konu sem starfsfélaga og Andrea upplifði síendurtekið áreiti innan slökkviliðsins sem endaði með því að hún brotnaði saman og hætti samkvæmt læknisráði. Hún hefur nú lagt fram formlega kvörtun vegna kynbundins áreitis og eineltis eftir að hafa ítrekað verið hunsuð af yfirmönnum slökkviliðsins þegar hún kvartaði. Á endanum hrökklaðist hún úr bænum og flutti til Dalvíkur ásamt eiginmanni og börnum, en hún er enn óvinnufær og treystir sér ekki ein út í búð, hvað þá meira, svo djúpstæð áhrif hafði eineltið á hana.

„Ég fór að vinna hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar strax eftir að ég útskrifaðist sem þroskaþjálfi,“ útskýrir Andrea beðin að segja frá tildrögum þess að hún hóf störf hjá slökkviliðinu. „Ég hafði verið í sjúkraflutningum á Þórshöfn, þar sem ég bjó áður en ég flutti til Reyðarfjarðar, og var menntuð sem slíkur. Til að byrja með var ég í hlutastarfi hjá slökkviliði Fjarðabyggðar, sinnti millistofnanaflutningum og öðrum tilfallandi störfum. Þann 1. ágúst 2017 réði ég mig inn á vaktir, var eina konan í slökkviliðinu og þurfti náttúrlega að mæta öllum þeim áskorunum sem því fylgdu. Ég er mjög grönn og lít ekki út fyrir að vera sterk líkamlega og fljótlega eftir að ég byrjaði fór ég að finna fyrir leiðindaskotum um að ég væri nokkurs konar aðskotahlutur í liðinu. Mér var haldið utan við það sem aðrir voru að gera, var í rauninni bara á hliðarlínunni, og það var mjög áþreifanlegt að nokkrir mannanna í liðinu vildu ekki hafa konu í þessu starfi.“

„Ég er að vinna að því að koma mér út í samfélagið og verða ég sjálf aftur. Ég þekki ekki sjálfa mig lengur og þrái ekkert heitar en að losna út úr þessu ástandi.“ Mynd / Auðunn Níelsson

Var hætt að þora á kaffistofuna

Andrea lagði fram kvörtun til yfirmanns síns vegna kynbundins áreitis eftir að hafa reynt án árangurs að vera metin að verðleikum innan liðsins. „Ég var farin að heyra hvernig var talað um mig,“ útskýrir hún. „Að ég gæti ekkert gert, væri ekki nógu sterk og svo framvegis. Ég lagði mig alla fram í starfinu, reyndi að vera allra en það var ekki hægt. Ég varð því mjög ánægð þegar slökkviliðsstjórinn kallaði mig inn á skrifstofu og sagðist vera búinn að taka eftir áreitinu og vildi heyra hvernig ég hefði það. Áreitið kom aðallega frá einum starfsmanni til að byrja með en það vatt upp á sig og ég ákvað að leggja fram formlega kvörtun. Ég var þá byrjuð í atvinnunámi slökkviliðsmanna sem er árslangt lotunám, til að fá löggildingu sem atvinnuslökkviliðsmaður. Þá þurfti ég að vera alla daga á slökkviliðstöðinni og mæta á allar vaktir, ekki bara mína vakt en þar mætti ég alltaf fullum skilningi og stuðningi. Aðrar vaktir voru ekki á þeirri línu og ég mætti mjög leiðinlegri framkomu frá þeim. Ég var hætt að fara inn í kaffistofu, fór heim í matartímanum og gerði allt til að forðast að vera í samskiptum við þá. Einn starfsmaður var farinn að sýna mér ógnandi framkomu og mér leið sífellt verr. Lengi reyndi ég að réttlæta þetta með því að þetta væri eðlilegt þar sem ég væri kona sem væri að ráðast inn í karlaveldi og þess vegna þyrfti ég bara að læra að höndla þetta áreiti sem eðlilegan hluta af því að vera í slökkviliði, sem var náttúrlega fáránleg hugsun. Auk þess að ég var hreinlega farin að velta fyrir mér hvort þetta væri ímyndun í mér, staðan væri alls ekki svona slæm. Það er nefnilega ótrúlegt hvað kvíði getur brenglað hugsunina hjá manni.“

Eftir að Andrea lagði fram kvörtunina kallaði slökkviliðsstjórinn hana og þann sem atkvæðamestur var í áreitinu á sinn fund til að ræða málið og reyna að koma á sáttum. „Það var náttúrlega alls ekki þægilegur fundur,“ segir Andrea. „Eiginlega bara mjög óþægilegur. Hann viðurkenndi ekki að hann væri að gera neitt rangt, sagði að kannski þyrfti hann að venja sig á að vera aðeins blíðlegri í framkomu við alla, hann væri bara svona. Slökkviliðsstjórinn vildi allt í einu ekkert kannast við að hann hefði áður rætt við mig um áreitið. Það var skrifuð fundargerð og við kvittuðum undir en sá aðili sem ég kvartaði undan kvittaði undir með því skilyrði að þessi fundargerð yrði ekki sýnd neinum öðrum en okkur og slökkviliðsstjórinn lofaði því. Þannig að ég fékk ekkert út úr þessum fundi nema aukinn kvíða. Ég var auðvitað í enn verri stöðu eftir að hafa kvartað og fann vel fyrir því að menn lögðu sig fram um að hunsa leiðinlegu kellinguna sem kvartaði við yfirmanninn.“

„Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig. Ég til dæmis óskaði eftir sálgæslu eftir mjög erfitt útkall og það þótti afskaplega fyndið og mikill aumingjaskapur.“

Mynd / Auðunn Níelsson

Aumingjaskapur að óska eftir sálgæslu

- Auglýsing -

Andrea segir að upp úr þessu hafi starfsdagurinn farið að snúast meira og minna um það að forðast samstarfsfélagana sem ekki voru með henni á vakt og hún hafi reynt forðast að vinna aukavinnu með ákveðnum einstaklingum. Hún hafi ekki getað upplifað þetta öðruvísi en sem einelti en hún hafi þó alltaf reynt að mæta áreitinu með kurteisi. „Ég hélt áfram í atvinnunáminu og þar fann ég rosalega mikið fyrir því að ég þótti ekki nógu góð. Við vorum þrjú á Reyðarfirði í þessu námi og annar mannanna sýndi mér mjög mikla vanvirðingu og gerði óspart grín að mér. Það var alveg sama hvað ég gerði, það var mikið grínast með það á stöðinni hvað ég væri vanhæf. Ég var sökuð um að reyna að koma mér undan erfiðum æfingum í náminu með því að velja mér félaga sem væri sterkur svo ég þyrfti ekkert að gera og svo framvegis. Ég var meira að segja sökuð um að hafa tábrotið mig viljandi í líkamsrækt til að sleppa við erfiðu æfingarnar. Það gekk eiginlega bara allt út á það hjá þessum aðilum að finna eitthvað á mig. Ég til dæmis óskaði eftir sálgæslu eftir mjög erfitt útkall og það þótti afskaplega fyndið og mikill aumingjaskapur.“

Andrea segist margsinnis hafa beðið um að eitthvað yrði gert í þessum eineltismálum á slökkvistöðinni, fengið þau svör að það yrði skoðað en svo hafi ekkert gerst. „Ég var auðvitað eina konan og þar af leiðandi sú eina sem átti að nota kvennaklósettið og búningsklefann en það kom hvað eftir annað fyrir að það væri til dæmis búið að pissa í sturtuna og skilja klósettið eftir fullt af hægðum, eða stela sænginni minni,“ segir hún og útskýrir í því samhengi að á slökkviliðsstöðinni fái starfsmenn box sem þeir merkja sér, í boxunum séu sængurföt sem starfsmenn nota. Starfsmenn starfi á tólf tíma vöktum, engin skipulögð starfsemi sé á stöðinni að næturlagi og því hafa starfsmenn kost á að sofa á næturnar ef ekkert útkall er.

Andrea segir að það hafi verið sama hvað hún sagði, hún hafi bara verið álitin móðursjúk og alltaf með vesen.

- Auglýsing -

„Ég var búin að senda yfirmanni yfirmanns míns, það er að segja þáverandi starfsmannastjóra Fjarðabyggðar, póst um ástandið og setjast á fund með honum og ræða málið. Náttúrlega var öllu fögru lofað og talað um hvað það væri frábært að hafa konu í stéttinni og að hann ætlaði að gera allt til þess að laga stöðuna. Ég ítrekaði erindið nokkrum sinnum við starfsmannastjóra Fjarðabyggðar en smám saman hætti hann svara og samskiptin fjöruðu út án þess að nokkuð væri gert. Þannig að þetta var bara orðið ókleift fjall sem ég réði ekki við.“

„Yfirmenn mínir fóru á fundi með fólki frá Landsamtökunum, en vildu ekki viðurkenna að ég hefði kvartað nema í þetta eina sinn.“

Mynd / Auðunn Níelsson

„Fór að trúa að ég gæti þetta ekki“

Í lok október 2018 gafst Andrea upp, gekk út af stöðinni og fór til læknis sem sendi hana umsvifalaust í veikindafrí. „Ég þurfti að kyngja því að ég gæti þetta ekki lengur,“ segir hún. „Ég gæti ekki barist lengur. Ég hætti í atvinnunáminu, hafði bara ekki lengur trú á sjálfri mér í þessu starfi. Það var stöðugt verið að fylgjast með mér, hvort ég gæti nokkuð einu sinni lyft sjúkrabörum og svo framvegis. Svona viðhorf síast inn og ég bara fór að trúa því að þetta væri ekki starf fyrir mig.“

Eftir að hún fór í veikindafrí hélt Andrea áfram að reyna að fá úrlausn sinna mála, sendi kvörtun til Landsambands slökkviliðsmanna og Vinnueftirlitsins og segir það ferli hafa tekið nokkra mánuði, með endalausum greinargerðum, tölvupóstum og samtölum. „Þau hjá Landsambandinu stóðu virkilega þétt við bakið á mér,“ segir hún. „En ég sá aldrei neinar aðgerðir og var orðin vonlítil um að þetta myndi nokkurn tímann klárast. Yfirmaður minn slökkviliðsstjórinn og þáverandi starfsmannastjóri fóru á fundi með fólki frá Landsambandinu, en vildu ekki viðurkenna að ég hefði kvartað nema í þetta eina sinn og sögðu að málið hefði verið klárað þá, þótt ég væri auðvitað með þetta allt skriflegt í tölvupóstum. Þá bara gafst ég upp, var í rauninni orðin mjög andlega veik, með hjartsláttartruflanir og þurfti að vera á róandi lyfjum og hjartalyfjum. Ég réði mig á leikskólann á Reyðarfirði en hætti eftir tvær vikur, því Reyðarfjörður er lítill bær og þessir aðilar áttu börn í þeim leikskóla. Í eitt skipti mætti ég þeim og það var í rauninni nóg og ég sagði starfinu upp, sá að ég gat engan veginn sinnt því með mína líðan.“

Andrea segist á þessum tíma hafa verið farin að mæta hunsun hjá  sveitarfélaginu og þá sérstaklega hjá yfirmönnum í Fjarðabyggð. Hún hafi reynt að sækja um störf sem hún hafi haft menntun og reynslu til að sinna, en ekki einu sinni verið boðuð í viðtöl. Hún hafi upplifað það þannig að sveitarfélagið hefði bara lokað á hana og hafnað henni. Á endanum var ástandið orðið óbærilegt og fjölskyldan flutti til Dalvíkur þar sem maðurinn hennar fékk vinnu. „Þetta var bara orðið óbærilegt,“ segir hún. „Ég var hætt að þora ein út því kvíðinn var orðinn það mikill að ef ég sá þessa aðila í búðinni fékk ég kvíðakast og hljóp út. Ég var búin að tala um þetta við lækna og sálfræðinginn en það var ósköp lítið hægt að gera annað en bara fara, eins hræðilega og það hljómar, og það endaði með því að við fluttum síðasta sumar.“

Mynd / Auðunn Níelsson

„Ég þekki sjálfa mig ekki lengur“

Andrea segist ekki enn þá hafa treyst sér til að fara út í samfélagið á Dalvík, hún glími enn við afleiðingar eineltisins. Hún dreif sig þó í nám þegar hún hætti í slökkviliðinu, tók diplómu í opinberri stjórnsýslu og fötlunarfræðum. Segist hafa náð að klára það með herkjum. „Ég ákvað svo að taka MPA-námið í opinberri stjórnsýslu og byrjaði í því í haust, en í mínum veikindum hef ég ekki náð neinum tökum á því. Ég hafði alltaf getað einbeitt mér að námi en ég er búin að tapa þeim hæfileika í þessu ferli. Það er alveg nóg fyrir mig að vera heima og hugsa um heimilið, meira legg ég ekki á mig. Ég er að vinna að því að koma mér út í samfélagið og verða ég sjálf aftur. Ég þekki ekki sjálfa mig lengur og þrái ekkert heitar en að losna út úr þessu ástandi.“

Andrea óskaði eftir formlegri rannsókn á eineltinu og beiðni um miskabætur er í ferli að sögn Sævars Þórs Jónssonar, lögmanns hennar. Andrea segist ekki vita hvert framhaldið verði. „Ég hef lagt það algjörlega í hendur lögmannanna,“ segir Andrea. „Það eina sem ég vil fá út úr málinu er viðurkenning á því að það var brotið á mér. Það eru breyttir tímar og ég fagna því að konum fjölgar í slökkviliðum um allt land. Vonandi leiðir það til þess að það viðhorf að þetta sé ekki kvennastarf breytist. Ég er vongóð um það að mitt mál eigi þátt í því að sigrast á þeirri kreddu.“

Sævar Þór Jónsson, lögmaður Andreu Bjarkar.

Ekki einelti í lagalegu tilliti

Mannlíf óskaði eftir skriflegri greinargerð um málið frá Sævari Þór Jónssyni, lögmanni Andreu Bjarkar, og hann hafði þetta um málið að segja.

Í hverju felst kvörtunin?

„Umbjóðandi minn, sem er fyrrum starfsmaður Slökkviliðs Fjarðabyggðar, lagði fram kvörtun um einelti á vinnustaðnum í júlí 2019 þar sem þess var krafist, í samræmi við lög og reglur, að málið yrði rannsakað af hálfu sveitarfélagsins.

Í umræddri kvörtun voru gerðar alvarlegar athugasemdir við starfshætti samstarfsmanna umbjóðanda míns, ekki síður við eftirlit og aðgerðaleysi starfandi slökkviliðsstjóra sem brást ekki við háttseminni þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar umbjóðanda míns um einelti á vinnustaðnum.

Sveitarfélagið féllst á að taka málið til skoðunar og í samræmi við reglugerð var utanaðkomandi ráðgjafi fenginn til að meta kvörtunina. Það verk önnuðust þrír sálfræðingar en vinna þeirra fólst m.a. í því að ræða við starfsmenn og stjórnendur og gefa skýrslu um málið. Þessi skýrsla lá fyrir í desember í fyrra.

Niðurstaðan var sú að ekki hafi verið um einelti að ræða í lagalegu tilliti, s.s. eins og einelti er skilgreint í reglugerð. Aftur á móti voru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við þá háttsemi sem umbjóðandi minn þurfti að þola af hendi samstarfsmanna sinna. Í mörgum tilvikum var hún ófagleg og í öðrum óréttlætanleg eins og segir í skýrslunni. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að stjórnendur hefðu brugðist umbjóðanda mínum með því að hafa ekki gripið fyrr til aðgerða í samræmi við lög og reglur.“

Hvar er málið statt?

„Þrátt fyrir að niðurstaðan hafi, strangt til tekið, ekki talist einelti í lagalegu tilliti var um alvarlega háttsemi að ræða sem bitnaði á umbjóðanda mínum með ósanngjörnum hætti enda hrökklaðist hún frá störfum haustið 2018 og er óvinnufær í dag. Í háttseminni fólst því ólögmæt meingerð gegn persónu umbjóðanda míns sem sveitarfélagið ber ábyrgð á. Sá miski skal bættur eftir því sem sanngjarnt þykir hverju sinni.

Vegna þessa var með bréfi nú fyrir stuttu lögð fram krafa um miskabætur, sjúkrakostnað og lögmannskostnað úr hendi sveitarfélagsins. Kröfubréf umbjóðanda míns er nú til skoðunar sem sveitarfélagið þarf að taka afstöðu til áður en lengra er haldið.

Verði kröfunni hafnað eða einstökum kröfuliðum þá þarf að fylgja kröfubréfinu eftir með málshöfðun.“

Hver eru fordæmin í dómum í svipuðum málum?

„Miskabætur eru almennt mjög lágar í íslenskum rétti. Mat á miskabótum er atvikabundið enda er ekki stuðst við einn almennan og hlutlægan mælikvarða eða einhverja reikniformúlu. Úrlausnir dómstóla gefa okkur hins vegar ákveðnar vísbendingar.

Einnig er gerð krafa um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar, en um er að ræða sálfræðikostnað í kjölfar atviksins, kostnað vegna koma á heilsugæslu og lyfjakaupa.

Þá er einnig gerð krafa um endurgreiðslu lögmannskostnaðar.“

Bæjarstjóri og slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar kjósa að tjá sig ekki um málið

Mannlíf hafði samband við bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, og slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Fjarðabyggðar, Guðmund Helga Sigfússon, og lagði fyrir þá nokkrar spurningar í tölvupósti. Báðir svöruðu þeir því til að þeim væri því miður ekki unnt að tjá sig um mál einstakra starfsmanna slökkviliðsins. Spurningarnar sem þeir fengu og svör þeirra fara hér á eftir.

Karls Óttars Pétursson bæjarstjóri Fjarðabyggðar Mynd / Fjarðabyggð

Spurningar til Karls Óttars Péturssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar:

Hefur meint áreiti á hendur Andreu Björk komið til kasta bæjarstjóra?

Ef svo er hver er niðurstaða þín eða skoðun þín á málinu?

Hefur bæjarfélagið eða starfsmannastjóri þess látið gera úttekt á málinu með það fyrir augum að upplýsa hvað gerðist innan slökkviliðsins?

Er ástæða til aðgerða innan slökkviliðsins eða hefur verið gripið til aðgerða?

Hefur þáverandi starfsmannastjóri bæjarfélagsins skilað skýrslu eða minnispunktum um afskipti sín af málinu?

Hyggst bæjarstjóri skoða málið frekar og hver er afstaða bæjarfélagsins til kröfu Andreu um miskabætur vegna málsins?

Svar Karls Óttars:

„Ég get því miður ekki tjáð mig um málefni einstakra starfsmanna Slökkviliðs Fjarðabyggðar, eða einstök mál þeim tengd.

Komi upp mál sem varða vinnuvernd og heilbrigði á vinnustað er unnið með þau eftir faglegu ferli innan hverrar stofnunar sveitarfélagsins, eins og gildandi lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Mál eru auk þess unnin í samræmi við þær leiðbeiningar og reglur sem Fjarðabyggð hefur sett sér varðandi þetta og nálgast má á heimasíðu sveitarfélagsins, fjardabyggd.is.“

Guðmundur Helgi Sigfússon slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjarðabyggðar Mynd / Fjarðabyggð

Spurningar til Guðmundar Helga Sigfússonar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Fjarðabyggðar:

Hefur þú gripið til aðgerða á vinnustað þínum vegna máls Andreu Bjarkar?

Kannast þú við lýsingu hennar á því áreiti sem hún segir frá og liggja til grundvallar þeirri rannsókn sem gerð var á málinu af hálfu bæjarfélagsins?

Getur þú staðfest að þú hafir orðið þess var að ekki var allt með felldu í samskiptum sumra annarra starfsmanna við Andreu Björk?

Til hvaða aðgerða hefur þú gripið vegna ásakana á hendur undirmanni/undirmönnum þínum?

Andrea segir að sá sem hún kvartaði mest undan, og hún hafi hitt á fundi með þér til að leita sátta, hafi neitað að skrifa undir fundargerðina nema tryggt yrði að hún færi ekki fyrir augu annarra. Er það rétt og ef svo er hví samþykktirðu þá beiðni hans?

Eru allir þeir sem Andrea kvartaði undan enn í starfi hjá Slökkviliði Fjarðabyggðar?

Verða einhverjar breytingar gerðar á starfsmannamálum slökkviliðsins í kjölfar málsins?

Svar Guðmundar Helga:

„Ég get því miður ekki tjáð mig um málefni einstakra starfsmanna Slökkviliðs Fjarðabyggðar, eða einstök mál þeim tengd.

Komi upp mál sem varða vinnuvernd og heilbrigði á vinnustað er unnið með þau eftir faglegu ferli eins og gildandi lög og kjarasamningar gera ráð fyrir. Mál eru auk þess unnin í samræmi við þær leiðbeiningar og reglur sem Fjarðabyggð hefur sett sér varðandi þetta og nálgast má á heimasíðu sveitarfélagsins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -