Þriðjudagur 29. nóvember, 2022
6.8 C
Reykjavik

„Fólk varð snortið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kvikmyndin Agnes Joy var heimsfrumsýnd í Suður-Kóreu á dögunum og fóru viðtökurnar langt fram úr væntingum að sögn leikstjórans Silju Hauksdóttur. Myndin er nú sýnd í bíóhúsum hérlendis og segir Silja greinilegt að áhorfendur tengi við söguna sem hverfist um grátbroslega þroskasögu íslenskra mæðgna.

 

„Það var magnað að horfa á hana í fyrsta skipti með áhorfendum svona fjarri heimahögum og ég játa að mér létti þegar ég fór smám saman að sjá að kjarninn í sögunni, það er að segja þessi fjölskyldudýnamík sem hún hverfist um, var að skila sér. Ég átti nefnilega allt eins von á því að henni yrði bara svona sæmilega tekið og hafði stilt væntingum í hóf. En fólk var snortið. Það beið eftir okkur að sýningu lokinni og vildi spjalla, fá eiginhandaáritanir og taka selfies með aðalleikurunum Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur og Donnu Cruz. Þannig að nú er ég vongóð um að þessi saga eigi eftir að höfða til fólks,“ segir Silja Hauksdóttir um viðtökur myndarinnar Agnes Joy á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Busan í Suður-Kóreu. Þar var mynd Silju heimsfrumsýnd á dögunum og svo frumsýnd í íslenskum bíóhúsum fyrir helgi.

Myndin fjallar um mæðgurnar Rannveigu og Agnesi sem búa á Akranesi ásamt föður Agnesar. Samband fjölskyldunnar einkennist af stjórnsemi og spennu. Rannveig er í tilvistarkreppu, óánægð í starfi og hjónabandið komið á endastöð, á meðan dóttirin Agnes er í uppreisn. Þegar leikarinn Hreinn, flytur í bæinn til þess að vinna að kvikmyndahandriti hjálpar hann fjölskyldunni að átta sig á að hún stendur á krossgötum sem verður til þess að þroskasaga mæðgnanna fer af stað.

Silja skrifar handritið að myndinni ásamt Rannveigu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. „Sagan fór á flug í höndunum á okkur þegar við föttuðum hversu mikið drama getur verið fólgið í þroskasögu miðaldra konu og samskiptum hennar við fjölskyldu sína, í þessum grátbroslegum aðstæðum hversdagslífsins,“ segir Silja, um það hvernig hugmyndin að sögunni hafi kviknað. „Okkur fannst það ótrúlega spennandi viðfangsefni. Og þarft að koma því frá okkur því það er allt of sjaldan sem við sjáum slíkum sögum gerð skil í kvikmyndum.“

„Þessi mynd er kannski persónulegri en það sem ég hef verið að gera í sjónvarpi…“

Talandi um það, síðustu ár hefur einmitt verið kvartað undan því að íslenskar myndir hverfist allt of mikið um karlpersónur í krísu. Undanfarið hefur þó orðið breyting á og nú lítur dagsins ljós hver íslenska myndin á fætur annarri með kvenpersónum í aðalhlutverki. Kann Silja einhverja skýringu á því? Hún hugsar sig um.

„Ég held að áhorfendur séu hreinlega duglegri að kalla meira eftir slíku efni og að kvikmyndagerðarkonur séu farnar að láta vaða og gera það,“ segir hún. „Ég held að eftirspurnin eftir slíku efni hafi alltaf verið til staðar en sú eftirspurn virðist bara vera að koma betur upp á yfirborðið. Og þetta er góð þróun því ég held að hún eigi á eftir að skila okkur meiri fjölbreytileika þegar fram líða stundir, ekki bara í persónusköpun heldur líka í frásagnarstíl. Kvikmyndirnar koma til með að verða fjölbreyttari.“

- Auglýsing -

Persónulegasta verkið til þessa

Agnes Joy er önnur kvikmyndin í fullri lengd sem Silja gerir. Sú fyrri, Dís, kom út árið 2004. Af hverju leið svona langt á milli mynda? Og hvað hefurðu verið að gera í millitíðinni? „Ég skellti mér í mastersnám og eignaðist barn og svo hef ég verið að skrifa og leikstýra fyrir sjónvarp, gert nokkrar sjónvarpsseríur og sett krafta mína í það,“ svarar hún.

„Þetta er svipað ferli, að gera þætti og kvikmyndir. Nema þessi mynd er kannski persónulegri en það sem ég hef verið að gera í sjónvarpi þótt sú vinna sé auðvitað alltaf persónuleg að einhverju leyti. Þetta er samt ekki sjálfsævisöguleg mynd,“ tekur hún skýrt fram, „en mig langaði að hafa hana persónulega og hráa og vinna meðvitað með ófegraða mynd af raunveruleikanum. Ég hef mikinn áhuga á mannlegum breyskleika og brestum og það er óhætt að segja að þessi mynd endurspegli það,“ segir hún.

- Auglýsing -

En hvað tekur nú við? „Myndin kemur til með að fara eitthvað út í heim að viðra sig og ég ætla að sjálfsögðu fylgja henni eftir. Ég er síðan að fara að leikstýra í Þjóðleikhúsinu leikritinu Kópavogskróníkan, sem byggir á bók Kamillu Einarsdóttur og er með Ilmi Kristjánsdóttir í aðalhlutverki. Já og svo er ég byrjuð að leggja grunninn að annarri kvikmynd,“ ljóstrar hún upp.

„Við Snjólaug Lúðvíksdóttir handritshöfundur og uppistandari erum að vinna í henni. Erum að skoða saman hina samsettu íslensku nútímafjölskyldu og hvað er á seyði þar. Þannig að vonandi verður nú eitthvað styttra í næstu mynd,“ segir hún sposk í lokin.

Sjá einnig: Myndir: Fjölmennt á frumsýningu Agnes Joy í gær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -