Forfeður okkar voru hálfvitar

top augl

Lesendur, vinsamlegast athugið: Eftirfarandi pistill var skrifaður þegar höfundurinn hafði keyrt í enn einu bandbrjálaða veðrinu út í búð og aftur heim. Á leiðinni úr bílnum gaf lægðin sem þá var yfir landinu, sú hundraðasta á árinu, höfundinum rækilega á kjaftinn og það aftur og aftur á meðan hann klöngraðist með báðar hendur fullar af matvælum sem kostuðu allt of mikið, í átt að heimili sínu. Lá við að hann færi að grenja þegar hann reyndi að opna dyrnar með lyklinum, sem tókst í fimmtu tilraun. Blautur, kaldur og lúbarinn í framan settist höfundurinn við tölvuna sína og hamraði eftirfarandi pistil á lyklaborðið. Í grunninn stendur hann þó 100 prósent við fullyrðingar sínar, en taka skal fram að um er að ræða skoðun höfundar og hún endurspeglar ekki endilega skoðun ritstjórnar Mannlífs.

Því hefur lengi verið haldið að okkur að forfeður okkar Íslendinga hafi verið miklar hetjur sem með harðfylgni og þrautseigju náðu að viðhalda byggð þrátt fyrir skelfilegt veðurfar og þá staðreynd að Ísland er eyja út í miðju ballarhafi. Þetta er allt saman kjaftæði. Forfeður okkar voru hálfvitar upp til hópa sem námu hér land í þeim tilgangi að sleppa við skattgreiðslur. Á leiðinni tóku þeir þræla frá Bretlandseyjum og sæddu og komu þannig í veg fyrir að hér yrði allt morandi í skyldleikaræktun, svona að mestu. Í dag eru þrælarnir í meirihluta á landinu á meðan skattsvikararnir, sem eru í minnihluta, ráða öllu.

Hinar sönnu hetjur eru Vestur-Íslendingarnir sem höfðu nægilega mikið vit til þess að drulla sér úr landi og hefja nýtt og betra líf í Vesturheimi þar sem gegndarlaus svik og prettir voru ekki eins algeng og hér á landi. Svo ekki sé nú talað um veðráttuna, en í Vesturheimi var/er hún skör skárri en á Íslandi þar sem þunglyndisskammdegið ræður ríkjum og hver helvítis lægðin rekur aðra á meðan við sem hér hírumst eins og fávitar, bíðum eftir tveggja vikna sumrinu okkar.

Þessi pistill birtist í nýjasta helgarblaði Mannlífs sem má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni