Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Fréttaskýring: Það sem við vitum á þessari stundu um harmleikinn í Noregi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gunnar Jóhann Gunnarson, sem talinn er hafa orðið Gísla Þór Þórarinssyni að bana í Mehamn í Noregi, var yfirheyrður miðvikudaginn 1. maí. Í yfirheyrslunni neitaði hann sök. Lögmaður Gunnars, Vidar Zahl Arntzen, segir í samtali við RÚV að skjólstæðingur sinn telji að um slys sé að ræða. Hann hafi aldrei ætlað sér að skaða bróður sinn.

Gunnar er grunaður um að hafa skotið hálfbróður sinn til bana með haglabyssu. Gísli Þór var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang aðfaranótt laugardags 27. apríl. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum. Bæði Gísli Þór og Gunnar voru búsettir í bænum Mehamn í Noregi. Gísli Þór var fertugur þegar hann lést.

Skömmu eftir atvikið birti Gunnar játningu á Facebook þar sem hann bað aðstandendur Gísla Þórs afsökunar. „ég framdi svívirðilegan glæp sem mun elta mig alla ævi. En þetta átti ekki að fara svona en þetta var stórslys, ætlaði aldrei að hleypa af.“

Sjá einnig: Færsla á Facebook frá öðrum hinna grunuðu lýsir skotárásinni sem óviljaverki

Gunnar var handtekinn um hádegisbil 27. apríl, tæplega hálfum sólarhring eftir atvikið. Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald í Vadsø á mánudaginn ásamt öðrum Íslendingi. Hinn aðilinn, 32 ára karlmaður, er grunaður um aðild að morðinu. Maðurinn, sem var með Gunnari allt þar til þeir voru hand­tekn­ir tæp­um fimm tím­um eft­ir að fyrsta til­kynn­ing barst lög­reglu, hefur neitað þáttöku í andláti Gísla Þórs. Hann áfrýjaði gæslu­v­arðhalds­úrsk­urði sínum sem Héraðsdóm­ur Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø felldi. Dóm­stóll­inn féllst þá á beiðni lög­reglu um viku­langt gæslu­v­arðhald yfir mann­in­um. Varðhaldið tók gildi á þriðjudag. Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu.

Yfirheyrslan, sem fór fram í gær, stóð frá klukkan tíu um morgunin til klukkan hálf fimm. Verjandi Gunnars sagði í samtali við RÚV hann vera niðurbrotinn en hafi í yfirheyrslunni varpað ljósi á hvað gerðist þennan dag. Gunnar hefur viðurkennt aðild sína að málinu, en eins og áður kom fram, neitað að um ásetning hafi verið að ræða.

Sjá einnig: Gísli Þór lýsti erfiðum uppvaxtarárum í viðtali við Vikuna

- Auglýsing -

Með brotaferil að baki

Gunnar mun hafa haft í hótunum við Gísla Þór, sem hafði fengið nálgunarbann sett á hann. Bannið tók gildi 17. apríl. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gunnar kemst í kast við lögin en hann á langan afbrotaferil að baki sér, hér á landi. Frá árinu 1999 hefur hann verið dæmdur fyrir umferðalagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Árið 2002 var hann dæmdur, ásamt öðrum manni, fyrir nauðgun á 16 ára stúlku. Gunnar, sem var þá 19 ára, hlaut 22 mánaða fangelsisdóm. Árið 2007 var Gunnar dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás og 2010 í var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi. Sá dómur var fyrir aðra stórfellda líkamsárás, frelsissviptingu og rán. Mbl.is greinir frá.

Fjörutíu þegar yfirheyrðir af norskri lögreglu

Fjörutíu manns hafa verið yfirheyrðir og gerir Norska lögreglan ráð fyrir að þurfa yfirheyra nokkra einstaklinga hér á Íslandi. „Við erum byrjaðir að móta mynd af því sem gerðist klukkustundirnar áður en morðið var framið. Við höfum rætt við vitni sem þekktu hinn látna og þann grunaða eða voru með hinum grunaða klukkustundirnar á undan,“ hefur Vísir eftir Torstein Pettersen hjá Norsku lögreglunni í Finnmörk. „Við höfum sömuleiðis rætt við vitni sem hafa lýst sambandi hins látna og grunaða lengra aftur í tímann.“

Sýni af vettvangi hafa verið send til greiningar og er tæknirannsókn Norsku lögreglunnar að ljúka. Skotvopn er einnig til rannsóknar en ekki hefur verið staðfest hvort um morðvopnið sé að ræða. Fyrsta fasa rannsóknar er lokið og leggur lögreglan nú áherslu á að greina þær upplýsingar sem liggja fyrir og annast eftirfylgni.

- Auglýsing -

Yfirheyra aðila á Íslandi

Í fréttatilkynningu Norsku lögreglunnar kemur fram að verið sé að kanna hvort nágrannar Gísla búi yfir upplýsingum sem gagnast geti rannsókninni. „Við erum núna að ganga á milli húsa í hverf­inu og bönk­um þar á dyr og spyrj­um spurn­inga,“ seg­ir Silja Ar­vola, upp­lýs­inga­full­trúi lög­regl­unn­ar í Finn­mörku, í sam­tali við mbl.is. „Síðan vilj­um við líka fá að yf­ir­heyra nokkra ein­stak­linga á Íslandi.“ Samkvæmt Arvola liggur ekki fyrir hvort lögreglumenn verði sendir til Íslands eða hvort yfirheyrslurnar verði framkvæmdar símleiðis. Ef til þess kæmi þyrfti aðstoð Íslensku lögreglunnar. Þegar er búið að ræða við fjölda ein­stak­linga í Nor­egi vegna máls­ins.

Kærastan minntist Gísla á Facebook síðu sinni

„Gísli Þór var rif­inn af okk­ur í einu vettvangi á laug­ar­dag­inn,“ skrifar Elena Und­eland, kærasta Gísla Þórs, í færslu á Facebook síðu sinni á þriðjudag. „Gísli Þór, hjartað mitt, svo blíður og góður, besti kærasti og stjúp­faðir í heimi. Mitt allt.“ Í færslunni biðlar Elena til allra sem hafa tök á að styrkja fjölskyldu Gísla Þórs, „Það verður kostnaðarsamt að flytja Gísla til hinstu hvílu, hann verður jarðsett­ur á Ísaf­irði á Íslandi. Við hefj­um því söfn­un á borð við þá sem systkini hans og vin­ir á Íslandi hafa hafið.“

Styrktarreikningur sem hún gefur upp er norskur og er banka­reikn­ings­núm­erið 4750.72.45982. Norsk­ar bankamillifærsl­ur krefjast ekki kenni­tölu.

Systir Gísla í losti eftir tíðindin

Heiða B. Þórðardóttir, systir Gísla Þórs, var í losti eftir að lögreglan færði henni tíðindin. Hún sagði þau hafa verið náin, enda rætt saman daglega vikuna fyrir andlátið. „Sársaukinn er ólýsanlegur” sagði hún við Fréttablaðið. Hún segir bróður sinn hafa verið með „mikinn og stóran persónuleika og ljóst sé að margir syrgi hann”.

Fyrrverandi kærasta Gísla skrifaði hjartnæm minningarorð á Facebook

Bríet Sunna Valdimarsdóttir, fyrrverandi kærasta Gísla Þórs, lýsir honum sem einstakri persónu í Facebook færslu. „Þú varst gæddur þessum einstöku persónutöfrum og ljóma. Þú sagðir alla hluti beint út án þess að særa neinn, það tóku allir mark á því sem þú sagðir og þú náðir til allra.“

Bríet segir frá erfiðleikum þeirra Gísla í barneignum og segir hann hafi glaðst mikið þegar hún sagði honum að hún ætti von á barni: „Þú varst svo ánægður þegar ég sagði þér að ég væri loksins ólétt því við gátum aldrei eignast barn en ákváðum bæði að sætta okkur við það og að lífið yrði samt æðislegt því við vorum saman. Ég lokaði sambandinu okkar því ég vissi að þú gast aldrei sleppt mér sjálfur því þú vildir aldrei særa mig. Þú vissir samt jafnvel og ég að sambandið gengi ekki í svona mikilli og langri fjarveru. Þessi mikli og kærleiksmikli vinskapur slitnaði þó aldrei, þó svo við gátum oft stuðað hvort annað þá var það aldrei í langan tíma og fyrirgefningin var alltaf mjög ofarlega hjá okkur báðum.“

Sjá einnig: Hjartnæm Facebook-færsla fyrrverandi kærustu Gísla

Hún segir að Gísli hafi vitað að hún ætti von á strák á undan öllum öðrum. „Ég vissi ekki kynið þá og enginn. Í gær kom í ljós að ég geng með strák. Þú hafðir rétt fyrir þér Gísli. Ég veit nú að strákurinn okkar Stefáns hefur besta og fallegast verndarengil sem til er.“

Fyrrverandi vinnnuveitandi Gísla Þórs segir hann hafa verið til fyrirmyndar

Oddvar Jenssen, fyrr­ver­andi vinnu­veit­andi Gísla Þórs lýsir honum sem yfirveguðum einstaklingi og í alla staði eðalmenni. Hann hafi verið ábyrg­ur og skiln­ings­rík­ur starfsmaður og átt auðvelt með að eiga í sam­skipt­um við aðra. Þetta kemur fram á Norska fréttavefnum iFinnmark. Odd­var rek­ur bæði fisk­vinnslu­fyr­ir­tækið Nor­d­kyn Sea­food og hót­elið Arctic Hotel Mehamn en Gísli Þór starfaði á báðum stöðum. Nordkyn Seafood aðstoðaði Gísla einnig fjárhagslega þegar hann fjárfesti í bát sem hann gerði út.

Bæjarstjóri Gamvik segir íbúa Mehamn slegna

Trond Einar Olaussen, bæjarstjóri í Gamvik, er búsettur í miðbæ Mehamn rétt hjá þar sem Gísli Þór lést. Hann sagði íbúa slegna yfir atvikinu. „Þetta er mikið áfall fyrir samfélagið hér. Við erum fámennt sveitarfélag þar sem allir þekkjast. Fólki er afar brugðið vegna málsins.“ Trond segir fjöldi Íslendinga, sem búsettur eru á svæðinu, sé hlutfallslega mikill. „Íslendingar hafa komið hingað að vinna til dæmis í útgerðinni og við veiðar. Margir hafa fest hér rætur og eru mikilvægur hluti af samfélaginu hér.“ Vísir greinir frá.

Trond segir mikilvægt að íbúar bæjarins standi saman á svona tímum. „Það er mikilvægt að við styðjum hvort annað og einkum þá sem eiga um hvað sárast að binda eftir þennan harmleik. Það mun taka tíma fyrir samfélagið að ná sér eftir þetta og þá er mikilvægt að tala við hvort annað og styðja og við erum það hér í Gamvik og Mehamn. Þetta er atburður sem snertir okkur öll.“

Noregi er skipt í 18 fylki og þar af í 422 hreppsfélög. Mahemn er stjórnsetur Gamvik-hrepps sem er hluti af fylkinu Finnmörku.

Gísli Þór var á forsíðu Vikunnar í janúar árið 2009.

Gísli Þór í viðtali við Vikuna árið 2009

Gísli Þór sagði sögu sína í viðtali við Vikuna árið 2009. Þar lýsti hann uppvaxtarárum sínum og hvernig drykkja og fátækt einkenndi heimilislífið þegar hann bjó hjá móður sinni. Gísli var þrítugur þegar viðtalið birtist. Hann lýsti því hvernig hann hafi búið hjá mömmu sinni en farið til pabba síns tvær helgar á ári, fyrir utan það var faðir hans ekki til staðar.

Í viðtalinu, sem Hrund Þórsdóttir tók, lýsti Gísli því að hann hafi oft þurft að fara svangur í skólann vegna þess að þeir peningar sem voru til á heimilinu voru notaðir til að kaupa áfengi og sígarettur í staðinn fyrir mat. Þetta hafði áhrif á frammistöðu hans í skóla og var hann álitinn erfiður nemandi. „Ef enginn matur var í boði varð ég reiður og var álitinn erfiður, en ég var bara svangur,“ útskýrði hann.

Í viðtalinu kemur einnig fram að ýmis áföll í æsku hafi haft mikil áhrif á líf Gísla og systkina hans. „Þetta bitnaði á okkur systkinunum og í kjölfarið mynduðust sár sem aldrei munu gróa,“ sagði Gísli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -