2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sjö manna fjölskylda flúði stressið og flakkaði um Spán

„Við sem foreldrar berum ábyrgð á menntun barnanna og það er það sem ég vil gera með því að ferðast með þau um heiminn, og auðvitað allt Ísland, og kenna þeim í gegnum lífið, ekki í gegnum bækur, tölvur og fyrirlestra, mötun á námsefni og eyðufyllingar,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir.

Ágústa á fimm börn með eiginmanni sínum, Guðlaugi Birgissyni. Fyrr á þessu ári ákváð fjölskyldan að rífa sig upp frá heimili sínu á Djúpavogi og flakka um Spán í fimm vikur. Fjölskyldan hefur leyft almenningi að fylgjast með ferðum sínum á Facebook-síðunni Whattodoin og sneri nýverið aftur heim til Íslands. Ágústa segir að aðdragandinn að ferðinni hafi í raun verið langur. Elsta dóttir þeirra hjóna, Vigdís, fæddist árið 2006 og í kjölfarið eignuðust þau þrjú börn á rétt rúmlega þremur árum. Á sama tíma stofnaði Ágústa hönnunar- og framleiðslufyrirtæki og Guðlaugur byrjaði að kaupa sig inn í útgerð þar sem hann starfaði sem skipstjóri.

Börnin upplifðu alls kyns ævintýri.

Hraðinn bitnaði á fjölskyldunni

„Ég fékk mikið hrós fyrir dugnaðinn og eljuna, var þessi týpíska ofurkona sem hélt ég gæti allt. Ég elska að vinna mikið, elskaði reksturinn minn og börnin, og allt sem ég var að gera og langaði svo ógeðslega mikið að gera allt og láta allt ganga, en það var engan veginn að gerast, þetta var bara allt of mikið. Hraðinn og álagið bitnaði á fjölskyldunni og andlegri og líkamlegri heilsu minni auk þess sem upprunaleg markmið mín og lífssýn voru bara í dvala, nánast gleymd,“ segir Ágústa en meðal markmiða hennar í lífinu var að ferðast með börnunum og eyða meiri tíma með þeim. Hún segist hafa verið með einhvers konar fjölskylduferð í bígerð lengi en alltaf litið á skólagöngu barnanna sem hindrun.

„Svo gerðist það að sonur minn var kominn á algjörar villigötur, hafði illa stjórn á sér, brást reiður og illa við ýmsu og fúnkeraði bara ekki vel. Hann var settur í prógramm sem sneri að lærdómnum og hegðun í skólanum,“ segir Ágústa. Í framhaldinu varði hún tæpum fjórum mánuðum með syni sínum í skólanum, í 95% kennslustundanna, frímínútum, tómstundum og öðru.

AUGLÝSING


„Ég hlustaði á ótal fyrirlestra, hljóðbækur, las rannsóknir og annað. Líf okkar allra gjörbreyttist þarna og sýn mín á menntakerfið og allt lífið breyttist algjörlega. Og eitt af því sem ég lærði á þessu er að skólaganga barnanna minna er ekki hindrun í að við sem fjölskylda ferðumst eða förum okkar leiðir í menntun þeirra.“

Fengu aldrei pásu frá hvert öðru

7 manna fjölskylda á ferðalagi.

Það var svo áhugi Ágústu á heimakennslu og menntun sem varð til þess að þau ákváðu að kasta sér ofan í djúpu laugina og ferðast, en Ágústa skipulagði ferðina í meira en ár. Þau sögðu börnunum frá ferðinni á aðfangadagskvöld í fyrra og tveimur og hálfum mánuði síðan fóru þau af stað á vit ævintýranna.

„Við höfum alltaf verið mjög samheldin fjölskylda og mikið saman en að vera saman í fimm vikur á stað þar sem við þekktum enga og vorum hvorki í skóla, tómstundum, vinnu, né hittum vini eða fjölskyldu var allt annað en við erum vön. Helstu kostirnir við svona lífsstíl eru að við kynnumst mun nánar og betur en hér heima, því það er engin truflun, ekki hægt að forða sér eða sækja í aðra ef eitthvað bjátar á. Auk þess hefur maður ótakmarkaðan tíma til að sjá „mynstur“ í börnunum og sjálfum sér – hvað er stressandi, hvað er slakandi, hvað hefur góð og hvað hefur vond áhrif. Og ókostirnir eru kannski að það er aldrei „friður“, við fáum aldrei pásu frá hvert öðru, sem hefur líka áhrif. Ef einn var í vondu skapi hafði það áhrif á alla og ef börnin eru pirruð, þreytt, svöng, leið eða eitthvað þá láta þau það bitna hvert á öðru,“ segir Ágústa og heldur áfram.

„Þetta var oft ofsalega erfitt og snéri þá aðallega að dagsformi hvers og eins. Hér heima get ég laumað mér í kaffi til vinkonu, þau leikið við vini eða heimsótt ömmu og afa, farið í göngutúr ein, kveikt á sjónvarpi eða farið tölvur ef það er þreyta og pirringur í gangi en þarna var ekkert svoleiðis í boði. Við reyndum alltaf að setja dagana upp sem streytulausasta og þægilegasta fyrir alla en það sem hentar 1 árs barni, 3 ára, 8, 10 og 11 ára sem og foreldrum á fertugsaldri er ekkert alltaf það sama. Málamiðlanir voru stór partur af ferðinni og að gefa öllum svigrúmið sem þeir þurftu þótt það væri nánast ekkert svigrúm eða tími. Maður metur tímann allt öðruvísi eftir svona ferð.“

Sáu fátækt og fjölbreytileika

Ógleymanleg ferð.

Fjölskyldan ætlaði fyrst að leigja íbúð í tvo til þrjá mánuði en vegna breytinga í útgerðinni hjá Guðlaugi þurfti þau að stytta dvölina niður í fimm vikur. Þá voru þau búin að festa íbúðina og þurftu að greiða fyrir hana 450 þúsund krónur. Flugið var hins vegar talsvert ódýrara en þau voru vön fyrir sjö manna fjölskyldu.

„Flugið fyrir okkur sjö kostaði um 120 þúsund krónur með millilendingu og gistingu í Gatwick á leiðinni út og 102 þúsund krónur í beinu flugi heim. Ég var búin að kynna mér staðsetningar og verð á nauðsynjum vel þannig að á svæðinu sem við vorum var allt meira en helmingi ódýrara en hér heima. Við leigðum bíl, fórum á söfn, í hellaferð og í garða sem kostuðu og þar húrraðist kostnaðurinn upp en þessu er alveg hægt að sleppa. Við nýttum okkur mikla ókeypis afþreyingu eins og almenningsgarða og ströndina og það er alveg endalaust hægt gera eitthvað án þess að taka upp budduna,“ segir Ágústa aðspurð um hvort þetta ævintýri hafi ekki kostað skildinginn. Hún segist aðhyllast mínimalískan lífsstíl og er ánægð með að leyfa börnunum sínum að upplifa ýmislegt sem kennir þeim virði peninga.

„Börnunum, sérstaklega þessari ellefu ára, finnst við oft lifa eins og fátæklingar en hún hefur þó lært það af þessu að það þarf að forgangsraða og hafa fyrir hlutunum. Í ferðinni upplifðu þau svo að gista á geggjuðu 4 stjörnu hótelinu niður í 0 stjörnu rottuholu, þau sáu fátækt, betlara og miklu meiri fjölbreytileika fólks en hér heima. Ég vil að þau kynnist þessu frekar en biðröðum í Disney-garðinum og peningaplokki í alls konar over prized-görðum og skemmtunum. Ég hef samt ekkert á móti því og allt í lagi að upplifa það líka, en við bjuggum oft til bestu stundirnar með nesti í almenningsgörðum og það var æði.“

Heimurinn opnaðist

En hvað stóð upp úr á þessu fimm vikna ferðalagi?

Lífið er ljúft á ströndinni.

„Það sem stendur upp úr er áhrifin á börnin, hvernig þau upplifðu hlutina, hvað þeim fannst merkilegt, hvernig þau þroskuðust og lærðu. Það var mikill munur á þeim fyrstu dagana og þá síðustu, veröldin stækkaði og heimurinn opnaðist einhvern veginn fyrir þeim. Í byrjun fannst mér þau bara frekar áhugalaus og hugmyndasnauð, vildu til dæmis alltaf fara í sama garðinn og á sama veitingastaðinn frekar en að kanna svæðið og prófa eitthvað nýtt. Þetta pirraði mig en svo fattaði ég að þau höfðu engin viðmið, þau vissu ekkert hvað var handan við hornið, þau eru alin upp í pínulitlum bæ þar sem allt er alltaf eins, rútínan, viðburðir, fólk, staðir og dýr. Þannig að við fórum meira og meðvitað að kanna ný svæði, prófa nýja hluti, tala meira um allt sem mögulegt er í heiminum og leyfa lífinu að koma okkur á óvart án þess að hafa plön eða vera afturhaldsöm. Þetta skilaði sér í því að undir lokin var þessi 10 ára farinn að skipuleggja ferð til Týndu borgarinnar, 11 ára til Hawaii og við hin roadtrip um Bandaríkin. Þetta opnaði heiminn fyrir þeim, og okkur,“ segir Ágústa og bætir við að ferðin hafi haft góð áhrif á fjölskylduna í heild.

„Við erum klárlega samheldnari, það er meira umburðarlyndi eða alla vega þekking og skilningur á hinum.“

Sápukúlustuð.

Allir tilbúnir að koma heim

En hvernig var svo að koma aftur í raunveruleikann á Djúpavogi?

„Við vorum síðustu dagana í Barcelona, borgin var troðin af fólki, mikil umferð, hraði og allt miklu dýrara en á hinum stöðunum og miklu heitara og óþægilegra veður. Það voru því allir frekar tilbúnir að koma heim, spenntir og ánægðir. Þannig að heimferðin og allt eftir það hefur gengið vel. Við fundum svo rosalega vel hvað útivera, birta og gróður er ólýsanlega miklivægt þannig að nú er markmið að halda þessum „úti“ lífsstíl áfram, en hingað til hef ég verið kuldaskjóða og nenni alls ekki út í vondu veðri eða myrkri. En nú þurfum við bara að læra að lifa með því, því það er líklegra að ég geti breytt um hugarfar en veðurfar.“

Fjölskyldan heldur úti vefsíðu samfara fyrrnefndri Facebook-síðu, þar sem hún ætlar að fara vel og vandlega yfir ferðalagið á næstunni. Ágústa mælir hiklaust með svona flótta úr hversdagsleikanum fyrir hvern sem er.

Skemmtileg mynd.

„Já, maður verður svo samdauna samfélaginu og fer ósjálfrátt í farveginn sem hinir eru í eða farveginn sem í boði er ef maður er alltaf á sama staðnum, sérstaklega litlum stöðum. Að fara í burtu, núllstilla allt, tengjast á annan hátt og upplifa annað er góð byrjun til að rjúfa rútínuna sem maður er í ef maður kýs það.“

Myndir / Úr einkasafni

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is