Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Flugmiðinn gæti lækkað um allt að helming

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áætla að niðurgreiðslur innanlandsflugs fyrir íbúa landsbyggðarinnar kosti um milljarð kóna.

Til skoðunar er að ríkið niðurgreiði flugfargjöld fyrir íbúa á afskekktum svæðum landsins, þar með talið Akureyri og öðrum dreifbýliskjörnum. Allt að 60 þúsund manns myndu njóta slíkra niðurgreiðslna. Verði þessi leið, sem gjarnan er nefnd skoska leiðin, niðurstaðan og farið verði eftir tillögum starfshóps um nauðsynlegar framkvæmdir á flugvöllum landsbyggðarinnar gæti kostnaðurinn farið upp í þrjá og hálfan milljarð.

Njáll Trausti Friðbertsson og Reinhard Reynisson.

Starfshópur undir formennsku NjálsTrausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, skilaði á dögunum af sér skýrslu undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Helstu úrlausnarefni starfshópsins voru annars vegar að efla innanlandsflug með þeim hætti að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar. Hins vegar var fjallað um hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins.

„Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi.“

Þessi niðurgreiðsluleið eða skoska leiðin eins og hún er kölluð er það verkefni sem atvinnuþróunarfélögin í kringum landið tóku upp á sína arma fyrir um tveimur árum síðan.

„Við kynntum þetta í framhaldinu fyrir þingmönnum og formanni samgöngunefndar og héldum svo ráðstefnu í Reykjavík fyrir rúmu ári síðan. Markmiðið var að koma þessum hugmyndum á framfæri við pólitíkina. Því má segja að þessi vinna komi að því leyti frá þróunarfélögunum,“ segir Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, í samtali við Mannlíf. Hann var fundarstjóri á kynningarfundi um skýrslu starfshópsins á Húsavík á dögunum en Njáll Trausti var framsögumaður.

Telur breiða samstöðu á þingi

Njáll Trausti sagðist eftir fundinn vera bjartsýnn á að skoska leiðin verði farin og hann skynjaði samstöðu um málið í þinginu. Hann benti jafnframt á mikilvægi þess að frá og með 1. janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og að Isavia ohf. verði falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra; og að fjórum árum verði millilandaflugvellirnir og aðrir flugvellir í grunnneti hluti af sama flugvallakerfi. Þessar hugmyndir byggja á hugmyndafræði sem norsk stjórnvöld hafa tileinkað sér með sína flugvelli í gegnum Avinor, félag sem er eigu norska ríkisins. Avinor rekur 45 flugvelli í Noregi og eru tekjur af stærri flugvöllunum notaðar í rekstur á minni völlum.

- Auglýsing -

Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna niðurskurðar

Njáll Trausti hefur vakið sérstaka athygli á því að á sama tíma og umferð um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast frá árinu 2010 hefur uppbygging á varaflugvöllum í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum ekki fylgt þeirri þróun.

Í skýrslu starfshópsins er minnst á vaxandi þörf fyrir nýframkvæmdir á varaflugvöllunum svo sem við gerð aksturbrauta meðfram flugbrautum og að flugvélastæðum verði fjölgað á Akureyri og Egilsstöðum. Einnig er bent á nauðsyn þess að byggðar séu upp nýjar flugstöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Njáll Trausti segir að það hafi leitt til þess að uppsöfnuð viðhaldsþörf á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar er talin vera um 2 milljarðar.

- Auglýsing -

Umsögn Icelandair við samgönguáætlun skefur ekki utan af því í þessu samhengi: „Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi,“ segir í umsögninni.

Skoska leiðin í hnotskurn

Heimilt verði að niðurgreiða fargjöld íbúa og nemenda frá afskekktum svæðum til að jafna aðgengi þeirra að þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð og til að gera þeim kleift að taka þátt í samfélaginu sem fyrirfinnst á þéttbýlli svæðum. Hægt er að niðurgreiða hvern farmiða hvort heldur sem er um fasta upphæð eða fast hlutfall af fargjaldinu. Í Skotlandi var hlutfallið hækkað 1. janúar 2016 úr 40 í 50%.

Niðurgreiðslan nær aðeins til einstaklinga sem búa á svæðinu, ekki til fyrirtækja eða einstaklinga sem vilja sækja svæðið heim. Jafnframt er hægt að setja krónutöluþak á hvern einstakling eða hámarksfjölda ferða sem eru niðurgreiddar. Þannig er til dæmis hægt að ákveða að hver einstaklingur fái að hámarki niðurgreiddar fjórar ferðir til að byrja með.

Ef fylgt yrði fordæmi Skota og niðurgreiðslan miðuð við 50 prósent yrði meðalverð farmiða í kringum 12.500 krónur. Miðað við forsendur starfshópsins sem byggir á reynslu Skota munu um 41 þúsund einstaklingar nýta sér þessa þjónustu á ári hverju sem þýðir að árlegur kostnaður yrði rétt rúmur milljarður. Ef allir 60 þúsund íbúarnir sem úrræðið nær til nýta sér það yrði kostnaðurinn einn og hálfur milljarður.

Útfærsla á leiðinni, það er til hvaða landsvæða niðurgreiðslan muni ná, hefur ekki verið kynnt en líklega verður miðað við ákveðna vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu og hefur verið talað um 200 eða 300 kílómetra með sérstökum undantekningum, svo sem Vestmannaeyjum.

Texti / Egill Páll Egilsson og Magnús Geir Eyjólfsson
Mynd / Isavia

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -