Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Foreldrar metnir jafn hæfir í forsjármáli – „Meðal gesta var besti vinur, dæmdur barnaníðingur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég fæ forsjána, en það var í rauninni dómarinn sem sá í gegnum málið, ég var bara heppin,“ segir móðir í viðtali við Mannlíf, en hún vill ekki láta nafns síns getið.

Móðirin er ein þeirra sem hafa gagnrýnt vinnubrögð matsmanna í forsjármálum, en hún og börn hennar gengu í gegnum erfiða tíma eftir að matsmaður taldi móður og föður jafn hæf. Kom á daginn að áhyggjur móður reyndust réttlætanlegar þegar Barnahús staðfesti að börnin hefðu orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu föður. Matsmaður hafi gert lítið úr áhyggjum móður meðan á matsgerðinni stóð.
„Þetta byrjar með skilnaði og ég losa mig úr alveg hrikalegu ofbeldissambandi og þetta fer í forsjármál, þannig kemur matsmaðurinn að mínu máli,“ segir móðirin, en matsgerðin, sem er orðin tíu ára gömul, hefur enn áhrif á líf hennar og barnanna.

Hún segist hafa lýst áhyggjum af kynferðisbrotum af hálfu föður, en að matsmaðurinn hafi með engu móti skoðað það.
„Börnin lýsa ákveðnum atvikum og ég segi frá því og það er algjörlega skautað fram hjá því. Hann í rauninni dustar því út af borðinu með engum rökum.“
Síðar hafi börnin farið í Barnahús þar sem ofbeldið var staðfest, en það var mikið áfall fyrir móður. „Það er staðfest í Barnahúsi af sálfræðingi, að hann hafi brotið kynferðislega á börnunum og börnin hafa í dag algjörlega rofið tengsl við hann út af ofbeldinu,“ segir hún og bendir á að mikið ósamræmi sé milli matsgerðarinnar og því sem matsmaðurinn segist standa fyrir. Móðirin segist hafa upplifað mörg áföll í kringum þennan tíma, en börnin voru send til föðurins í mánaðardvöl þrátt fyrir að hafa greint frá því að þeim liði ekki vel í hans umsjá. Meðan á dvölinni stóð gat móðirin ekki haft neitt samband við börnin, en faðirinn tók þær einnig úr leikskóla á þessum tíma. Þegar dvölinni hjá föðurnum var að ljúka hafði matsmaðurinn samband við móðurina.

„Daginn sem ég fæ börnin til baka eftir fjórar vikur þá segist hann (matsmaðurinn) vilja sjá mig með börnunum þann dag, og var rosalega ýtinn með það. Hann vildi koma inn á heimili mitt og sjá mig með börnunum þann dag sem ég fékk þau til baka eftir þennan tíma. Maður hafði náttúrlega ekki hugmynd um í hvaða standi börnin voru, þetta hefði getað verið alls konar.“ Bætir hún við að matsmaðurinn hafi setið klukkutímum saman og hún hafi hugsað með sér hvort hann ætlaði aldrei að fara.
„Svo segir í matsgerðinni að börnunum líði vel hjá móður. Hefðu börnin verið í ójafnvægi þennan dag, sem þau komu til baka eftir fjórar vikur þá hefði hann líklega sagt að börnunum liði ekki vel hjá móður, skilurðu hvað þetta er „twistað“?“

Í það skipti sem matsmaðurinn fylgdist með börnum í umsjá föður voru aðstæðurnar gjörólíkar og telur móðirin vanta mikið upp á að jafnræðis hafi verið gætt.

„Ég hélt að þetta ætti að vera jafn leikur en það var ekki. Þegar hann fylgdist með börnunum hjá föður þeirra, þá fór hann í smá tíma í eitthvert garðpartí hjá föðurnum, utandyra, þar sem var fjöldi fólks og líka börn,“ segir hún og bætir við að meðal gesta hafi verið besti vinur föðurins, en sá er dæmdur barnaníðingur. Hún hafi einnig greint matsmanninum frá honum. Móðirin hafði ekki getað gagnrýnt vinnubrögðin fyrr en hún fékk matsgerðina í hendurnar, en hafði samband við matsmanninn þar sem að henni þótti undarlegt að ekkert hefði verið rætt við foreldra hennar.

- Auglýsing -

„Hann var í rauninni að klára matsgerðina þegar ég hringdi í hann og bað hann um að þau fengju að segja sína hlið líka.“ Frásögn kærustu föður fékk mikið pláss í matsgerðinni, en einnig var rætt við foreldra hans. Þá segir móðirin að hún hafi hreinlega verið heppin að dómarinn hafi séð í gegnum kröfur föðurins, matsgerðin hafi verið sláandi.
„Hann mat okkur í rauninni nánast jafn hæf þrátt fyrir þessa ofboðslegu ofbeldissögu.“
Aðspurð hvað matsmaður hafi sagt við lýsingu móður á kynferðisbroti svarar hún:

„Hann segir þá að í heimalandi hans(föðurs) sé þetta eðlilegt.“

Faðir barnanna hafi einnig sent börnin í gistingu til vinar síns sem var dæmdur barnaníðingur, án vitundar móður. Það hafi verið gríðarlegt áfall að komast að því, en hún bætir því við að frásögnin varpi aðeins ljósi á lítið brot af því sem fór fram. „Ég er bara að segja þér brot af því sem fram fór.“

- Auglýsing -

Mannlíf hefur síðustu vikur fjallað um forsjármál og verklag matsmanna í slíkum málum, en sumar aðferðir sem þeir nota við matsgerð eru afar umdeildar. Þá sagði reynslumikill sálfræðingur í viðtali við Mannlíf í síðustu viku að málið væri svartur blettur á sálfræðingum. Rétt er að taka fram að matsmaður í málinu hér að ofan er sá sami og í máli Bryndísar Ásmundsdóttur sem hefur mikið verið fjallað um í fjölmiðlum að undanförnu. Mannlíf mun halda áfram að kafa ofan í verklag og reglur sem snúa að matsmönnum í forsjármálum á komandi misserum. Slíkt hefur verið reynt áður, en samkvæmt heimildum Mannlífs hefur það fallið í grýttan jarðveg víða innan stéttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -